Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2014 Forsætisráðuneytið

A-541/2014. Úrskurður frá 24. júlí 2014

Úrskurður

Hinn 24. júlí kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-541/2014 í máli ÚNU 140040010. 

Kæra og málsatvik

Með erindi 23. apríl 2014 kærði Íslenska gámafélagið hf. afgreiðslu Sveitarfélagsins Ölfuss á beiðni félagsins um aðgang að gögnum varðandi tilboð í sorphirðu hjá sveitarfélaginu. 

Í kærunni er rakið að kærandi hafi þann 30. desember 2013 óskað eftir aðgangi að tilboði eins bjóðenda í sorphirðu fyrir Sveitarfélagið Ölfus. Af gögnum málsins verður ráðið að þann 23. sama mánaðar hafi verið opnuð tilboð vegna umrædds útboðs og að tilboð Gámaþjónustunnar hf. hafi verið lægst. Í beiðni kæranda var óskað eftir aðgangi að tilboði Gámaþjónustunnar hf. og fylgigögnum þess. Þá var óskað eftir „auknum upplýsingum sé um undirverktöku eða heimildar til undirverktöku að ræða“. Einnig „sundurliðun á framlagðri kostnaðaráætlun sveitarfélagsins“ fyrir umrætt verk. Þann 17. janúar 2014 var erindi kæranda svarað á þá leið að umbeðnar upplýsingar yrðu ekki látnar af hendi, „m.a. þar sem tilboð eru ekki að fullu metin og ekki hefur verið gengið til samninga um verkefnið“. 

Í millitíðinni aflaði Sveitarfélagið Ölfus umsagnar Gámaþjónustunnar hf. þar sem fram kom að verksamningur hefði ekki verið undirritaður. Þá var tekið fram að tilboðshafa væri með öllu óheimilt að afhenda samkeppnisaðila tilboð Gámaþjónustunnar hf. og þá sér í lagi í miðju útboðsferli. Þau gögn og þá sérstaklega tilboðsskrá væri trúnaðarmál milli verkkaupa og bjóðanda eins og skýrt væri tekið fram í kafla 0.4.1 í útboðsgögnum. Þá mætti geta þess að 22. janúar 2014 yrði auglýst opnun tilboða í sorphirðu fyrir Hveragerðisbæ. Teldi Gámaþjónustan hf. að Sveitarfélagið Ölfus bryti trúnað við bjóðanda og bakaði sér skaðabótaábyrgð með afhendingu umræddra gagna við þessar aðstæður.
 
Þann 25. mars 2014 ítrekaði kærandi beiðni sína til Sveitarfélagsins Ölfuss. Sveitarfélagið hafnaði beiðninni 29. sama mánaðar með vísan til fyrri niðurstöðu sinnar. Í kærunni kemur fram að kærð sé ákvörðun sveitarfélagsins 29. mars 2014. Kærandi vísi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. A-409/2012 og byggi rétt sinn á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en einnig 1. mgr. 5. gr. laganna. 

Málsmeðferð

Með bréfi 28. apríl 2014 var Sveitarfélaginu Ölfusi gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda kæru. Í svari sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar 14. maí sama ár er vísað til þess að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skuli mál borin skriflega undir nefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Sveitarfélagið hafi tilkynnt kæranda þann 17. janúar 2014 að erindi hans hefði verið synjað. Síðari tölvupóstur sveitarfélagsins 29. janúar 2014 hafi aðeins falið í sér ítrekun á fyrri ákvörðun þess. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni 23. apríl 2014. 

Sveitarfélagið vísar einnig til þess að 9. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að kæranda verði veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum og gögnum sem varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Gámaþjónustunnar ehf., enda myndi slíkt hafa alvarleg áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Yrði það í hæsta máta óeðlilegt ef samkeppnisaðili gæti fengið svo nákvæmar upplýsingar um keppinaut sinn svo sem felist í hinum umbeðnu gögnum. Þá hafi sveitarfélagið heitið Gámaþjónustunni hf. og öðrum tilboðsgjöfum trúnaði í útboðinu. Ein af forsendum þess að Gámaþjónustan ehf. hafi ákveðið að gera tilboð í umræddu útboði hafi verið sú að félaginu hafi verið heitið trúnaði. Kjósi úrskurðarnefndin að líta framhjá þessu loforði sem fram komi í útboðslýsingu, verði það til þess að slík loforð um trúnað verði framvegis merkingarlaus og mögulegir tilboðsgjafar muni hika við að gera tilboð í komandi útboðum, af ótta við að viðskipta- og atvinnuleyndarmál þeirra verði afhjúpuð. Muni þetta leiða til þess að opinberar stofnanir og sveitarfélög muni ekki hafa val um eins hagstæð tilboð og ella, sem leiði til þess að skattfé almennings verði ekki varið með eins skynsamlegum hætti. Opinberar stofnanir og sveitarfélög muni, í komandi tilboðum, aðeins hafa val um tilboð frá fyrirtækjum sem treysti sér til að taka áhættu á að viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar um nýleg verð og verðákvarðanir verði gerðar opinberar. Gefi augaleið að takmarkaðri fjöldi tilboðsgjafa muni leiða til dýrari og þar af leiðandi óhagkvæmari tilboða. Telur sveitarfélagið að annars vegar samkeppnishagsmunir Gámaþjónustunnar ehf. og hins vegar hagsmunir opinberra stofnana, sveitarfélaga og skattgreiðenda af því að hafa ætíð val um bestu tilboðin, gangi framar hagsmunum kæranda af því að fá aðgang að umbeðnum gögnum. 

Sveitarfélagið vísar einnig til þess að atviksbundið mat á hagsmunum aðila verði að fara fram. Af úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. A-472/2013 verði ráðið að meta verði í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að veita aðgang að gögnum sem lögð voru fram með tilboðum í útboði. Þá verði að eiga sér stað atviksbundið mat á hagsmunum beggja aðila og þeir hagsmunir bornir saman. Gögnin verði m.ö.o. að vera metin með hliðsjón af því hvort aðgangur að þeim geti raskað hagsmunum þess sem upplýsingarnar varða með ótilhlýðilegum hætti, þannig að rétt þyki að hagsmunir kæranda af aðgangi víki fyrir þeim hagsmunum. Vísar kærandi í þessu samhengi til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-388/2011, A-407/2012 og A-442/2012. Telur kærandi að atviksbundið mat á hagsmunum kæranda af aðgangi að gögnum og samkeppnishagsmunum Gámaþjónustunnar hf. sem og hagsmunum opinberra stofnana, sveitarfélaga og skattgreiðenda af því að hafa ætíð val um bestu tilboðin leiði til þess að synja verði kæranda um aðgang að þeim gögnum sem Gámaþjónustan hf. lagði fram með tilboði sínu. Umrædd gögn séu m.a. ítarlegar tilboðsskrár með magntölum og einingaverðum, yfirlýsing um skuldastöðu við ríkissjóð og upplýsingar um lífeyrisgreiðslur. Málið varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Gámaþjónustunnar hf. og myndi aðgangur að gögnunum að öllum líkindum valda Gámaþjónustunni hf. tilfinnanlegu tjóni, enda myndi kærandi hæglega geta hagnýtt sér umræddar upplýsingar á kostnað Gámaþjónustunnar hf. Þá séu upplýsingarnar bæði nýlegar og ítarlegar. 

Sveitarfélagið bendir einnig á að kærandi geti ekki aflað umræddra upplýsinga með öðru móti en með atbeina úrskurðarnefndarinnar. Verði kæranda veittur aðgangur að þeim muni það fela í sér skaðlegt fordæmi. Afleiðingarnar yrðu þær að félög sem vildu fá upplýsingar um samkeppnisaðila sína, en geti ekki fengið þær eftir hefðbundnum leiðum, muni taka þátt í útboðum, meðan annars í þeim tilgangi að koma höndum yfir viðkvæmar upplýsingar um þá sem taki þátt í því. Félagið geti þá krafist aðgangs að gögnunum, kært synjun um aðgang til úrskurðarnefndarinnar og fengið aðgang að upplýsingunum með litlum tilkostnaði. Félagið væri þá í betri samkeppnisstöðu en fyrir útboðið þar sem það gæti hagað markaðsfærslu sinni til samræmis við hinar nýfengnu upplýsingar. 

Sveitarfélagið telji að ekki séu skilyrði til þess að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Líta verði sérstaklega til þess fjárhagstjóns sem Gámaþjónustan hf. gæti orðið fyrir vegna aðgangs kæranda að gögnunum og einnig til þess að mjög stutt sé liðið síðan gögnin voru sett fram, ólíkt þeirri aðstöðu sem uppi var í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-472/2013. Yrði veittur aðgangur að umræddum upplýsingum hefði kærandi viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar um nýleg verð og verðákvarðanir Gámaþjónustunnar hf. og gæti hagað markaðsfærslu sinni til samræmis við það. Slíkt sé meðal annars í ósamræmi við meginmarkmið samkeppnislaga nr. 44/2005 sem 10. gr. laganna byggi meðal annars á, um að keppinautar hegði sér með sjálfstæðum hætti og taki sjálfstæðar ákvarðanir um verð á vörum og þjónustu. 

Sveitarfélagið bendir einnig á þá bagalegu stöðu að sá sem hafi mestra hagsmuna að gæta, þ.e.a.s. Gámaþjónustan hf., sé ekki aðili málsins og geti ekki vísað úrskurði nefndarinnar til dómstóla. Sveitarfélagið beri á hinn bóginn ábyrgð á því að rjúfa trúnað við tilboðsgjafa í miðju útboðsferli. Að mati sveitarfélagsins sé alvarlegt ef honum verði gert skylt að brjóta trúnað við bjóðendur í útboðinu. 

Þá hafnar sveitarfélagið því að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nefndarinnar nr. A-409/2012 hafi fordæmisgildi í málinu eins og haldið sé fram af hálfu kæranda. Í umræddum úrskuði hafi niðurstaða um aðgang að gögnum ráðist af því að aðgangur kæranda að gögnunum var ekki talinn þriðja aðila til tjóns. Sama hafi verið uppi á teningnum í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-407/2012. Sveitarfélagið telji að aðgangur kæranda að útboðsgögnum Gámaþjónustunnar hf. yrði félaginu til gífurlegs fjárhagstjóns. Hafnar sveitarfélagið því að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að umræddum gögnum vegi í þessu tilviki þyngra en hagsmunir Gámaþjónustunnar hf. 

Í öllu falli telur sveitarfélagið að aðgang skuli aðeins veita að hluta gagnanna á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Ekki verði veittur aðgangur að tilboðsskrám en þar sé viðkvæmustu trúnaðarupplýsingarnar að finna. Fái kærandi aðgang að tilboðsskrá, þar sem tilboðsverð sé nákvæmlega sundurliðað í einstaka tilboðsliði, verði kæranda gert mun auðveldara en ella að áætla hvað Gámaþjónustan hf. muni bjóða í sambærilega verkliði í næstu útboðum. 

Kærandi gerði athugasemdir við umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss með bréfi 2. júní 2014. Kærandi mótmælir því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram. Tölvupóstur sveitarfélagsins 17. janúar 2014 hafi ekki verið „höfnun“ heldur hafi verið um „skýringu“ að ræða á því hvers vegna ekki væri unnt að afhenda gögnin. Kærufrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en 29. mars 2014 og því hafi kæran 23. apríl sama ár komið fram innan kærufrestsins.  Þá er á það bent að Gámaþjónustan hf. sé ekki aðili málsins og hafi „ekkert um það að segja“ hvort umbeðin gögn verði afhent öðrum tilboðsgjöfum. Þá er því mótmælt að ein af forsendum þess að Gámaþjónustan hf. hafi boðið í verkið hafi verið að félaginu hafi verið heitið trúnaði. Sveitarfélagið verði að taka afleiðingum þess að lofa einhverju sem standist ekki lög. 

Kærandi tekur fram að hann byggi rétt sinn á 14. gr. upplýsingalaga og vísar til þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. A-409/2012. Þá bendir kærandi á að mikilvægi þeirra upplýsinga sem fram komi á tilboðsblöðum eftir opnun tilboða sé mjög takmarkað, en það sé á hinn bóginn mjög mikið fram að slíkri opnun. Þannig séu þær tölur sem settar séu fram með sundurliðuðum hætti ekki mikilvægar eftir opnun tilboða, enda útboðið búið og upplýst hver hafi verið lægstbjóðandi. Ekki sé upplýst um viðskiptaleyndarmál með því að opinbera umræddar tölur, enda séu einingaverð mjög misjöfn eftir útboðum. Það hafi enga þýðingu að rýna í einingaverð útboða. Á hinn bóginn sé mikilvægt að sjá hvað hafi nákvæmlega verið sett fram og hvort þær kröfur sem gerðar hafi verið um hæfi bjóðenda og eiginleika tilboða samkvæmt útboðsgögnum sé rétt metið. Þá hafi verið gerðar tilteknar breytingar á lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 með lögum nr. 58/2013 en af þeim megi ráða að löggjafinn hafi viljað auka gagnsæi í opinberum innkaupum. Séu ákveðin líkindi með markmiðum upplýsingalaga og laga um opinber innkaup að þessu leyti. Þá vísar kærandi til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. A-409/2012 og A-472/2013 til stuðnings beiðni sinnar en hafnar því að úrskurður hennar í máli nr. A-442/2012 varði sambærilegt álitaefni.  

Niðurstaða

1.

Í beiðni kæranda frá 30. desember 2013 var óskað eftir aðgangi að tilboði Gámaþjónustunnar hf. og fylgigögnum þess í útboðinu „Sorphirða í Ölfusi 2014-2019“.  Þá óskaði kærandi eftir auknum upplýsingum væri „um undirverktöku eða [heimild] til undirverktöku að ræða“ og „sundurliðun á framlagðri kostnaðaráætlun sveitarfélagsins“ fyrir umrætt verk. Sveitarfélagið Ölfus hefur látið úrskurðarnefndinni í té útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. og verður ekki annað ráðið en að sveitarfélagið telji að umrædd gögn séu þau sem óskað hafi verið eftir af hálfu kæranda. Í ljósi þessa lýtur mál þetta að synjun Sveitarfélagsins Ölfus á beiðni kæranda um aðgang að útboðsgögnum Gámaþjónustunnar hf. 

2.

Kærandi óskaði upphaflega eftir hinum umbeðnu gögnum 30. desember 2013 og var beiðninni hafnað 17. janúar 2014. Í svari sveitarfélagsins til kæranda var honum hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærunni því ekki vísað frá þótt kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 23. maí 2014.
 

3.

Af hálfu kæranda er vísað til 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til stuðnings beiðni hans um aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en að til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013 og A-432/2014. 
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi var einn tilboðsgjafa í því útboði er mál þetta lýtur að. Þá hefur nefndin kynnt sér hin umbeðnu gögn og er ljóst að þau urðu til áður en gengið var til samninga um það verkefni sem útboðið náði til. Kærandi nýtur því réttar til aðgangs að umræddum gögnum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Er réttur kæranda því ríkari en almennings sem á rétt til aðgangs að gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laganna. 

4.

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss er meðal annars vísað til þess að þátttakendum í útboðinu hafi verið heitið trúnaði sbr. ákvæði 0.4.1 í útboðslýsingu þar sem segir að útfyllt tilboðsskrá sé trúnaðarmál milli verkkaupa og bjóðanda. Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli ákvæða laganna. Stjórnvald getur því ekki vikið frá ákvæðum þeirra með því að heita þeim trúnaði sem látið hefur af hendi upplýsingar. Slíkt verður ekki gert nema upplýsingarnar falli ótvírætt undir eitthvert af undanþáguákvæðum laganna. Hefur það því ekki þýðingu við úrlausn þessa máls þótt sveitarfélagið hafi heitið tilboðsgjöfum trúnaði í útboðslýsingu sinni.  

Í umsögn sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram það viðhorf að hagsmunir „opinberra stofnanna, sveitarfélaga og skattgreiðenda af því að hafa ætíð val um bestu tilboðin“ gangi framar hagsmunum kæranda af því að fá aðgang að umbeðnum gögnum. Vísar kærandi til þess að rúmur aðgangur tilboðsgjafa að tilboðsgögnum samkeppnisaðila myndi leiða til þess að færri myndu bjóða í verk en það myndi leiða til hærri tilboða í verk á vegum hins opinbera. Eins og að framan greinir er réttur kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu gögnum reistur á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. gildir 1. mgr. ekki um gögn sem talin eru upp í 6. gr. laganna og gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara samkvæmt 10. gr. laganna. Hin umbeðnu gögn eru ekki meðal þeirra gagna sem aðgangur er takmarkaður að samkvæmt 6. gr. laganna. Þá verður ekki talið að aðgangur kæranda verði takmarkaður á grundvelli ákvæða 10. gr. upplýsingalaga. Sér í lagi verður ekki talið að réttur kæranda verði takmarkaður með vísan til 3. töluliðar 10. gr., þar sem heimilað er að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Telur úrskurðarnefndin að birting hinna umbeðnu upplýsinga sé ekki til þess fallin að skaða efnahag ríkisins svo mjög að það varði mikilvæga hagsmuni þess.    

Sveitarfélagið Ölfus hefur vísað til þess að það sé almennt séð óeðlilegt að tilboðsgjafi í útboði geti fengið nákvæmar upplýsingar um samkeppnisaðila með því að fá aðgang að upplýsingum um ný og nákvæm einingarverð sem viðkomandi leggi til grundvallar tilboði sínu. Af þessu tilefni áréttar úrskurðarnefndin að löggjafinn hefur að vissu marki lögfest umrætt sjónarmið í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Samkvæmt því ákvæði er kaupanda óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsinga en til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara. Á hinn bóginn er sérstaklega kveðið á um í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 að umrætt ákvæði 1. mgr. 17. gr. hafi „ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga“. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007 verður ráðið að 1. mgr. 17. gr. laganna feli í sér almennt þagnarskylduákvæði sem takmarki ekki rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum sbr. 3. mgr. 4. gr. þeirra laga. 

5.

Í ljósi alls framangreinds kemur til skoðunar hvort niðurstaða Sveitarfélagsins Ölfus eigi sér stoð í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en þar er kveðið á um að heimilt sé að „takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum“.

Gögn þau sem beiðni kæranda lýtur að eru útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. vegna umrædds útboðs. Er þar að finna svokallað tilboðsblað þar sem fram kemur tilboðsfjárhæð umrædds tilboðsgjafa. Í tilboðsskrá er að finna einingaverð sem miðað var við í tilboði fyrirtækisins. Þá er í gögnunum yfirlýsing um skuldastöðu við ríkissjóð, vottorð frá héraðsdómi, yfirlýsing frá nokkrum lífeyrissjóðum, yfirlit úr hlutafélagaskrá, almennar upplýsingar um tilboðsgjafa, skrá yfir tæki og búnað, upplýsingar um reynslu tilboðsgjafa og aðrar almennar upplýsingar og starfsleyfi frá Reykjavíkurborg. Þá er í gögnunum að finna almennt kynningarefni um starfsemi Gámaþjónustunnar hf. 

Í umsögnum Sveitarfélagsins Ölfuss og Gámaþjónustunnar hf. kemur fram að hagsmunir Gámaþjónustunnar hf. standi einkum til þess að takmarkaður verði aðgangur að framangreindu tilboðsblaði. Í umsögn Gámaþjónustunnar hf. er að öðru leyti vísað til þess að umrædd gögn séu trúnaðargögn samkvæmt skilmálum í útboðs- og verklýsingu. Þá verður af umsögninni ráðið að fyrirtækið telji að það kunni að leiða til tjóns verði veittur aðgangur að hinum umbeðnu gögnum. Er í því samhengi vísað til fyrirhugaðs útboðs fyrir sorphirðu í Hveragerðisbæ en verður ráðið að fyrirtækið telji það geta haft skaðleg áhrif fyrir sig í umræddu útboði verði upplýsingarnar birtar. Á meðan mál þetta hefur verið til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni hefur útboðið farið fram.   

Í málum þar sem fjallað hefur verið um beiðnir um aðgang að einingaverði í tilboðum útboða á vegum aðila er falla undir upplýsingalög hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál almennt komist að þeirri niðurstöðu að veita beri aðgang á grundvelli 9. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 14. gr. núgildandi upplýsingalaga, en þessar lagagreinar eru sama efnis. Hefur nefndin lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum er lúta að því að rétt sé staðið að framkvæmd útboðanna og að almannahagsmunir standi til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá sé rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. 

Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort aðgang að slíkum upplýsingum beri að takmarka á grundvelli upplýsingalaga. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur við það mat einkum til skoðunar hvort hætta sé á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Í athugasemdunum kemur einnig fram að aðila verði ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um það hvort aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þær upplýsingar sem beiðni kæranda lýtur að. Af gögnunum verður ekki ráðið að hagsmunum Gámafélagsins hf. sé hætta búin þótt kæranda verði veittur aðgangur að þeim. Í hinum umbeðnu gögnum er ekki að finna upplýsingar um sambönd Gámafélagsins hf. við viðskiptamenn fyrirtækisins sem virðast til þess fallnar að skaða hagsmuni þess, þau viðskiptakjör sem fyrirtækið nýtur, álagningu þess eða afkomu. Auk almennra athugasemda hefur Gámafélagið hf. vegna meðferðar málsins aðeins vísað til þess að fyrirtækið kynni að verða fyrir tjóni við framkvæmd eins tiltekins útboðs verði hinar umbeðnu upplýsingar birtar, en umrætt útboð hefur þegar verið framkvæmt. Í ljósi þessa fellst nefndin ekki á að neita beri kæranda aðgangi að útboðsgögnum Gámaþjónustunnar hf. vegna útboðs á sorphirðu í Ölfusi 2014-2019. 

Úrskurðarorð:

Sveitarfélaginu Ölfusi ber að afhenda kæranda útboðsgögn Gámaþjónustunnar hf. vegna útboðs í verkið „Sorphirða í Ölfusi 2014-2019“. 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                  

Friðgeir Björnsson






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta