Hoppa yfir valmynd
12. september 2014 Forsætisráðuneytið

550/2014. Úrskurður frá 9. september 2014

Úrskurður

Hinn 9. september 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 550/2014 í máli ÚNU14040011.

Kæra

Hinn 28. apríl 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A yfir Vestmannaeyjabæ. Þar segir: 

„Kæra mín er þessi. Vestmannaeyjabær svarar ekki erindum mínum. Hér er um að ræða beiðni um heimilisföng þeirra er sóttu um starf forstöðumanns Eldheima, hvort umsækjendur hafi verið kallaðir í viðtöl, hver fékk starfið og á hvaða forsendum og ráðningarsamning og launakjör þess er var ráðinn. Skal í því efni vitnað í úrskurð varðandi fulltrúa hjá sýslumönnum. Hér hljóta mál að vera sama eðlis.

Félagsþjónustan svarar ekki beiðni um stefnumörkun og þá fundargerðir og hvort til standi að félagsþjónustan, ráðamenn hennar og starfsfólk muni bera vín í skjólstæðinga sína í aðdraganda kosninga eins og dæmi eru um. Slíkt getur ekki annað en verið bókað og því aðgengilegt. Almennt svarar félagsþjónustan seint eða ekki. Því er kæra mín þessi, yfirvöld virði svarfresti. Svarað sé málefnalega og með rökum.“

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi Vestmannaeyjabæ  bréf, dags. 29. apríl 2014, og gaf honum kost á athugasemdum við framangreinda kæru. 

Í svarbréfi bæjarins, dags. 5. maí 2014, segir m.a.: „[A] var ekki synjað um þessar upplýsingar og erindi hans var svarað sjá meðfylgjandi svarbréf.“

Með fylgdi afrit af bréfi bæjarins til kæranda, dags. 27. mars 2014. Þar eru umsækjendur um umrætt starf forstöðumanns taldir upp og sagt að talað hafi verið við þá sem hafi komið til greina í starfið. Þá er greint frá bókun, sem hafi verið gerð á fundi framkvæmda- og hafnarráðs nr. 165, hinn 24. mars, vegna framkvæmda og kostnaðar við Eldheima, og er hún birt orðrétt í bréfinu. Með fylgdi einnig afrit af svari bæjarins til kæranda, dags. 28. apríl 2014. Þar segir hver hafi verið ráðinn forstöðumaður Eldheima, hvaða kjarasamningur taki til hans, í hvaða launaflokki hann sé og hvaða starfsheiti hann hafi.

Þá hefur nefndinni borist annað svar frá Vestmannaeyjabæ, dags. 5. maí sl., þar sem segir m.a.:

„Rétt er að benda úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að umræddur kærandi er að spyrja um atriði sem undirritaður kannast ekkert við og finnst hvergi í fundargerðum félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar. Erindið fjallar um einhverja stefnumörkun og fundargerðir og eitthvað um að ráðamenn og starfsfólk félagsþjónustunnar beri vín í skjólstæðinga sína. Þetta er algjör hugarburður kæranda sem hefur m.a. verið svarað í bréfi, dagsettu 15. apríl sl.“

Með fylgdi afrit af bréfi bæjarins til kæranda, dags. 23. apríl 2014. Í því er vitnað til fyrra svars til kæranda, dags. 15. s.m., þar sem m.a. segir að óskir um gögn þurfi að vera skýrar og afmarkaðar.

Niðurstaða

1.

Eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur hún svo á að það lúti að þremur atriðum. Í fyrsta lagi heldur kærandi því fram að Vestmannaeyjabær hafi ekki svarað erindum kæranda. Í öðru lagi lýtur málið að ósk kæranda um tilteknar upplýsingar varðandi ráðningu Vestmannaeyjabæjar í starf forstöðumanns gosminjasýningarinnar Eldheima. Í þriðja lagi varðar málið svo beiðni kæranda um upplýsingar og gögn varðandi stefnumótun og starfshætti bæjarins.

Að því er varðar þann þátt kærunnar sem snýr að því að Vestmannaeyjabær hafi ekki svarað erindum kæranda skal tekið fram að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993  er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á svörum stjórnvalda til þess stjórnvalds sem ákvörðun í máli verður kærð til, í þessu tilfelli úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í máli þessu liggja hins vegar fyrir afrit af bréfum bæjarins þar sem upplýsingabeiðni kæranda er svarað. Gefur þessi liður kærunnar því ekki tilefni til frekari umfjöllunar og er honum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál þetta varðar í öðru lagi ósk kæranda um að fá tilteknar upplýsingar er varða ráðningu Vestmannaeyjabæjar í starf forstöðumanns gosminjasýningarinnar Eldheima. Kveðst kærandi nánar tiltekið ekki hafa fengið umbeðnar upplýsingar um heimilisföng umsækjenda um starf forstöðumanns, hvort þeir hafi verið kallaðir í viðtöl, hver hafi fengið starfið og á hvaða forsendum. Auk þess vilji hann fá afrit af ráðningarsamningi og upplýsingar um launakjör þess er var ráðinn.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012 er kveðið á um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Samkvæmt ákvæðinu er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í 7. gr. laganna er hins vegar sérákvæði um rétt almennings til upplýsinga um málefni starfsmanna. Þar segir orðrétt:

„Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.

Þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt lögum þessum eiga ekki við er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., skylt að veita upplýsingar um eftirtalin atriði sem varða opinbera starfsmenn:   
1. nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn,   
2. nöfn starfsmanna og starfssvið,   
3. föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda,  
4. launakjör æðstu stjórnenda,   
5. áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra.

