Skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi skilað
Skýrsluna má nálgast hér.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Niðurstöður þessarar skýrslu sýna vel hvað innlend matvælaframleiðsla stendur sterkt og hvað hún er mikilvæg stoð enda stendur hún undir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi. Um leið sýnir skýrslan fram á þau tækifæri sem blasa við til að gera enn betur, m.a. í því að efla framleiðslu á korni og innlendri áburðarframleiðslu. Um leið sýnir skýrslan fram á mikilvægi þess að móta stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar. Með slíkri stefnu þarf að setja markmið um getu innlendrar matvælaframleiðslu til að takast á við skyndilegar breytingar á aðgengi að innfluttri matvöru og aðföngum til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.”
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
· Innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir töluverðum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þá sérstaklega próteini.
· Framleiðsla hverrar greinar á misstóran hlut í fæðuframboði á Íslandi. Framboð á fiski er langt umfram innlenda eftirspurn en hlutdeild innlendrar framleiðslu er 43% í grænmeti, 90% í kjöti, 96% í eggjum og 99% í mjólkurvörum, en sem dæmi aðeins 1% í korni til manneldis.
· Innlend matvælaframleiðsla er mjög háð innflutningi á aðföngum og þá sérstaklega eldsneyti og áburði en einnig fóðri, sáðvöru, tækjum og rekstrarvörum til framleiðslunnar.
· Eðli og umfang innflutnings aðfanga er misjafnt eftir greinum og því myndi skortur á aðföngum hafa mismikil áhrif á framleiðsluna. Staða einstakra greina er metin í skýrslunni.
· Með viðeigandi ráðstöfunum varðandi birgðahald á aðföngum væri hægt að tryggja meirihluta innlendrar framleiðslu í einhvern tíma, háð framleiðslugreinum.
· Það liggja tækifæri í því að efla framleiðslu á korni, bæði sem fóður fyrir búfé og til manneldis, efla útiræktun grænmetis og efla innlenda áburðarframleiðslu með bættri nýtingu hráefna.
· Til að tryggja að það land sem hentugast er undir ræktun tapist ekki undir aðra starfsemi þarf að liggja fyrir skýr stefna um landnotkun og flokkun landbúnaðarlands.
Skýrsluhöfundar telja að eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga sé háð fjórum megin forsendum:
· að auðlindir til framleiðslunnar séu til staðar, s.s. fiskistofnar og land til ræktunar
· að þekking á framleiðslu og tæki til framleiðslu séu til staðar
· að aðgengi að aðföngum sé tryggt fyrir framleiðslu sem mætir þörfum þjóðarinnar, s.s. olíu, áburði og fóðri
· að birgðir séu til af þeim fæðutegundum sem þjóðin þarfnast en sem innlend matvælaframleiðsla getur ekki tryggt eða slík framleiðsla hér heima verði efld.
Mótun stefnu um fæðuöryggi
Skýrslan var unnin á grundvelli samnings á milli ráðuneytisins og skólans sem undirritaður var í febrúar 2020. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um innlenda matvælaframleiðslu, innflutning matvæla og aðfanga. Fjallað er um veikleika íslenskrar matvælaframleiðslu og lagt mat á áhrif þess ef upp kæmi skortur á aðföngum sem nauðsynleg eru fyrir framleiðsluna. Einnig er fjallað um þætti sem gætu stuðlað að auknu fæðuöryggi á Íslandi.