Kristján Þór skipar stjórn Fiskeldissjóðs
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað fyrstu stjórn Fiskeldissjóðs. Hlutverk sjóðsins er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.
Stjórnina skipa þau:
- Haraldur Líndal Haraldsson, formaður, skipaður án tilnefningar
- Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af forsætisráðherra,
- Kjartan Dige Baldursson, tilnefndur af fjármála-og efnahagsráðherra.
Stjórn Fiskeldissjóðs hefur yfirumsjón með rekstri hans.
Tekjur sjóðsins eru hlutfall af því gjaldi sem rekstrarleyfishafar fiskeldisstöðva í sjó greiða í ríkissjóð samkvæmt lögum nr. 89/2019. Stjórn sjóðsins mun fljótlega auglýsa eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp innviði og þjónustu á svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Áætlað er að sjóðurinn hafi 113 milljónir króna til umráða á árinu 2021.