Verðlaun til skálds og styrkir til ungra vísindamanna
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tekur þátt í tveimur athöfnum, þar sem veitt voru verðlaun og styrkir.
Tíu ungum starfsmönnum Landspítala, sem stunda klínískar rannsóknir á spítalanum, voru afhentir styrkir úr Vísindasjóði LSH við athöfn í Hringsal 20. desember 2011. Það er í fyrsta skipti sem slíkir styrkir eru veittir á Landspítala. Hver styrkur nemur einni milljón króna. Markmið styrkjanna er að efla klínískar rannsóknir á Landspítala og styðja rannsóknarvirkni ungra starfsmanna. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra voru viðstödd afhendingu styrkjanna til þessa glæsilega hóps ungs vísindafólks.
Síðar sama dag flutti Katrín Jakobsdóttir ávarp við veitingu verðlauna úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Baldur Óskarsson, ljóðskáld, hlaut verðlaunin en þau eru veitt árlega á afmæli Ríkisútvarpsins. Athöfnin fór fram á Markúsartorgi í Efstaleiti. Ritferill Baldurs Óskarssonar spannar hálfa öld. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja, sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Árið 1966 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók, Svefneyjar, og síðan hefur hann einkum einbeitt sér að ljóðagerð. Nú hafa komið út fjórtán ljóðabækur eftir hann, sú nýjasta, Langt frá öðrum grjótum kom út árið 2010. Þá var Baldur Óskarsson fréttamaður á Ríkisútvarpinu um árabil.