Samið um sjúkraflug og sjúkraflutninga á Akureyri
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur undirritað samninga um sjúkraflug á svonefndu norðursvæði og um sjúkraflutninga á svæði Heilsugæslunnar á Akureyri. Heilbrigðismálaráðherra samdi annars vegar við flugfélagið Mýflug um rekstur sjúkraflugs á norðursvæði næstu fimm árin. Gildistími samningsins er frá og með 1. janúar 2006 til og með 31. desember 2010. Greiðsla ríkisins vegna samningsins er áætluð um 530 m.kr. á samningstímanum og er þá miðað við um 300 sjúkraflug á ári, en greiðslur ríkisins eru annars vegar í formi fastra greiðslna og hins vegar greiðslna fyrir hvert flug. Hins vegar gerði heilbrigðismálaráðherra samning við Slökkvilið Akureyrar um samninga um sjúkraflutninga á svæði heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Gildistími samningsins er til ársloka 2009. Akureyrarbær hefur sinnt sjúkraflutningum, en um samrekstur er að ræða með brunavörnum. Árleg greiðsla heilbrigðs- og tryggingamálaráðuneytisins vegna samningsins er rúmar 50 m.kr.
Sjá nánar:
Fréttatilkynning - samkomulag um sjúkraflug
Fréttatilkynning - samkomulag um sjúkraflutninga