Ný starfsstöð fyrir fólk með geðraskanir
Ný starfstöð fyrir fólk með geðraskanir verður í Bolholti og tók Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, starfstöðina formlega í notkun í dag. Þjónustan sem veitt verður í Bolholtinu byggist á samstarfi fagfólksins sem veitir hana, á þörfum og viðhorfum þeirra sem sækja sér þjónustuna, á aðstandendum fólks með geðraskanir og er við það miðað að nýta reynslu og þekkingu allra þessara aðila til að geta veitt sem besta þjónustu. Eftirfylgni geðsjúkra/iðjuþjálfun hefur nú sitt þriðja starfsár í nýju húsnæði, en verkefnið hófst í byrjun sem tilraunaverkefni til tveggja ára og hefur nú fest sig í sessi enda þykir árangurinn vera góður og eftirspurn eftir því.
Lögð er áhersla á:
- auðveldu aðgengi,
- að einstaklingar leiti sér þjónustu á eigin forsendum, og,
- að þjónustan þróist í takt við þarfir notenda og aðstandenda.
Árangursmat á vordögum leiddi til þess að ráðið hefur verið fleira fagfólk til að sinna verkefninu, þ.e. iðjuþjálfa og sálfræðing. Verður þar með til þriggja manna teymi sem mun starfa að eftirfylgd geðsjúkra innan heilsugæslunnar og þróa áfram þá nálgun sem nýtt hefur verið. Starfað verður áfram í samvinnu við aðila sem við á bæði innan heilsugæslunnar og utan, í samvinnu við geðlækna, félagsþjónustuna og aðra aðila utan stofnana sem sinna geðsjúkum. Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi, hefur í uppbyggingu þjónustunnar nýtt sér víðtæka reynslu sem hún hefur af geðsviði undanfarin 11 ár. Einnig hefur hún stuðst við notendarannsóknir.