Enn fremur er heimilt að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.

Með sama hætti ber að veita almenningi upplýsingar um eftirtalin atriði sem varða starfsmenn lögaðila sem falla undir lög þessi skv. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr.: 
 1. nöfn starfsmanna og starfssvið, 
 2. launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra.

Almenningur á rétt til aðgangs að upplýsingum skv. 2. og 4. mgr. frá viðkomandi vinnuveitanda jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli.“

Eins og sjá má er meginregla upplýsingalaga sú að upplýsingaréttur almennings tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga segir um þetta:

„Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var með 4. tölul. 4. gr. gildandi laga að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar er rakið í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum sem nú eru í gildi. Hér búa einkum að baki þeir hagsmunir hins opinbera að geta átt kost á hæfum umsækjendum um opinbert starf. Óheftur aðgangur almennings að gögnum um umsækjendur geti hamlað því að hæfir einstaklingar sæki um opinber störf ef hætta væri á að upplýsingar um persónuleg málefni þeirra yrðu gerð opinber. Til þess að mæta sjónarmiðum um opna stjórnsýslu og stuðla að opinni umræðu um stöðuveitingar hjá opinberum aðilum er hins vegar lagt til að áfram verði skylt að veita upplýsingar um umsækjendur eftir að umsóknarfrestur er liðinn, sbr. 1. tölul. 2. mgr. ákvæðisins.“

Í 2.-3. mgr. 7. gr. er hins vegar að finna undantekningar frá framangreindri meginreglu og kveðið á um rétt almennings til nánar tiltekinna „upplýsinga“ um málefni starfsmanna. Úrskurðarnefnd um upplýsingmál hefur túlkað þetta svo að umrædd undantekningarákvæði veiti almenningi ekki rétt til ákveðinna „gagna“, svo sem ráðningarsamninga, heldur geti stjórnvaldið veitt umræddar upplýsingar með þeim gögnum sem það sjálft kýs. Vísast í þessu sambandi til nánari umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-520/2014.

Í máli þessu reynir á rétt kæranda til upplýsinga um launakjör forstöðumanns Eldheima, sem er gosminjasafn í Vestmannaeyjum. Samkvæmt auglýsingu bæjarins um starfið, sem ber heitið safnstjóri, dags. 24. janúar 2014, ber safnstjóri ábyrgð á stjórnun, rekstri og stjórnsýslu safnsins. Undir verksvið hans heyra jafnframt fjármál, starfsmannamál og framkvæmd ákvarðana bæjaryfirvalda sem að safninu snúa. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur svo á að safnstjóri teljist til æðstu stjórnenda í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. 

Fyrir liggur að kæranda hefur verið sendur listi með nöfnum umsækjenda um umrætt starf. Honum hefur verið greint frá því hver þeirra hafi verið ráðinn. Þá hefur verið svarað spurningu hans um hvort umsækjendur hafi verið kallaðir í viðtöl. Þarfnast þetta ekki frekari umfjöllunar er þeim hluta kærunnar sem beinist að þessum atriðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að því er varðar launakjör forstöðumannsins hefur Vestmannaeyjabær veitt kæranda upplýsinga um það hvaða kjarasamningur gildi um störf hans og hvaða launaflokki forstöðumaðurinn tilheyri.

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að réttur skv. 4. tölul. 4. mgr. 7. gr. sé ekki takmarkaður við „föst launakjör“, en til fastra launakjara teljast, auk fastra grunnlauna, t.d. föst yfirvinna, bílastyrkir, húsaleigustyrkir og önnur þess háttar hlunnindi. Í ljósi þessa ákvæðis telur úrskurðarnefndin því ekki nægilegt að veita kæranda aðeins upplýsingar um kjarasamning og viðeigandi launaflokk, heldur beri Vestmannaeyjabæ að veita nákvæmar upplýsingar um laun forstöðumannsins, hvort sem það er gert með afhendingu ráðningasamnings eða öðrum hætti.

Kærandi óskaði einnig eftir upplýsingum um heimilisföng þeirra er sóttu um umrædda stöðu forstöðumanns. Í tilefni af þessu skal tekið fram að í 4. tölul 4. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 sagði að réttur almennings til aðgangs að gögnum tæki ekki til umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum. Skylt væri hins vegar að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda, þegar umsóknarfrestur væri liðinn. Þegar núgildandi upplýsingalög tóku gildi var þessu breytt og nú segir aðeins í 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. að skylt sé að veita upplýsingar nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur sé liðinn. Ekki er vikið að heimilisföngum og er því ekki lengur skylt að veita upplýsingar um þau. Verður því ekki lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að gera það.

Eftir stendur að fjalla um þann þátt kærunnar sem lýtur að  óskum kæranda um gögn „um stefnumörkun og það hvort félagsþjónustan, ráðamenn hennar og starfsfólk beri vín í skjólstæðinga sína í aðdraganda kosninga“. 

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum til fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 15. gr. sömu laga skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að framangreind ósk kæranda um upplýsingar uppfylli ekki framangreint skilyrði upplýsingalaga auk þess sem fram kemur í bréfi Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. maí, að engin gögn er varði þennan hluta beiðninnar finnist hjá bænum. Samkvæmt því sem segir hér að framan er kærunni því að þessu leyti vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Vestmannaeyjabæ ber að veita kæranda upplýsingar um launakjör forstöðumanns gosminjasýningarinnar Eldheima.Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður


Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson








Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta