Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2022

Franska formennskan sýnir á spilin

Að þessu sinni er fjallað um:

  • óformlegan ráðherrafund heilbrigðisráðherra
  • kosningu nýs forseta Evrópuþingsins
  • þéttara samstarf háskóla
  • fjórða samgöngupakkann
  • janúarfund fjármála- og efnahagsráðherra
  • flokkun á gasi og kjarnorku
  • samráð um fjölmiðlafrelsi
  • ráðherrafund um landbúnað og sjávarútveg

 

Rætt um 4. bólusetninguna

Á óformlegum fundi heilbrigðisráðherra ESB-ríkja sem Frakkar stýrðu í dag, föstudaginn 21. janúar, var meðal annars rætt um afstöðu til 4. bólusetningar vegna Covid-19. Fram kom að meirihluti ríkja er ekki kominn á þann stað að hafa tekið slíka ákvörðun fyrir allan almenning. Menn vilja bíða og sjá hverju fram vindur og sjá vísindaleg gögn, m.a. um áhrif gegn ómíkron afbrigðinu, áður en slík  ákvörðun er tekin. Flestir eru nú uppteknir við að koma 3ju sprautunni til almennings. Síðan eru einhver ríki, aðallega í Austur-Evrópu, enn að reyna að ná ásættanlegum árangri varðandi fyrstu tvær sprauturnar.  

Skýrt kom fram að bólusetning sé virkasta aðgerðin gegn Covid-19. Að meðaltali hafa um 40% manna fengið örvunarskammt (3ja skammt) á EES-svæðinu skv. upplýsingum frá Evrópsku sóttvarnastofnuninni (ECDC).

Staðan er nokkuð misjöfn hvað faraldurinn varðar í aðildarríkjunum. Þar sem núverandi bylgja er lengst komin eru ríki byrjuð að aflétta aðgerðum að nýju. Heilt yfir gildir þó að hvatt er til grímunotkunar, fjarlægðarmarka þar sem því verður komið við, vinnu að heiman o.s.frv.

Víðast hvar hefur tímalengd sóttkvíar og einangrunar verið stytt og þá með hliðsjón af leiðbeiningum ECDC. Þríbólusettir einstaklingar njóta víða enn frekar góðs af styttingu sóttkvíar og einangrunar.

Nýr forseti Evrópuþingsins

Roberta Metsola var í vikunni kjörin forseti Evrópuþingsins. Hún er hægri sinnaður lögfræðingur frá Möltu og fyrsta konan til að gegna þessu embætti í 20 ár. Metsola sem fagnaði 43 ára afmælisdegi á kjördag, 18. janúar, er einnig yngsti forseti Evrópuþingsins til þessa.

Metsola var kjörin til setu á Evrópuþinginu 2013 en gegndi áður störfum í utanríkisþjónustu Möltu og hjá framkvæmdastjórn ESB. Hún er fjögurra barna móðir og segist vera af Erasmus-kynslóðinni en hún lauk meðal annars meistaragráðu við College of Europe í Brugge.

Hún er kjörin til tveggja og hálfs árs í samræmi við samkomulag stærri flokkabandalaga á þinginu.

Fyrrverandi forseti þingsins, David Sassoli, féll frá fyrir aldur fram í síðustu viku. Til stóð að hann léti af störfum í þessari viku og var Metsola talin líklegasti arftaki hans.

Stærstu flokkarnir á Evrópuþinginu sneru saman bökum í kosningunni. Er þar um að ræða European People´s Party (EPP), sósíalista og demókrata og miðjuflokk sem kennir sig við endurnýjun og stendur nærri Macron Frakklandsforseta.  Hlaut Metsola 458 atkvæði af 690.

Það sem helst var talið geta unnið gegn Metsola við kosninguna var andstaða hennar við þungunarrof. Malta er eina ESB-ríkið þar sem fóstureyðingar eru alfarið bannaðar. Hún róaði þó ýmsa í aðdraganda kosningarinnar með því að heita því að standa vörð um afstöðu Evrópuþingsins í því máli frekar en eigin persónulegar skoðanir. Evrópuþingið hafi ítrekað hvatt til aukinna réttinda á þessu sviði. Þannig hefði hún nýverið, sem varaforseti þingsins, komið fordæmingu þess á framfæri í garð pólskra stjórnvalda vegna löggjafar sem beinist gegn fóstureyðingum.

Eftir því var tekið að þegar Emmanuel Macron Frakklandsforseti ávarpaði Evrópuþingið daginn eftir kjör Metsola lagði hann m.a. sérstaka áherslu á rétt til fóstureyðinga sem væri mannréttindi sem ættu heima í grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins.

Þéttara samstarf háskóla í Evrópu

Framkvæmdastjórn EBS birti í vikunni evrópska stefnu fyrir háskóla (e. Commission Communication on a European strategy for universities )og tillögu að tilmælum ráðsins um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu (e. Commission proposal for a Council Recommendation on building bridges for effective European higher education cooperation).

Með stefnunni og tillögunni vill framkvæmdastjórnin stuðla að þéttara, skilvirkara og sjálfbærara samstarfi háskólastofnana í Evrópu. Bent er á að Evrópa þurfi meira á framlagi háskóla að halda nú en nokkru sinni. Á það sérstaklega við þegar horft er til þeirra stóru samfélagslegu áskorana sem við stöndum frammi fyrir, t.d. í loftslagsmálum og stafrænum málum, á sama tíma og þjóðir kljást við stærsta heimsfaraldur í heila öld og þær efnahagslegu afleiðingar sem honum fylgja. Sérstaða háskóla er mikil þegar kemur að því að vinna að lausnum að þessum stærstu áskorunum því í háskólunum mætast menntun, rannsóknir og nýsköpun.

Tilgangurinn með evrópskri stefnu fyrir háskóla er að styðja við og gera öllum háskólum í Evrópu kleift að aðlagast breyttum aðstæðum, auka drifkraft þeirra og hæfni og stuðla þannig að aukinni seiglu álfunnar til uppbyggingar að nýju að loknum heimsfaraldri og takast á við áskoranir framtíðarinnar. Stefnan er byggð á niðurstöðum Bologna ferlisins og reynslunni af fyrstu samstarfsnetum evrópskra háskóla (e. European Universities Initiative).

 Í stefnunni eru settar fram aðgerðir sem eiga að styðja háskóla til þess að ná fjórum megin markmiðum:
- efla evrópska vídd háskóla og vísinda
- styðja við háskóla sem hreyfiafl evrópskra lífshátta (e. „Consolidate universities as lighthouses for our European way of life.“)
- styrkja háskóla í hlutverki þeirra sem lykilaðila í stafrænu og grænu umbreytingunum
- styðja við háskóla sem hreyfiafl fyrir hlutverk og forystu ESB á alþjóðavettvangi.

Þessum markmiðum á að ná með framkvæmd nokkurra lykilverkefna:

  • Fjölga samstarfsnetum evrópskra háskóla í 60 með þátttöku allt að 500 háskólastofnana árið 2024. Samstarfsnetin eru nú 41 talsins og á Háskóli Íslands aðild að einu þeirra.
  • Koma á reglugerð fyrir samstarfsnet háskóla sem gerir þeim kleift að fara í sameiginlega stefnumótun, sameina fjármuni og önnur aðföng. Á þessu ári verður tilraunaverkefni hleypt af stokkunum undir Erasmus+ áætluninni til undirbúnings en stefnt er að því að reglugerðin verði tilbúin um mitt ár 2024.
  • Koma á evrópskri námsgráðu á landsvísu um mitt ár 2024. Með gráðunni á að viðurkenna virði fjölþjóðlegrar háskólamenntunar og minnka skriffinnsku við að koma á fót sameiginlegum námsbrautum.
  • Efla og auka notkun rafræna evrópska nemendaskírteinisins (e. European Student Card). Um er að ræða smáforrit þar sem nemendur geta sinnt allri umsýslu vegna skiptináms síns, fyrir dvölina, á meðan henni stendur og eftir að henni lýkur. Meðal annars er stefnt að því að þróa sérstakt auðkenni fyrir hvern nemanda fyrir mitt ár 2024.

Reglugerðin fyrir samstarfsnet háskóla og evrópska námsgráðan eru umdeildar aðgerðir hjá mörgum aðildarríkja ESB og því ekki útséð með framkvæmd og innleiðingu þeirra.

Í tillögu að tilmælum ráðsins um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu er aðildarríkin hvött til að grípa til aðgerða og skapa viðeigandi aðstæður á landsvísu til þess að geta betur staðið að fjölþjóðlegu samstarfi á háskólastigi og árangursríkari innleiðingu evrópska menntasvæðisins.

Í þessu samhengi eru settar fram ýmsar tillögur fyrir aðildarríkin. Þar á meðal að styðja háskóla til þess að skoða mögulega útfærslu reglugerðar um samstarfsnet evrópskra háskóla, auðvelda háskólum að bjóða upp á sameiginlegar námsbrautir og sameiginlegar evrópskar námsgráður og styðja við aukinn hreyfanleika nemenda í fjölþjóðlegum námsbrautum. Þá er lagt til að aukinn fjárhagslegur stuðningur verði settur í samstarfsnet evrópskra háskóla, að standa áframhaldandi vörð um akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla og tryggja innleiðingu „European Approach for the Quality Assurance of Joint Programmes.“

Stefnan og tillagan að tilmælunum eiga að styðja við markmið ESB um að koma evrópska menntasvæðinu á fót árið 2025 og tryggja frekari samlegð milli evrópska rannsóknasvæðisins (ERA) og evrópska háskólasvæðisins (EHEA).

Frakkar, sem fara með formennsku í ráðinu, stefna að því að fjalla um og fá samþykkt þessi skjöl á fundi ráðsins sem fram fer þann 4.-5. apríl næstkomandi. Þá er vert að benda á að þessi mál verða til umfjöllunar á óformlegum fundi ráðherra háskóla og vísinda í París þann 26. janúar en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sækir fundinn fyrir Íslands hönd.

Orðsending framkvæmdastjórnar ESB um evrópska stefnu fyrir háskóla

Tillaga að tilmælum ráðsins um árangursríkt samstarf háskóla í Evrópu

Fréttatilkynning framvkæmdastjórnar ESB

Framkvæmdastjórnin leggur fram fjórða samgöngupakkann

Um miðjan desember sl. birti framkvæmdastjórn ESB nýjan samgöngupakka (e. mobility package).  Tillögunum er ætlað að styðja við umbreytingu í hreinar, grænar og snjallar samgöngur í samræmi við markmið græna sáttmálans. Lagt er til að það verði gert með því að styrkja lestarsamgöngur um lengri leiðir og yfir landamæri, nýta stafræna tækni í samgöngum, byggja upp orkustöðvar fyrir vistvænt eldsneyti, vinna að skilvirkari bókunar- og ferðaáætlunarkerfum fyrir ferðir (e. multimodal) með ýmsum samgöngumáta og stuðla að sjálfbærum borgarsamgöngum. Í pakkanum eru þrjár orsendingar sem innihalda stefnumörkun og aðgerðaáætlanir um:

  • tengingu samevrópska flutninganetsins TEN-T við flutninganet nágrannaríkja ESB.
  • eflingu járnbrautarsamgangna fyrir lengri leiðir (e. long distance) og yfir landamæri.
  • nýja rammaáætlun um samgöngur í þéttbýli.

Í pakkanum eru einnig tvær tillögur að eftirfarandi gerðum:

  • nýrri reglugerð um leiðbeinandi reglur fyrir uppbyggingu samevrópska flutninganetsins TEN-T sem komi í stað fyrri reglugerðar auk breytinga á tveimur fyrirliggjandi reglugerðum.
  • tilskipun um breytingar á tilskipun um snjallar vegasamgöngur og tengingar við aðra samgöngumáta.

Fram kemur í orðsendingunni um tengingu evrópska flutninganetsins við nágrannaríki að framkvæmdastjórnin muni vinna að því að hraða uppbyggingu samgönguinnviða sem tengja það við nágrannaríki sambandsins, s.s. vegi og hafnir, og endurnýjun þeirra með hliðsjón af stöðlum evrópska flutninganetsins. Sömuleiðis verði unnið að því að eyða flöskuhálsum í netinu, innleiddar stafrænar lausnir, unnið að uppbyggingu 5G við netið og yfirfærslu á fyrirliggjandi upplýsingakerfum sambandsins yfir landamæri og stuðlað að skilvirkari tengingum á milli samgöngumáta.

Í orðsendingu um borgarsamgöngur eru boðaðar fjöldamargar aðgerðir sem miða að því að tengja betur evrópska flutningakerfið við samgöngukerfi borga, boðaður er stuðningur og reglur um eflingu upplýsingamiðlunar um samgöngur í borgum á milli rekstraraðila og til notenda og fjallað um væntanlegar aðgerðir sem stuðla að umhverfisvænum borgarsamgöngum. Loks eru boðaðar tillögur að leiðbeiningum (e. guidance) um leigubíla og hliðstæða þjónustu (e. on demand).

Í stefnumörkun um eflingu járnbrautarsamgangna yfir landamæri eru boðaðar margvíslegar aðgerðir og fjárfestingar í lestarsamgöngum sem miða við að byggja fleiri háhraðatengingar innan Evrópu, stytta ferðatíma og fjölga tengingum við aðra samgöngumáta og gera þær skilvirkari.

Tillaga að reglugerð um breytt viðmið fyrir evrópska flutninganetið miðar að því að draga úr teppum í samgöngukerfinu m.a. með því að beina flutningum á umhverfisvæna flutningamáta, s.s. járnbrautir og vatnaleiðir. Einnig að stuðla að aukinni skilvirkni og betri tengingum við samgöngukerfi sveitarfélaga. Þá er stefnt að því að stuðla að auknu áfallaþoli flutninganetsins og loks að styrkja stjórnarhætti fyrir netið t.d. með bættu eftirliti og skýrslugjöf.

Markmið tillögu að tilskipun um breytingu á tilskipun um snjallar vegasamgöngur er að leysa úr ýmsum hnökrum sem komið hafa upp og standa í vegi fyrir skilvirkri nýtingu stafrænna kerfa fyrir samgöngur. Í gerðinni eru ákvæði sem ætlað er að stuðla að auknu framboðsöryggi og samhæfingu upplýsingakerfa, aukinni samvinnu haghafa og greiða fyrir miðlun gagna fyrir upplýsingakerfi á milli rekstraraðila og haghafa.

Lágmarkstekjuskattur á alþjóðleg stórfyrirtæki

Undanfari janúarfundar hjá fjármála- og efnahagshagsráðherrum ESB var sérstakur fundur evruríkjanna þann 17. janúar um stöðu efnahagsmála á evrusvæðinu í alþjóðlegu samhengi. Á fundinum var einnig aðalhagfræðingur OECD til skrafs og ráðagerða. Eins og við var að búast var mikið rætt um efnahagsleg áhrif Covid veirunnar á atvinnulífið, einkum þó á fyrirtækin. Þar þarf að eiga sér stað uppstokkun (e. corporate restructuring) samhliða aðstoð gagnvart greiðsluhæfi þeirra (e. solvency situation) eigi þau að eiga sér viðreisnar von. Mikil verðbólga á evrusvæðinu var einnig rædd og virðast flestir á þeirri skoðun að hún verði meiri en spár gera ráð fyrir. Sömuleiðis fór fram  mikil umræða um fjármálareglur ESB (e. economic governance or fiscal framework) séð frá sjónarhóli evruríkjanna sem var einnig á dagskrá ráðherrafundarins daginn eftir

Fundur fjármála- og efnahagshagsráðherra ESB. Þetta var fyrsti fundur ráðherranna undir stjórn Frakka sem tóku við formennskunni af Slóvenum um nýliðin áramót. Drjúgur hluti fundarins fór því í að kynna áherslumál frönsku formennskunnar næstu mánuði. Eftirfarandi inngangsorð Bruno Le Maire, fjármála- og efnahagsráðherra Frakklands, lýsa í stórum dráttum þeirra sýn á stöðuna í Evrópu:

“Europe has managed to bounce back from the worst economic crisis since 1929. We took the right action at the right time. However, the crisis showed us that it is necessary to build a new economic model, based on strategic autonomy. What kind of Europe do we want to build? We want an independent Europe that is capable of defending its values, promoting investment in innovation and key technologies, and protecting the environment. We want to build a new model based on sustainable growth.”

Lágmarkstekjuskattur á alþjóðleg stórfyrirtæki. Eftir kynningu Frakka var komið að því að ræða eitt af aðaláherslumálum þeirra sem er 15% lágmarksskattlagning á hagnað fyrirtækja, gjarnan nefnd Pillar 2, því hér er í raun um tvískipta skattlagningu að ræða. Sérstakt gjald, þekkt undir heitinu Pillar 1, er hinn hlutinn af þessu tveggja stoða kerfi sem OECD gerði tillögu um síðastliðið haust. Að baki stendur það markmið að tryggja að alþjóðafyrirtæki og tæknirisar  (e. multinationals and tech giants) borgi það sem þeim ber í skatt. Rétt er að taka fram að tillaga OECD um 15% lágmarkskatt tekur einungis til fyrirtækja sem eru með tekjur umfram 750 milljónir evra sem svarar til 110 milljarða króna. Í lok október 2021 samþykktu G20 ríkin einróma tillögu OECD.

Til frekari skýringa má nefna að Pillar 1 skatturinn er hugsaður sem alþjóðaskattlagning þar sem þátttökuríkin munu skipta milli sín tekjum af honum (e. International Tax Agreement). Tekjur ESB ríkjanna af skattinum munu síðan renna í Bjargráðasjóðinn sem áður hefur verið fjallað um í Vaktinni. Talið er að heildarskatturinn nemi um 125 milljörðum dollurum en ESB ríkin eiga einungis lítinn hluta af þeirri fjárhæð. Sum aðildaríkin, m.a. Eistland með sitt einfalda skattkerfi, hefur gagnrýnt þessa tillögu, vegna þess að hún geri ekkert annað en að flækja fyrirtækjaskattlagninguna. Pillar 2 þarf hins vegar að lögfesta með tilskipun (e. Directive) sem öll aðildarríkin þurfa að samþykkja þar sem um er að ræða skattamál.

Fyrir ráðherrafundinum lá tillaga frá framkvæmdastjórninni um útfærslu á fyrrgreindri skattlagningu til samþykktar. Í umræðunni um málið urðu Frakkar, sem eru með það á forgangslista sínum, fyrir fyrsta áfallinu í formannstíð sinni. Þrjú ríki, Eistland, Ungverjaland og Pólland,  lýstu yfir andstöðu við málið þrátt fyrir að hafa samþykkt það þegar málið var afgreitt hjá OECD Þær raddir heyrast að Ungverjar hafi tekið málið í gíslingu vegna þess hversu erfiðlega gengur fyrir þá að fá “sinn hlut” úr Bjargráðasjóðnum og að Pólland sé að sýna þeim samstöðu. Eistland hafði þegar lýst yfir áhyggjum sínum af flóknu skattkerfi á vettvangi OECD, en samþykkti tillöguna með semingi á lokametrunum. Málið er því komið í ákveðna pattstöðu, en áðurnefnd skattlagning átti að taka gildi 1. janúar 2023. Að lokum má nefna að kolefnisskattlagning yfir landamæri (e. CBAM) er einnig eitt af forgangsmálum Frakka. Í næstu Vakt verður fjallað sérstaklega um áherslur Frakka í skattamálum ESB.

Lagabreytingar tengdar fjármálamarkaði voru einnig ræddar á fundinum, en Frakkar leggja mikið uppúr að að styrkja viðnám evrópska bankageirans, auk þess að efla eftirlit hans og áhættustýringu. Þá er baráttan og auknar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. anti-money laundering and financing of terrorism) líka ofarlega á blaði hjá þeim. Ekki kom fram hvort rætt hafi verið sérstaklega um fyrirhugaðar breytingar á svokallaðri „Taxonomy“ reglugerð, þar sem Frakkar hafa barist fyrir að kjarnorka verði stimpluð sem græn orka, sbr. umfjöllun hér á eftir.

Efnahagsbati og breyttar fjármálareglur ESB. Á blaðamannafundi að loknum ráðherrafundinum lýsti Bruno Le Maire ásamt Valdis Dombrovkis hvað helst hefði verið rætt undir þessum dagskrárlið. Hann sagði að þrátt fyrir góðan efnahagsbata undanfarna mánuði væri enn blikur á lofti. Í fyrsta lagi væri enn ekki séð fyrir endann á Covid19, í öðru lagi væri hægur efnahagsvöxtur í Kína og í þriðja lagi of mikil verðbólga sem ekki sæi fyrir endann á. Þá nefndi hann að samtals 20 aðildarríki ESB hefðu þegar fengið greiðslur úr Bjargráðasjóðnum og fleiri myndu bætast við alveg á næstunni. Spurður um endurskoðun á fjármálareglunum (e. Stability Pact or Fiscal Rules) sagði hann stefnuna vera að ljúka henni fyrir árið 2026. Vinnan væri þegar hafin en hér þyrfti að vanda vel til verka. Finna þyrfti eðlilegt jafnvægi milli aukinna fjárfestinga, sem væru nauðsynlegar, og heilbrigðrar stöðu í opinberum fjármálum (e. healthy public finance) í aðildarríkjunum með raunsæi að leiðarljósi. Öllum væri ljóst að skuldastaðan væri þegar of há og því þyrfti að breyta. Hér þyrftu aðildarríkin að komast að sameiginlegri niðurstöðu (e. common grounds). Í máli hans kom einnig fram að ýmis hugtök eða mælikvarðar í fjármálareglunum eins og t.d. „structural balance“ væru orðnir úreltir. Nær væri að horfa á útgjöld hins opinbera og greiningu þeirra við endurskoðun fjármálareglnanna. Í þessu samhengi nefndi hann „New Growth Model for EU“. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þessi mál þróast í formennskutíð Frakka.

Flokkun á gasi og kjarnorku

Um áramótin gaf framkvæmdastjórn ESB út hvert stefndi varðandi flokkun á orkugjöfunum gasi og kjarnorku frá sjónarhóli sjálfbærrar fjármögnunar (e. taxonomy). Í ljósi vísindalegrar ráðgjafar og stöðunnar í mismunandi aðildarríkjum þá telur framkvæmdastjórnin að jarðgas og kjarnorka hafi hlutverki að gegna við að auðvelda umbreytingu í átt að framtíð þar sem endurnýjanlegir orkugjafar ráða för. Gas og kjarnorka verði sem sagt litin með velþóknun að vissum skilyrðum uppfylltum.

Endanleg afstaða framkvæmdastjórnarinnar í þessu efni mun skýrast síðar í mánuðinum að loknu samráði um þessa afstöðu.

Eins og fyrr hefur verið nefnt eru Frakkar helstu bandamenn þess að kjarnorka verði samþykkt sem grænn orkugjafi til jafns við t.d. jarðvarma eða vatnsorku. Hafin er heiftúðug umræða um ágæti tillögu framkvæmdastjórnarinnar þar sem sitt sýnist hverjum. Á meðfylgjandi slóð úr Politico má finna ágætis sýnishorn af umræðunni um málið. https://www.politico.eu/article/the-eus-taxonomy-tussle/. Nathan Fabian, formaður ráðgjafarvettvangs framkvæmdastjórarinnar um málefnið, er til dæmis ekki sáttur við tillöguna.

Samráð um fjölmiðlafrelsi

Framkvæmdastjórn ESB hleypti í ársbyrjun af stokkunum samráði um fyrirhugaða löggjöf um fjölmiðlafrelsi. Kallað er eftir sjónarmiðum um mikilvægustu málefnin sem varði fjölmiðla á innri markaðnum. Bæði þar horft til efnahagslegrar þróunar og afkomu fjölmiðla og hindrana sem þeir verða fyrir í starfi sínu. Ekki er enn ljóst hvert verður meginefni fyrirhugaðrar löggjafar framkvæmdastjórnin er nú að safna upplýsingum um hvar helst sé talin þörf á íhlutun ESB í formi reglusetningar á þessu mikilvæga sviði.

Ráðherrafundur um landbúnað og sjávarútveg

Á ráðherrafundi 17. janúar sl. kynnti landbúnaðarráðherra Frakklands áherslur í formennskutíð Frakka á þessu sviði. Eitt meginefnið verður hvernig tryggja megi að afurðir sem fluttar eru inn uppfylli kröfur ESB á sviði umhverfis og heilbrigðismála. Þar er m.a. vísað til þess að landbúnaður hafi sem minnst kolefnisspor og að notkun lyfja sé takmörkuð. Á sviði sjávarútvegsmála verður áhersla á endurskoðun reglna um eftirlit með fiskveiðum auk þess sem efnt verður til almennrar umræðu um sameiginlegu evrópsku sjávarútvegsstefnuna og framkvæmd hennar.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta