Ný heilsugæslustöð í Kópavogi tekin í notkun
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, afhenti síðdegis Heilsugæslunni nýtt húsnæði heilsugæslunnar í Kópavogi. Nýja stöðin er í húsnæði yfir Gjánni í Kópavogi. Það er starfsemi heilsugæslunnar í Fannborg, sem flyst í nýja húsnæðið yfir Gjánni og verður tekið á móti fyrstu sjúklingunum á mánudaginn kemur. Um er að ræða um 1000 fermetra húsnæði á efri hæð í nýju húsi sem byggt var yfir Gjána, það er yfir Hafnarfjarðarveginn, sem skilið hefur að byggð í vesturbæ og miðbæ Kópavogs. Benjamín Magnússon, arkitekt, hannaði nýja húsið, en það var fyrirtæki RIS sem reisti það. Það er í eigu fasteignafélagsins Löngustéttar og gerði Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leigusamning við eiganda til langs tíma. Um 40 manns starfa við stöðina og er þar móttaka fyrir fimm heilsugæslulækna og augnlækni. Þá verður miðstöð heimahjúkrunar í Kópavogi til húsa á sama stað. Um tíu þúsund manns eru á þjónustusvæði stöðvarinnar. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, óskaði starfsmönnum og skjólstæðingum stöðvarinnar til hamingju með daginn þegar hann afhenti húsnæðið formlega í dag og bætti við: “Það er alltaf jafn ánægjulegur hver áfanginn sem við náum í uppbyggingu heilsugæslunnar í landinu. Ánægjulegur vegna þess að heilsugæslan, þessi grunnþjónusta heilbrigðisþjónustunnar, er mikilvægasti þátturinn í þeirri þjónustu sem veitt er. Í fyrsta lagi geta skjólstæðingar hennar fengið hér nær tafarlausa þjónustu, þegar eitthvað bjátar á, og í öðru lagi eru starfandi í heilsugæslunni læknar og hjúkrunarfólk sem í flestum tilvikum þekkja viðkomandi og láta sig miklu varða velferð hans eða hennar. Þetta síðast talda er grundvallaratriði heilsugæslunnar – nærþjónusta þar sem fagfólkið bæði læknar og leiðbeinir hverjum og einum.”