Hoppa yfir valmynd
25. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherrafundur um fjölskyldu- og jafnréttismál í Helsinki

Annika Saarikko og Ásmundur Einar Daðason - myndVelferðarráðuneytið
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem staddur er í Finnlandi á nú meðal annars í viðræðum við þarlend stjórnvöld um aukið samstarf á sviði félags- og jafnréttismála. Annika Saarikko, ráðherra fjölskyldu- og félagsmála, bauð Ásmundi Einari í heimsókn til að ræða verkefni sem eru sameiginleg embættum þeirra, í kjölfar fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í mars síðastliðnum.

Í tilefni heimsóknarinnar var í dag haldin málstofa með þátttöku ráðherranna, fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, háskólasamfélagsins og fjölmiðla um stefnumótun stjórnvalda á sviði jafnlaunamála og fæðingarorlofsmál. Reynsla Íslendinga af framkvæmd og eftirfylgni sértækra aðgerða og lagasetningar um m.a. feðraorlof og jafnlaunavottun var sérstakt umfjöllunarefni fundarins. Jafnlaunamál, íslenski jafnlaunastaðalinn og lög um jafnlaunavottun vöktu sérstaka athygli finnskra fjölmiðla en líkt og á Íslandi hafa aðgerðir til að draga úr launamun kynjanna verið á dagskrá finnskra stjórnmála.

Norrænir ráðherrar jafnréttismála hafa á undaförnum fjórum áratugum borið saman bækur hvað varðar stöðu og þróun kynjafnréttismála á Norðurlöndunum með formlegu samstarfi. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi tvíhliða samstarfs um reynslu landanna á sviði jafnréttismála. Í báðum löndum bíði mörg verkefni sem bíða úrlausna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Ásmundur lagði á fundinum áherslu á að stefnumótun í málaflokknum þurfi í auknum mæli að taka mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. ,,Karlar þurfa að finna til ábyrgðar að taka aukin þátt í umræðu um jafnréttismál en þátttaka þeirra miðar að auknum lífsgæðum fyrir alla, eins og reynslan af íslensku fæðingarorlofslögunum hefur kennt okkur” sagði Ásmundur Einar meðal annars.

„Töff að vera umhyggjusamur pabbi“

Í umræðum var vakin athygli á því hvað breytingar á íslensku fæðingarorlofinu um sjálfstæðan rétt karla til töku orlofs hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála og vísað í rannsóknir sem sýna að karlar taka í kjölfar lagasetningarinnar virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. ,,Lögin hafa breytt samkeppnisstöðu ungs fólks á vinnumarkaði og síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn sín – Það þykir töff að vera umhyggjusamur pabbi,” sagði Ásmundur.

  • Fundað í Helsinki um aukið samstarf Íslands og Finnlands á sviði félags- og jafnréttismála - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta