Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 454/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 454/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 30. október 2019, kærði A,  til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót og ákvörðun stofnunarinnar um greiðslur vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. júlí 2019, var kæranda tilkynnt um að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að eigendaskipti hefðu orðið á B. Ákvörðun heimilisuppbótar til kæranda væri bundin skráningu hans sem eiganda íbúðarinnar samkvæmt Fasteignaskrá. Greiðslur yrðu því stöðvaðar 1. ágúst 2019. Kæranda var veittur fjórtán daga frestur til að andmæla og til að senda inn ný gögn. Tekið var fram að ef umbeðin gögn bærust ekki innan fjórtán daga yrði mynduð krafa frá 1. janúar 2018. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt um að greiðslur heimilisuppbótar hefðu verið stöðvaðar frá 1. janúar 2018. Þá var kærandi upplýstur um kröfu vegna áranna 2018 og 2019.

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá 1. janúar 2018 með umsókn, dags. 2. september 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. september 2019, var óskað eftir að kærandi legði fram staðfestingu frá opinberum starfsmanni um að kærandi væri einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra. Kærandi lagði fram læknisvottorð, dags. 10. október 2019. Með bréfi, dags. 21. október 2019, var kæranda tilkynnt um að samþykkt hafi verið umsókn um heimilisuppbót vegna tímabilsins 1. ágúst 2018 til 31. desember 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. október 2019. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. desember 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 12. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 6. janúar 2020 og voru þær senda Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 7. janúar 2020. Þá bárust viðbótargögn frá kæranda 22. janúar 2020 og voru send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kæranda hafi borist bréf frá Tryggingastofnun ríkisins í júlí 2019 þar sem fram hafi komið að við „reglubundið eftirlit“ hafi komið í ljós að eigendaskipti hafi orðið á B og greiðslur heimilisuppbótar hafi verið stöðvaðar 1. ágúst 2019. Með bréfinu hafi kæranda verið veittur 14 daga frestur til að andmæla og hann hafi farið innan þess frests til stofnunarinnar til þess að athuga hvers vegna. Kærandi hafi útskýrt þar að hann hafi selt B í X 2017. Hann hafi síðan flutt í X sem hann eigi að C. Á þeim tímapunkti hafi kærandi ekki vitað neitt um það að Tryggingastofnun ríkisins þyrfti að vita af sölu B eða að hann væri fluttur á C, þar sem kærandi hafi búið einn og búi enn einn.

Kærandi fái svo bréf 6. ágúst 2019 frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem fram hafi komið að engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og greiðslur stöðvist frá 1. janúar 2018. Kærandi hafi farið aftur til Tryggingastofnunar ríkisins 2. september 2019 og sótt þar um heimilisuppbót samkvæmt ráðleggingum ráðgjafa og óskað eftir greiðslum frá 1. janúar 2018.

Kæranda hafi verið tjáð af Tryggingastofnun ríkisins 24. september 2019 að þar sem hann hefði skráninguna […] yrði kærandi að fá opinberan aðila svo sem lækni eða prest, til að votta að hann byggi raunverulega einn að C. D heimilislæknir hafi vottað það. Loks hafi komið niðurstaða frá Tryggingastofnun ríkisins 21. október 2019 þess efnis að greiðslur heimilisuppbótar væru ákveðnar frá 1. ágúst 2018 en ekki 1. janúar 2018. Þessu hafi kærandi mótmælt harðlega og hann krefjist þess að fá greidda heimilisuppbót frá 1. janúar 2018.

Tryggingastofnun ríkisins segi að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi hefði selt B. Kærandi kunni illa við að það sé logið að honum af opinberri stofnun eða opinberum starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins. Raunveruleg ástæða þess að stofnunin hafi komist að þessu sé sú að kona sem kærandi kannist við hafi klagað hann til Tryggingastofnunar ríkisins til þess að reyna að hefna sín á honum. Kærandi hafi símaskilaboð þessu til sönnunar. Þá eigi kærandi rétt á því samkvæmt persónuverndarlögum að vita hvort grunur hans sé réttur. Að auki sé ekki hægt að ætlast til þess að skjólstæðingar Tryggingastofnunar ríkisins, sjúklingar í mjög misjöfnu standi líkamlega og andlega, þurfi að vita um heimilisaðstæður eða heimilisföng.

Kærandi fái aldrei launaseðla eða annan póst frá Tryggingastofnun ríkisins nema þá til þess að tilkynna að honum að hann hafi tapað réttindum. Stofnunin hafi aldrei boðið kæranda eitt né neitt. Varðandi bréf Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. ágúst 2019 þá spyrji kærandi hvort það sé ekki fullgild athugasemd að mæta til stofnunarinnar og leggja fram munnleg mótmæli. Að lokum hafi kærandi mótmælt harðlega þeirri kröfu sem komi fram í framangreindu bréfi, að kærandi hafi fengið ofgreiddar 173.673 kr. og 293.174 kr. Kærandi hafi fyrst fengið að vita af þessum meintu skuldum í umræddu bréfi.

Að auki beri kæranda að borga kröfur að upphæð 91.386 kr. með jöfnum greiðslum í rúmlega ár eða 7.887 kr. á mánuði. Hann krefjist þess að þær kröfur verði þurrkaðar út. Að lokum vilji kærandi taka fram að hann hafi ekki aðgang að tölvu og kunni því miður ekki á slíkt fyrirbæri. Þar af leiðandi geti hann til að mynda ekki notað mínar síður hjá Tryggingastofnun.

Ástæða þess að kærandi hafi selt fasteignina að B hafi verið fjárhagsörðugleikar vegna lélegra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins síðan hann hafi tapað heilsunni árið X. Þá hafi ekki farið fram hjá neinum að svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu hafi verið breytt og sé nú 35/65. Kærandi hafi ekki orðið var við að sú breyting hafi tekið gildi hvað hann varði en hann fái um 150.000 kr. á mánuði í laun frá lífeyrissjóði og enn þá séu þau laun að fullu skert króna á móti krónu. Kærandi geri því einnig kröfu um að það verði leiðrétt.

Þá verði að gera þá kröfu til Tryggingastofnunar ríkisins að hún gæti meðalhófs og fari eftir almennum lögum og viðmiðum.

Í athugasemdum kæranda frá 6. janúar 2019 kemur fram að farið sé að taka verulega á sálarlíf hans að þurfa að standa í stríði við Tryggingastofnun ríkisins vegna sjálfsagðra réttinda. Í gögnum sem kærandi hafi sent með athugasemdunum komi fram að með bréfi Tryggingastofnunnar, dags. 24. september 2019, sé óskað eftir því að læknir staðfesti búsetu kæranda að C en í greinargerð stofnunarinnar til úrskurðarnefndar sé véfengt að læknirinn sé að segja satt. Þessar þrætur snúist fyrst og fremst um að heimilisuppbót verði greidd frá 1. janúar 2018. Þó svo að reglugerð segi annað, sé ekki hægt að ætlast til þess að misveikt fólk, skjólstæðingar Tryggingastofnunnar ríkisins, séu með reglugerðir á hreinu. Þess vegna þyki kæranda stofnunin hljóta að geta horft í gegnum fingur sér varðandi sjö mánuði, 1. janúar til 1. ágúst 2018. Eins þurfi stofnunin að passa að vera samkvæm sjálfri sér í kröfum um gögn, svo sem vottorð læknis um búsetu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn um heimilisuppbót, dags. 21. október 2019.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Greiðslur heimilisuppbótar hafi verið stöðvaðar með bréfi til kæranda, dags. 16. júlí 2019, þar sem í ljós hafi komið að orðið hefðu eigendaskipti á B, sem sé sú fasteign sem kærandi hafi verið skráður með lögheimili í og kærandi hafi notið greiðslna heimilisuppbótar á grundvelli búsetu sinnar þar. Kærandi hafi einnig verið endurkrafinn um ofgreidda heimilisuppbót frá 1. janúar 2018 þar sem ljóst hafi verið að kærandi hafði ekki átt fasteignina síðan þá.

Tryggingastofnun ríkisins hafi borist umsókn um heimilisuppbót þann 12. ágúst 2019 og eftir nokkur bréfasamskipti hafi sú umsókn verið samþykkt. Kærandi hafi einnig fengið samþykkta afturvirkni frá og með 1. ágúst 2018. Tryggingastofnun ríkisins hafi farið yfir gögn málsins og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrra mati stofnunarinnar.

Með mikilvægari gögnum sem Tryggingastofnun taki mið af varðandi heimilisuppbót sé skráð lögheimili bótaþega. Alla jafna sé gerð ófrávíkjanleg krafa um það að bótaþegi hafi skráð lögheimili í sama húsnæði og hann gefi upp sem heimili sitt í umsókn um heimilisuppbót.

Eina undanþágan frá þessu sé þegar kærandi geti ekki flutt lögheimili vegna eðlis húsnæðisins, svo sem búseta í sumarbústað í frístundabyggð, og hafi þá, í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar, verið gerð krafa um að kærandi staðfesti með óvéfengjanlegum hætti að hann búi þar sem hann segist búa og haldi þar einn heimili. Einnig sé gerð sú krafa að kærandi sé ekki skráður með lögheimili á öðrum stað á sama tíma og þurfi því þessir einstaklingar að vera skráðir með lögheimili sem óstaðsettir í hús í því sveitarfélagi sem húsnæðið sé staðsett.

Í tilfelli kæranda hafi hann haft skráð lögheimili sem […] frá því í […] og ástæðan fyrir því sé að hann sé búsettur í X og geti því ekki flutt lögheimili sitt þangað. Tryggingastofnun ríkisins telji sig ekki geta greitt honum heimilisuppbót fyrir tímabilið 1. janúar 2018 til 31. júlí 2018 þar sem hann sé á þeim tíma skráður með lögheimili í B, nema hann skili inn staðfestingu frá eigenda þess húsnæðis að hann hafi verið búsettur þar á því tímabili og uppfylli önnur skilyrði heimilisuppbótar.

Eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að vera með skráð lögheimili á einum stað á sama tíma og viðkomandi njóti greiðslna heimilisuppbótar á grundvellu búsetu á öðrum stað.

Við yfirferð gagna málsins vegna kærunnar hafi komið í ljós að staðfesting kæranda á búsetu sinni, vottorð frá lækni, hafi verið ófullnægjandi. Í skjalinu komi fram að læknir votti búsetu kæranda í iðnaðarhúsi í hans eigu að C og að hann búi þar einn. Ekki komi fram neinar upplýsingar um það á hvaða hátt sá sem votti hafi sannreynt þetta eða neinar upplýsingar um það á hvaða tímabili þetta hafi verið. Á grundvelli þessa vottorðs hafi ekki átt að samþykkja að veita kæranda heimilisuppbót að nýju og alls ekki fara aftur til 1. ágúst 2018. Tryggingastofnun telji sig ekki geta farið lengra aftur í tímann á grundvelli svo ófullnægjandi gagna.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin sem kærð hafi verið í þessu máli hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um heimilisuppbót og ákvörðun stofnunarinnar um greiðslur vegna ársins 2019.

A. Heimilisuppbót

Um heimilisuppbót er fjallað í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er fjallað nánar um fjárhagslegt hagræði og hljóðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar svo:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

  1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
  2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
  3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Ágreiningur máls þessa lýtur að upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar. Kærandi óskaði eftir greiðslum frá 1. janúar 2018 en Tryggingastofnun samþykkti einungis greiðslur frá 1. ágúst 2018.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur kærandi fengið greidda heimilisuppbót frá árinu 2009. Þá liggja fyrir gögn frá Þjóðskrá um að kærandi var með skráð lögheimili að B frá X  til X 2018. Frá þeim tíma er kærandi skráður […]. Fyrir liggur einnig læknisvottorð frá X, dags. 10. október 2019, sem hljóðar svo:

„Það vottast hér með að viðkomandi er með búsetu í iðnaðarhúsnæði í hans eigu að C. Hann býr þar einn, heldur þar sitt heimili án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af nábýli annara.“

Þá liggur fyrir ódagsett staðfesting frá framkvæmdastjóra E og framkvæmdastjóra F um að kærandi hafi búið í íbúð sinni að C síðastliðin tvö ár og búi enn þar. Jafnframt liggur fyrir ódagsett staðfesting átta einstaklinga um að kærandi hafi búið í íbúð sinni að C síðan hann hafi selt íbúð sína að B í X 2017.

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnuninni sé ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót fyrir tímabilið 1. janúar 2018 til 31. júlí 2018 þar sem hann hafi verið með skráð lögheimili í B á þeim tíma. Fram kemur að eðli máls samkvæmt sé ekki hægt að vera með skráð lögheimili á einum stað á sama tíma og viðkomandi njóti greiðslna heimilisuppbótar á grundvelli búsetu á öðrum stað. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur jafnframt fram að staðfesting í læknisvottorði á búsetu kæranda hafi verið ófullnægjandi.

Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð er að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Hvergi í framangreindu ákvæði er fjallað um með hvaða hætti lögheimili umsækjanda skuli vera skráð.

Stofnunin synjaði að greiða kæranda heimilisuppbót vegna tímabilsins frá 1. janúar 2018 til 31. júlí 2018 að því er virðist að meginstefnu á þeim grundvelli að hann hafi verið með skráð lögheimili að B á þessu tímabili. Jafnframt er byggt á því að staðfesting læknis á búsetu hafi verið ófullnægjandi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki sé heimilt að synja kæranda um heimilisuppbót vegna framangreinds tímabils á þeim grundvelli að lögheimili hans hafi verið skráð að B enda er í 8. gr. laga um félagslega aðstoð einungis gerð krafa um að umsækjandi sé einn um heimilisrekstur.

Eins og áður hefur komið fram hefur kærandi fengið greidda heimilisuppbót frá árinu 2009. Heimilisuppbót til hans var stöðvuð vegna upplýsinga um breytt eignarhald á fasteign en ekki vegna gruns um að hann væri ekki lengur einn um heimilisrekstur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að kærandi hafi ekki verið einn um heimilisrekstur á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til 31. júlí 2018. Þvert á móti liggja fyrir nokkrar staðfestingar sem gefa til kynna að kærandi hafi verið einn um heimilisrekstur. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi eigi rétt á greiðslum heimilisuppbótar vegna tímabilsins frá 1. janúar 2018 til 31. júlí 2018.

Með hliðsjón af framangreindu er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót felld úr gildi. Upphafstími greiðslna heimilisuppbótar til kæranda skal vera 1. janúar 2018.

B. Greiðslur vegna ársins 2019

Í kæru kemur fram að það hafi ekki farið fram hjá neinum að svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu hafi verið breytt og sé nú 35/65. Kærandi hafi ekki orðið var við að sú breyting hafi tekið gildi hvað hann varði en hann fái um 150.000 kr. á mánuði í laun frá lífeyrissjóði og enn þá séu þau laun að fullu skert króna á móti krónu. Kærandi gerir því kröfu um að framangreint verði leiðrétt.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með framangreindu sé kærandi að vísa til þeirrar breytingar sem gerð var á útreikningi sérstakrar uppbótar til framfærslu með lögum nr. 97/2019 um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð teljast til tekna samkvæmt ákvæðinu allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Eingreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skal þó ekki telja til tekna lífeyrisþega. Með breytingarlögum nr. 97/2019 var bætt við nýrri 4. mgr. 9. gr. og segir þar að við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar skulu þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar.

Breytingarlögin voru samþykkt á Alþingi 18. júní 2019 en framangreind breyting tók gildi 1. janúar 2019. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi fékk eingreiðslu sérstakrar uppbótar vegna framfærslu frá Tryggingastofnun vegna þessarar lagabreytingar 21. október 2019 fyrir tímabilið 1. janúar 2019 til 31. október 2019. Kærandi fékk síðan greidda uppbót vegna framfærslu frá stofnuninni fyrir nóvember og desember 2019. Því telur úrskurðarnefndin að ekkert í gögnum málsins bendi til annars en að kærandi hafi fengið greitt í samræmi við sín réttindi. Úrskurðarnefndin bendir þó á að uppgjör vegna ársins 2019 hefur ekki enn farið fram og verði kærandi ósáttur við uppgjörið geti hann kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun stofnunarinnar um greiðslur til kæranda vegna ársins 2019 staðfest.

Að auki krefst kærandi þess að kröfur Tryggingastofnunar á hendur honum vegna uppgjörs 2018 verði þurrkaðar út. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segir eftirfarandi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin rétt að benda kæranda á að hann geti óskað eftir því að kröfur Tryggingastofnunar á hendur honum verði felldar niður telji hann skilyrði framangreinds reglugerðarákvæðis uppfyllt.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um heimilisuppbót, er felld úr gildi. Upphafstími greiðslna heimilisuppbótar til kæranda skal vera 1. janúar 2018. Ákvörðun stofnunarinnar um greiðslur til kæranda vegna ársins 2019 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta