549/2014. Úrskurður frá 1. september 2014
Úrskurður
Hinn 1. september 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 549/2014 í máli ÚNU14080001.
Málsatvik
Hinn 24. júlí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. A-540/2014 í máli ÚNU 13070006. Fjallaði úrskurðurinn um kæru Gámaþjónustunnar hf. á afgreiðslu Hildu ehf. á beiðni um aðgang að upplýsingum um sölu Hildu ehf. á eignarhlut þess í Íslenska gámafélaginu ehf.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi bréf, dags. 6. ágúst 2014, til B, fyrir hönd Hildu ehf., til Forum lögmanna fyrir hönd Íslenska gámafélagsins ehf., til Seðlabanka Íslands vegna Hildu ehf. og til Gámaþjónustunnar hf. Það bréf er svohljóðandi:
„Hinn 24. júlí sl. kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp hjálagðan úrskurð nr. A-540/2014 í máli ÚNU 13070006. Í úrskurðinum var Hildu ehf. gert að afhenda kæranda, þ.e.a.s. Gámaþjónustunni hf., samkomulag um endurskipulagningu Íslenska gámafélagsins ehf. Í kjölfarið barst bréf frá Hildu ehf., dags. 31. júlí sl., þar sem farið var fram á frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Þegar farið var yfir kröfuna kom í ljós að úrskurðurinn virðist hafa verið byggður á röngum lagagrundvelli. Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 gilda lögin ekki um gögn í vörslu lögaðila, skv. 2. mgr. 2. gr. laganna, sem urðu til fyrir gildistöku laganna. Umrætt samkomulag er dagsett 13. desember 2011 en lögin tóku gildi 1. janúar 2013. Úrskurðarnefndin hyggst því afturkalla úrskurðinn, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og kveða upp nýjan úrskurð í málinu. Ef þér óskið að koma athugasemdum á framfæri við nefndina vegna þessarar fyrirætlunar þurfa þær að berast eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi.“
B sendi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 14. ágúst 2014, þar sem segir m.a. að Hilda ehf. geri engar athugasemdir við bréf nefndarinnar, dags. 6. ágúst, og taki undir þau sjónarmið sem þar séu rakin. Engar athugasemdir bárust frá öðrum.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila frekar en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Mál þetta varðar skjal, dagsett 13. desember 2011, sem ber með sér samkomulag um endurskipulagningu Íslenska gámafélagsins ehf. Með gildistöku upplýsingalaga nr. 140/2012, hinn 1. janúar 2013, var gildissvið upplýsingalaga víkkað. Eldri lög tóku almennt aðeins til starfsemi stjórnvalda, og ekki til einkaréttarlegra lögaðila, hvort sem þeir voru í eigu hins opinbera eða ekki, en hin nýju lög taka til allrar starfsemi á vegum einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira, sbr. 2. mgr. 2. gr. Hilda ehf. er í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands hf. sem síðan er alfarið í eigu Seðlabanka Íslands. Er Hilda ehf. því í eigu hins opinbera og taka upplýsingalög til starfsemi félagsins á grundvelli 2. mgr. 2. gr. þeirra.
Upplýsingalög gilda um öll gögn sem undir þau falla, án tillits til þess hvenær þau urðu til eða hvenær þau hafa borist þeim aðilum sem undir þau falla, sbr. 2. mgr. 35. gr. Þó segir í 3. mgr. sömu greinar að þau gildi aðeins um þau gögn í vörslu lögaðila sem hafi orðið til eftir gildistöku laganna, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 3. gr.
Það gagn sem mál þetta lýtur að, þ.e. samkomulag um endurskipulagningu Íslenska gámafélagsins ehf., varð til fyrir gildistöku nýrra upplýsingalaga eða 13. desember 2011. Fellur ágreiningur um aðgang að því þ.a.l. utan valdssviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál, eins og það er afmarkað í 20. gr. laganna.
Af þeim ástæðum sem að framan eru raktar ákveður úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fella úr gildi úrskurð sinn nr. A-540/2014, sem kveðinn var upp hinn 24. júlí í máli ÚNU 13070006. Af þessu leiðir að til úrskurðar er sama kæra og í máli ÚNU 13070006. Af sömu ástæðum og fyrr eru raktar verður að vísa frá nefndinni kæru Gámaþjónustunnar hf., dags. 1. ágúst 2013, á afgreiðslu Hildu ehf. á beiðni um aðgang að upplýsingum um sölu Hildu ehf. á eignarhlut þess í Íslenska gámafélaginu ehf.
Úrskurðarorð
Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-540/2014, kveðinn upp. 24. júlí 2014, í máli máli ÚNU 13070006, er felldur úr gildi. Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru Gámaþjónustunnar hf., dags. 1. ágúst 2013, á afgreiðslu Hildu ehf. á beiðni um aðgang að upplýsingum um sölu Hildu ehf. á eignarhlut þess í Íslenska gámafélaginu ehf.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson