Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2011

Fimmtudaginn 24. febrúar 2011

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. janúar 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 14. janúar 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. desember 2010, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna sjúkrahúsdvalar barns.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. febrúar 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast barn Y. nóvember 2010 en eftir að barnið hafi verið útskrifað af Hreiðrinu hafi þurft að leggja það inn á vökudeild í tólf daga. Kærandi hafi sótt um lengingu fæðingarorlofs vegna þessa en verið synjað með þeim rökum að barnið hafi verið útskrifað í millitíðinni.

Barnið hafi strax eftir fæðingu, rétt fyrir klukkan hálf sex að morgni, þurft á súrefnisaðstoð að halda og verið fært á vökudeild. Það hafi svo verið útskrifað eftir þrjá tíma og flutt inn á Hreiðrið. Milli kl. 15.00 og 16.00 hafi barnalæknir komið til að skoða barnið vegna útskriftar. Hann hafi ekki verið ánægður og viljað annað álit áður en barnið yrði sent heim. Annar læknir hafi skoðað barnið en sá hafi ekki fundið neitt að svo barnið var útskrifað og fékk að fara heim.

Kærandi greinir frá því að sér hafi fundist barnið anda óeðlilega strax um kvöldið. Þá tekur hún sérstaklega fram að tveimur árum áður hafi hún misst sex mánaða barn úr vöggudauða. Kærandi hafi því verið undir það búin að verða óörugg með barnið. Kærandi kveðst gera sér grein fyrir því að nýburar geti andað óreglulega og ákveðið að hafa ekki frekari áhyggjur og metið áhyggjur sínar sem móðursýki.

Ljósmóðir hafi komið heim til kæranda daginn eftir og þá hafi kærandi sagt henni frá áhyggjum sínum. Ljósmóðirin hafi skoðað barnið og ekki fundið neitt að öndun þess. Hún hafi hins vegar sagt henni að hringja ef hún yrði vör við óreglulega öndun. Kærandi hafi orðið nokkrum sinnum vör við skrýtna öndun en aldrei nóg til að hún kallaði ljósmóðurina til.

Morguninn eftir hafi ljósmóðirin komið aftur en þá hafi barnið andað hratt og hún hafi sent barnið strax á barnaspítala þar sem það var lagt inn. Barnið hafi samkvæmt blóðprufu verið með sýkingu og sett á sýklalyf. Blóðið hafi verið sent í ræktun sem svaraði engu um sýkingu og því talið líklegast að um vot lungu væri að ræða og að barnið hafi sýkst í fæðingunni.

Kærandi greinir frá því að á þeim tíma sem barnið dvaldist á spítalanum hafi það verið tengt við mónitor. Komið hafi í ljós að það mettaði súrefni misvel og virtist anda alveg eðlilega inn á milli en hafi þó þurft á súrefnisaðstoð að halda meðan á dvölinni stóð.

Þá greinir kærandi frá því að tilgangur þess að rekja söguna sé að sýna fram á að barnið var veikt frá fæðingu og hefði trúlega ekki átt að útskrifast. Kærandi telur engan hafi gert mistök þar sem ljóst var að barnið virtist anda eðlilega inn á milli og því hafi í raun verið tilviljun sem réði því að barnið hafi verið útskrifað. Jafnframt telur hún að fyrri saga hafa valdið því að ekki var farið fyrr með barnið á spítala þar sem kærandi hafi sjálf talið að áhyggjurnar stöfuðu af móðursýki tengdri fyrri reynslu.

Kærandi bendir á að B barnalæknir hafi sent bréf til Fæðingarorlofssjóðs eftir að kæranda hafi verið synjað en hann hafi fengið þau svör að þar sem spítaladvölin hafi ekki verið í beinu framhaldi af fæðingu, þá væri ekki hægt að framlengja fæðingarorlofið um tólf daga.

Kærandi kveðst með engu móti geta skilið ástæður þess að dvölin þurfi að vera í beinu framhaldi af fæðingu og vill biðja um endurskoðun á þessu máli með tilliti til þess að sýkinguna megi að öllum líkindum tengja fæðingunni sjálfri.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram kærandi hafi með umsókn, dags. 13. september 2010, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hennar sem fæddist Y. nóvember 2010. Með greiðsluáætlun, dags. 9. nóvember 2010, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Með umsókn, dags. 23. nóvember 2010, hafi kærandi síðan sótt um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna sjúkrahúsdvalar barns. Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um fæðingarorlof, dags. 23. nóvember 2010, og læknisvottorð frá B, dags. 18. nóvember 2010.

Með bréfi til kæranda, dags. 25. nóvember 2010, hafi henni verið synjað um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna sjúkrahúsdvalar barns þar sem barn hennar dvaldist ekki lengur en sjö daga á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu. Í framhaldinu hafi borist læknabréf frá B, dags. 29. nóvember 2011. Því hafi verið svarað með bréfi til læknisins, dags. 2. desember 2010, og afrit sent kæranda. Í læknabréfinu kemur fram að barnið hafi, eftir fæðingu, verið lagt inn á vökudeild og verið þar undir eftirliti í nokkrar klukkustundir. Barnið hafi svo fengið að fara aftur á fæðingargang kvennadeildarinnar og síðan útskrifað þaðan daginn eftir til síns heima. Sólarhring síðar hafi barnið aftur verið lagt inn á vökudeild. Í bréfinu segir enn fremur að þrýstingur á að útskrifa konur og börn snemma af fæðingarstofnun sé að aukast og því komi það oftar fyrir að það þurfi að taka börn að heiman á fyrstu sólarhringunum til frekari athugunar og meðferðar á vökudeild eins og verið hafi í tilviki kæranda.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 1. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, segi að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Þó megi aldrei lengja fæðingarorlof af þessari ástæðu um meira en fjóra mánuði. Heimild þessi eigi einnig við þegar barn fæðist fyrir áætlaðan fæðingardag og þarf að dvelja lengur á sjúkrahúsi af þeim sökum. Þá er vísað til 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar þar sem segi að upphaf greiðslna skv. 1. mgr. miðist við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Síðan segi í ákvæði 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar: „Ef barn innritast að nýju á sjúkrahús veitir það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.“

Í 5. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar, komi fram að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæðinu með vottorði sérfræðilæknis.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sé einungis heimilt að veita framlengingu vegna sjúkrahúsdvalar barns ef barn hefur dvalið á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu fyrir fyrstu heimkomu. Skuli upphaf greiðslna þá miðast við fæðingardag barns og lok greiðslna við fyrstu heimkomu eftir fæðingu. Ef barn útskrifist til síns heima áður en sjö dagar eru liðnir frá fæðingu en innritast svo að nýju veiti það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í læknisvottorði B, dags. 18. nóvember 2010, komi fram að barnið hafi fæðst Y. nóvember 2010 og verið útskrifað til síns heima síðar þann dag. Barnið hafi hins vegar komið aftur tveggja sólarhringa gamalt vegna þess að það hafi verið að anda nokkuð hratt og dvalist á sjúkrahúsi dagana Y.–18. nóvember 2010 meðan framkvæmdar hafi verið á því ítarlegar rannsóknir.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs þar sem barn hennar hafi dvalist skemur en sjö daga á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu fyrir fyrstu heimkomu.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna sjúkrahúsdvalar barns með bréfi, dags. 25. nóvember 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. ffl. þarf barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu svo heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis, sbr. 5. mgr. 17. gr. ffl.

Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er einnig heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Fyrrnefnd heimild 1. mgr. 17. gr. ffl. er útfærð nánar í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Þar kemur fram að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar að upphaf greiðslna skv. 1. mgr. skuli miðast við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Jafnframt kemur þar fram að ef barn innritast að nýju á sjúkrahús veiti það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.

Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 er þannig sérstaklega tekið fram að heimildin sé bundin við það að barn hafi þurft að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu. Þá er ítrekað í ákvæðinu að heimilt sé að framlengja orlofið um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Jafnframt er tekið fram í 2. mgr. ákvæðisins að fari barn heim eftir fæðingu og innritast síðan að nýju á sjúkrahús veiti það ekki rétt til framlengingar á greiðslum.

Kærandi ól barn þann Y. nóvember 2010 og samkvæmt gögnum málsins var barnið útskrifað af sjúkrahúsinu samdægurs. Í læknisvottorði B, dags. 18. nóvember 2010, kemur fram að barnið hafi aftur komið til innlagnar tveggja sólarhringa gamalt og hafi þá andað nokkuð hratt. Barnið hafi dvalist þar dagana Y.– 18. nóvember. Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að ekki er um að ræða samfellda sjúkrahúsdvöl barns frá fæðingu í skilningi 1. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Í tilviki barns kæranda líður vissulega skammur tími frá fyrstu heimkomu þess og til að barnið innritast að nýju á sjúkrahús. Í fyrrnefndu bréfi læknis kæranda, dags. 29. nóvember 2010, er tekið fram að útskrift barnsins megi rekja til þrýstings á að útskrifa konur og börn snemma af fæðingarstofnun og því komi oftar fyrir að taka þurfi börn að heiman á fyrstu sólarhringum til frekari athugunar og meðferðar á vökudeild, eins og hafi verið í þessu tilviki.

Þrátt fyrir að sá tími sem barn kæranda var heima við hafi verið stuttur og það, að útskrift kunni að hafa verið ótímabær og ástæður hennar kunni að hafa verið þær sem nefndar eru í bréfi læknis kæranda, er að mati nefndarinnar enga undanþágu að finna
í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008 sem unnt er að beita í tilviki kæranda. Þá á 2. mgr. 17. gr. ffl. ekki við í tilviki hennar. Er því óhjákvæmilegt
að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun á lengingu fæðingarorlofs.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu á rétti hennar til fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta