Hoppa yfir valmynd
24. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2011

Fimmtudaginn 24. mars 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 20. janúar 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. nóvember 2010, um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem fæddist Y. febrúar 2008.

Með bréfi, dags. 20. janúar 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. febrúar 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi mótmælir fullyrðingu Fæðingarorlofssjóðs um að hann hafi unnið á þeim tíma sem hann var í fæðingarorlofi. Hann segir að fyrir liggi allir launaseðlar sem beðið hafi verið um vegna tímabilsins og aðeins einn hafi verið gefinn út 1. september 2008. Skýrsla frá skattstjóra staðfesti það. Kærandi heldur því fram að launagreiðandi hafi lánað honum fé um það leyti sem hann hóf störf að nýju eftir fæðingarorlof, sem hann hafi skuldbundið sig til að endurgreiða næstu þrjá mánuði, enda hafi hann engin laun fengið greidd þá mánuði. Kærandi mótmælir harðlega að umrætt lán verði túlkað á þann hátt sem gert er í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi segist enn fremur skulda vinnuveitenda sínum X kr. vegna umrædds láns.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfum til kæranda, dags. 25. ágúst og 15. september 2010, vakið athygli hans á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu vegna barns sem fæddist Y. febrúar 2008. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi kærandi fengið há laun frá vinnuveitanda sínum í september 2008 fyrsta mánuðinn eftir að greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði lauk. Óskað hafi verið eftir launaseðli frá vinnuveitenda kæranda fyrir umræddan mánuð ásamt úrskýringum frá vinnuveitanda hans og útskýringum og andmælum kæranda sjálfs ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Þann 10. september 2010 hafi borist bréf, dags. 6. september 2010, sem var undirritað af framkvæmdarstjóra B ehf. Þann 23. september hafi borist umbeðinn launaseðill og aftur þann 11. október 2010 en talsvert frábrugðinn þeim fyrri. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir frekari skýringum frá vinnuveitanda kæranda með tölvupósti, dags. 13. október 2010.

Þar sem ekkert svar hafi borist kæranda hafi verið send greiðsluáskorun, dags. 1. nóvember 2010. Í framhaldinu hafi borist svar frá vinnuveitanda kæranda með tölvupósti, dags. 9. nóvember 2010. Í kjölfarið hafi kæranda verið sent bréf, dags. 12. nóvember 2010, þar sem fram komi að innsendar skýringar breyti ekki fyrri ákvörðun. Kæranda hafi svo verið send ný greiðsluáskorun þann 21. desember 2010.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008 og í gildi var við fæðingu barns kæranda, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt fortakslausu ákvæði 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, og úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í málum nr. 41/2009 og 15/2010 skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt:

Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.

Fæðingarorlofssjóður vísar einnig til þess að í 15. gr. a. ffl., sbr. a-lið 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í 15. gr. b. ffl., sbr. b-lið 6. gr. laga nr. 90/2004 og 1. gr. reglugerðar nr. 826/2007, sem í gildi var við fæðingu barnsins, komi fram að Vinnumálastofnun skuli annast eftirlit með framkvæmd laganna. Í athugasemdum með 15. gr. b. ffl., sbr. b-lið 6. gr. laga nr. 90/2004 segi orðrétt:

Lagt er til að fela [skattyfirvöldum] eftirlit með framkvæmd laganna. Er hér einkum átt við að fylgst verði með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi. Er það einn af lykilþáttum laganna að foreldrar leggi niður störf til að annast börn sín enda greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ætlað að bæta tekjutap foreldra vegna þess. Á sama hátt er ekki gert ráð fyrir að foreldrar eigi að hagnast á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur þeirra fyrir sama tímabil. Í þeim tilvikum þegar grunur leikur á að foreldrar leggi ekki niður launuð störf í fæðingarorlofi er mikilvægt að [skattyfirvöld] fylgist með staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldaskrá þann tíma sem fæðingarorlofi var ætlað að standa yfir í því skyni að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi hafi ekki á sama tíma haft hærri tekjur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris. Þá hefur grunur vaknað um að foreldrar sem starfa á þeim tíma sem þeir eru skráðir í fæðingarorlof fái launagreiðslurnar greiddar á næstu mánuðum á eftir. Er því gert ráð fyrir að [skattyfirvöld] fylgist með staðgreiðsluskrá foreldra eftir að foreldri hóf störf að nýju eftir fæðingarorlof. Verði foreldrar uppvísir að slíku broti á lögunum er lagt til í frumvarpi þessu að það geti varðað sektum, sbr. 10. gr. frumvarps þessa. Þá er lagt til að [félagsmálaráðherra] hafi heimildir til að fela öðrum eftirlitið með framkvæmd laganna en honum er jafnframt ætlað að setja nánari reglur í reglugerð um framkvæmd eftirlitsins þyki ástæða til þess.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að á umsókn kæranda, dags. 30. janúar 2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu, Y. febrúar 2008, komi fram að hann sæki um greiðslur í þrjá mánuði. Með bréfi, dags. 20. maí 2008, hafi móðir afsalað sér sameiginlegum rétti til fæðingarorlofs til kæranda. Réttur kæranda til fæðingarorlofs hafi því alls verið sex mánuðir. Fjórar tilkynningar hafi borist frá kæranda um fæðingarorlof, dags. 30. janúar, 1. apríl, 20. og 28. maí 2010. Kærandi hafi verið afgreiddur í samræmi við tilkynningarnar í 100% fæðingarorlof frá fæðingardegi barns í einn mánuð eða frá 23. febrúar til 23. mars 2010 og síðan í 100% orlof frá apríl til ágúst 2008, sbr. greiðsluáætlun til hans dags. 3. febrúar 2011.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í staðgreiðsluskrá RSK komi fram að kærandi hafi verið með laun frá B ehf. í janúar 2008 sem sé síðasti mánuður fyrir töku fæðingarorlofs. Hann hafi ekki fengið nein laun frá vinnuveitanda sínum samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK meðan á fæðingarorlofinu stóð, þ.e. febrúar–ágúst 2008. Hann hafi hins vegar fengið greiddar X kr. í september 2008 frá B ehf., sem sé fyrsti mánuður eftir að fæðingarorlofi hans lauk, og síðan ekkert fyrr en í janúar og febrúar 2009 þegar hann hafi fengið X kr. í hvorum mánuði fyrir sig.

Í ljósi framangreinds hafi Fæðingarorlofssjóður kallað eftir launaseðli fyrir september 2008 ásamt útskýringum. Í skýringum vinnuveitanda kæranda, dags. 6. september 2010, kemur fram að hann hafi greitt kæranda fyrirfram 1. september 2008 vegna bágrar fjárhagsstöðu kæranda. Eins og komið hafi fram hafi tveir launaseðlar borist frá kæranda fyrir september 2008 en talsverður munur hafi hins vegar verið á þeim. Á báðum launaseðlunum komi þó fram að heildarlaun kæranda hafi verið X kr. sem sé í samræmi við staðgreiðsluskrá RSK. Samkvæmt launaseðlunum hafi kærandi fengið X kr. greiddar fyrirfram en einungis X kr. útborgaðar sem lagðar hafi verið inn á bankareikning hans þann 1. október 2010. Samkvæmt því sé ljóst að mati Fæðingarorlofssjóðs að fyrirframgreiðslan upp á X kr. hafi átt sér stað áður. Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með tölvupósti til vinnuveitanda kæranda, dags. 13. október 2010, hafi sérstaklega verið kallað eftir hvenær þessi eða þessar fyrirframgreiðslur hafi átt sér stað og óskað hafi verið eftir að bankayfirlit yrði lagt fram því til staðfestingar. Í svari vinnuveitandans, í tölvupósti frá 9. nóvember 2010, komi fram að hann hafi greitt kæranda þessi laun með peningum.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að á viðmiðunartímabili kæranda, skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., sé kærandi með X kr. í meðaltekjur en samkvæmt fortakslausu ákvæði 9. mgr. 13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Að því gefnu að kærandi hafi verið í vinnu hjá B ehf. í september 2008 og verið með X kr. í laun fyrir þá vinnu standi eftir X kr. af X kr. sem sé sú fjárhæð sem Fæðingarorlofssjóður telur að séu geymdar greiðslur fyrir það tímabil sem kærandi var í fæðingarorlofi, sbr. 9. mgr. 13. gr. og 15. gr. b. ffl.

