Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Svigrúm fjármálafyrirtækja aukið

Að undanförnu hafa stjórnvöld undirbúið og hrint í framkvæmd ýmsum breytingum sem stuðla að hagkvæmari rekstri eða fjármögnun lánastofnana og auðvelda þeim að styðja við atvinnulífið.

  • Lægri bankaskattur: Í desember síðastliðnum samþykkti Alþingi lög sem fela í sér að bankaskattur lækkar í áföngum úr 0,376% í 0,145%, eða um ríflega 61%, og gildir fyrsti áfangi lækkunarinnar fyrir árið 2020, með álagningu árið 2021. Fyrir gjaldskylda aðila þýðir þetta léttari skattbyrði og minni rekstrarkostnað sem á að leiða til betri kjara fyrir viðskiptavini í formi lægri vaxta á útlánum og hærri vaxta á innlánum.
  • Minni eiginfjárkröfur vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja: Í upphafi þessa árs tóku gildi reglur um tæplega fjórðungsafslátt af eiginfjárkröfum til lánastofnana vegna útlána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlað er að afslátturinn nái til að minnsta kosti 90% útlána lánastofnana til fyrirtækja.
  • Lægri iðgjöld til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta: Í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi lög sem lækkuðu hlutfall almennra iðgjalda innlánastofnana til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að stofn iðgjaldanna verði lækkaður. Samanlagt fela breytingarnar í sér að iðgjöldin lækka um tæp 55%. Staða tryggingarsjóðsins er góð og um síðustu áramót voru heildareignir innstæðudeildar hans um 43 ma.kr.
  • Aukin frádráttarbærni vaxtagjalda: Í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að heimildir lánastofnana til að draga vexti af blönduðum fjármálagerningum frá skattstofni verði auknar. Breytingin auðveldar lánastofnunum að draga úr fjármögnunarkostnaði sínum og eykur þannig svigrúm í starfsemi þeirra, meðal annars til að auka útlán.
  • Undanþága frá staðgreiðsluskyldu vegna hlutabréfaviðskipta: Í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er lögð til undanþága frá staðgreiðsluskyldu þeirra sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Markmið frumvarpsins er að örva erlenda fjárfestingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta