Færri vistmenn á Sólvangi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, vill að vistmenn á Sólvangi verði 55 til 60. Kom þetta fram í umræðum utan dagskrár á Alþingi. Stjórnendur Sólvangs settu, að beiðni ráðherra, fram hugmyndir um færri vistmenn, sem honum þótti ekki ganga nógu langt, og vonast hann til að hægt verði að bjóða upp á betri húsnæðisaðstæður en nú innan árs. Þá hefur ráðherra skipað nefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði í samvinnu við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, enda ekki hægt að koma á endurbótum á Sólvangi nema að skoða öldrunarþjónustu í Hafnarfirði frá ýmsum hliðum. Í nefndinni eru Vilborg Ingólfsdóttir, deildarstjóri öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, sem er formaður, Hermann Bjarnason, deildarstjóri á fjármálaskrifstofu í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Árni Sverrisson, framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarfulltrúi, Almar Grímsson, varabæjarfulltrúi. Heilbrigðismálaráðherra upplýsti við umræðurnar að hann myndi fela stjórnendum á Sólvangi að koma upp sérstakri þjónustueiningu fyrir heilabilaða þar sem þeir fengju þjónustu við hæfi og mun stærð þeirrar einingar taka mið af tillögum forsvarsmanna á Sólvangi.