Samkvæmt framangreindu og í samræmi við 9. mgr. 13. gr. ffl., 15. gr. b. ffl., sbr. 2. mgr. 15. gr. a. ffl. telur Fæðingarorlofssjóður því að kæranda hafi verið ofgreidd framangreind fjárhæð eða X kr. útborgað og að viðbættu 15% álagi X kr. sem gerð sé krafa um að kærandi endurgreiði. Kæranda hafi verið send ný og leiðrétt greiðsluáskorun þess efnis, dags. 4. febrúar 2011, ásamt útreikningi á ofgreiðslu.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið endurkrafinn um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs með barni fæddu Y. febrúar 2008, sbr. greiðsluáskorun til hans dags. 4. febrúar 2011.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn Y. febrúar 2008.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi muni ekki hafa lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði ffl. á þeim tíma sem hann fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina febrúar til ágúst 2008. Í greiðsluáskorun, dags. 21. desember 2010, sbr. leiðréttingu dags. 4. febrúar 2011, endurkrefur Fæðingarorlofssjóður kæranda um greiðslur að fjárhæð X kr., auk 15% álags eða samtals X kr. Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs er litið svo á að vinnuveitandi kæranda hafi geymt launagreiðslur til hans þar til töku fæðingarorlofs lauk og þá hafi farið fram uppgjör af hálfu fyrirtækisins og kæranda og hann fengið greiðslur sem raunverulega voru ætlaðar fyrir þann tíma sem hann var í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda þann Y. febrúar 2008, skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum við 9. mgr. 13. gr. segir í greinargerð að talið sé mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim sé ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda sé eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Sé því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum.

Nefndin tekur undir með Fæðingarorlofssjóði að það sé lykilatriði við framkvæmd ffl. að foreldrar leggi raunverulega niður störf til að annast börn sín, enda sé greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ætlað að bæta tekjutap foreldra vegna þess. Þá telur nefndin ljóst að mikilvægt sé að koma í veg fyrir að farið sé á svig við þessa meginreglu laganna með því meðal annars að foreldrar fái launagreiðslur greiddar á næstu mánuðum eftir að fæðingarorlofi lýkur, svo sem sérstaklega er lögð áhersla á í athugasemdum með 15. gr. b. ffl., sem reifaðar eru í umsögn Fæðingarorlofssjóðs hér að framan.

Í því máli sem hér um ræðir var meðaltal heildarlauna kæranda á mánuði viðmiðunarárin 2006 og 2007, X kr. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk hann greitt frá vinnuveitanda X kr. í september 2008, fyrsta mánuðinn eftir að fæðingarorlofi lauk. Á launaseðlum kæranda fyrir septembermánuð 2008 kemur fram að kærandi hafi fengið X kr. í laun frá B ehf. í þeim mánuði og þar af hafi kærandi fengið X kr. greiddar fyrirfram.

Þótt umrædd útborgun til kæranda sé með þessum hætti verður að mati nefndarinnar ekki framhjá því litið að kærandi fær engin laun greidd mánuðina þar á eftir, október, nóvember og desember 2008, auk þess sem skráð laun frá vinnuveitanda kæranda fyrir janúar og febrúar 2009 eru X kr. fyrir hvorn mánuð, eða langt undir meðaltali heildarlauna kæranda. Styður sú staðreynd frásögn kæranda um að hann hafi fengið lánað fé frá vinnuveitanda um það leyti er hann hóf störf að nýju eða fengið laun sín greidd fyrirfram vegna bágrar fjárhagsstöðu. Hann hafi skuldbundið sig til að endurgreiða honum á næstu þremur mánuðum. Hefur vinnuveitandi hans borið á sama veg.

Samkvæmt 9. mgr. 13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Með vísan til framangreinds telur nefndin ekki nægilega leitt í ljós í málinu að þær greiðslur sem kærandi fékk frá vinnuveitanda sínum eftir að fæðingarorlofi hans lauk séu ætlaðar fyrir það tímabil sem hann var í fæðingarorlofi. Með vísan til þess verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um endurkröfu á greiðslum til A úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta