Rúmlega helmingur gæti verið heima
Þetta kemur m.a. fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu. Í svarinu segir m.a. “Samkvæmt vistunarmati 1. nóvember bíða samtals 1.019 aldraðir eftir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými. Fyrirspurn var beint til allra þjónustuhópa aldraðra í landinu sem meta vistunarþörf aldraðra og matshópsins sem sér um vistunarmat í Reykjavík, samtals 43 hópar. Fullnægjandi svör um þetta efni bárust ekki frá 14 þjónustuhópum. Að baki þeim þjónustuhópum sem svöruðu fyrirspurninni eru 768 aldraðir sem bíða eftir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými. Af þeim gætu rúmlega 400 einstaklingar verið heima með fullnægjandi heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þessar upplýsingar ber að túlka með fyrirvara þar sem þær byggjast ekki á formlegu endurmati á þörfum þeirra einstaklinga sem eiga vistunarmat, heldur á mati fulltrúa þjónustuhópanna og matshópsins í Reykjavík á fyrirliggjandi gögnum og innsýn þeirra í aðstæður viðkomandi einstaklinga.”
Svar ráðherra á vefsvæði Alþingis: http://www.althingi.is/altext/132/s/0566.html