Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2024 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 12/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B ehf.

 

Uppsögn. Fæðingarorlof. Ástæður tengdar meðgöngu og barnsburði. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun B ehf. um að segja henni upp störfum. Hélt A því fram að uppsögnina mætti rekja til töku fæðingarorlofs. Að mati kærunefndar höfðu ekki verið leiddar líkur að því að uppsögn A hefði grundvallast á ástæðum sem tengdust töku fæðingarorlofs eða öðrum aðstæðum í tengslum við meðgöngu og barnsburð, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Var því ekki fallist á að B ehf. hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 8. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 12/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 13. júlí 2023, kærði A ákvörðun B ehf. um að segja henni upp störfum. Heldur kærandi því fram að uppsögnina hafi mátt rekja til töku fæðingarorlofs. Kærandi telur að með þessu hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 25. júlí 2023. Greinar­gerð kærða barst ásamt fylgigögnum með bréfi, dags. 29. ágúst s.á., og var kynnt kæranda hinn 30. s.m. Athugasemdir kæranda eru dags. 14. september, 3. nóvember og 8. desember 2023 og athugasemdir kærða 6. október og 22. nóvember s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærandi, sem hafði starfað hjá kærða frá byrjun maí 2022, tilkynnti í ágúst sama ár að hún hygðist nýta sér rétt til fæðingarorlofs þar sem hún ætti von á barni 1. mars 2023 en fyrir lá að hún gekk ekki með barnið. Samþykkti kærði að hún myndi annars vegar taka fæðingarorlof í einn og hálfan mánuð frá fæðingardegi barnsins og hins vegar frá 16. janúar til 15. apríl 2024. Barn kæranda fæddist 8. febrúar 2023 og tók kærandi fæðingarorlof frá þeim degi í samræmi við fyrrnefnt samkomulag milli hennar og kærða. Rúmum mánuði eftir að hún kom til baka úr fyrri hluta fæðingarorlofsins var kæranda sagt upp störfum. Í uppsagnarbréfinu kom fram að ástæðan fyrir uppsögninni væri sú að henni hefði ekki gengið eins vel að komast inn í starfið og vonir hefðu staðið til og því teldi kærði sig þurfa reyndari starfskraft í starfið.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að uppsögn hennar úr starfi hjá kærða feli í sér brot gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með því að hafa látið fæðingarorlof hafa áhrif á uppsögnina. Telur kærandi að óheimilt hafi verið að segja henni upp störfum en hún hafi í samræmi við 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, tilkynnt kærða fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, fengið það samþykkt og nýlega eignast barn. Þá hafi engar gildar ástæður verið fyrir uppsögninni en aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hennar sem fjármálastjóri kærða.
  6. Kærandi tekur fram að hún hafi fyrst fengið upplýsingar um að henni gengi illa að komast inn í starfið þegar henni barst uppsagnarbréfið. Telur kærandi að rökin fyrir uppsögninni sem komi fram í tölvupósti til hennar 11. maí 2023 séu eftiráskýringar sem hafi komið fram skömmu eftir að hún lauk fyrri hluta fæðingarorlofs. Bendir kærandi á að kærða hafi verið kunnugt að hún væri ekki reynd á þessu sviði og hafi þurft tíma og aðstoð við að komast inn í starfið. Þá sé því hvergi haldið fram að fjárhagsstaða kærða hafi gert það að verkum að nauðsyn hafi borið til að segja henni upp störfum. Kærandi bendir á að styrkleikar hennar í starfi hafi verið umtalsverðir og hún hafi sinnt starfi sínu af alúð og dugnaði enda hafi hún ekki fengið aðrar upplýsingar frá kærða áður en henni var fyrirvaralaust sagt upp störfum.
  7. Kærandi tekur fram að hún hafi verið í mjög viðkvæmri stöðu enda sé 50. gr. laga nr. 144/2020 ætlað að vernda fólk sem hefur tilkynnt um töku fæðingarorlofs til vinnuveitanda síns. Bendir kærandi á að hennar staða hafi verið sérstaklega viðkvæm þar sem síðari hluti töku fæðingarorlofs hafi ekki verið fyrirhugaður fyrr en átta mánuðum eftir að henni var sagt upp störfum og útilokað eða mjög erfitt fyrir hana að fá nýja vinnu þar sem hún var á leiðinni í fæðingarorlof. Bendir kærandi á að verði það niðurstaða kærunefndar að fyrrnefnt ákvæði 50. gr. laga nr. 144/2020 verndi ekki konur í þeirri stöðu sem kærandi var í sé ljóst að löggjafanum hafi mistekist að vernda konur í þessari viðkvæmu stöðu sem löggjafanum sé þó skylt að gera samkvæmt alþjóðaskuldbindingum.
  8. Kærandi tekur fram að hún hafni alfarið afstöðu kærða og þeim atriðum sem hann hafi tínt til eftir að honum urðu athugasemdir kæranda ljósar. Séu nánast allar ásakanir kærða nýjar, ef ekki allar, og hafi ekki komið fram á meðan kærandi var í starfi. Jafnframt bendir hún á að svo virðist sem tilteknum starfsmanni kærða hafi verið falið það verkefni að tína til öll þau gögn sem eigi að sýna fram á að kærandi hafi verið ómögulegur starfsmaður og hafi ítrekað gert mistök í starfi. Túlkanir kærða á þeim gögnum séu útúrsnúningur á eðlilegum samskiptum starfsmanna en ábendingar, rökræður, mismunandi skoðanir á vinnulagi og smávægileg mistök séu að mati kæranda hluti af daglegu starfi í fyrirtækjum og beri að skoða í stærra samhengi.
  9. Kærandi tekur fram að hún hafni í fyrsta lagi þeirri staðhæfingu kærða að hún hafi gert endurtekin mistök. Þvert á móti telur kærandi sig hafa staðið sig vel í starfi, enda hafi hún engar aðrar upplýsingar fengið frá kærða. Yfirmenn kæranda hafi aldrei boðað hana á fund eða farið yfir með henni að hún væri að gera endurtekin mistök. Þá sé það tvennt ólíkt að hafa ekki gengið vel að komast inn í starf og að eiga að hafa gert ítrekuð mistök. Við blasi að eina ástæða uppsagnarinnar sé sú staðreynd að hún átti eftir að taka stóran hluta af fæðingarorlofi sínu. Hafni hún með öllu að hafa ekki haft næga reynslu til að sinna starfsskyldum sínum og að ítrekað hafi þurft að leiðrétta hana, enda var slíku aldrei komið á framfæri við hana meðan hún starfaði hjá kærða. Í öðru lagi hafni hún því að henni hafi verið bannað að senda frá sér pantanir án þess að farið væri yfir þær. Þau mistök varðandi pantanir sem finna megi í þeim gögnum sem kærði hefur lagt fram fyrir nefndinni hafi alveg eins verið öðrum að kenna. Í kjölfar mistakanna hafi farið fram samtal um fyrirkomulag pantana, þar sem komið hafi íljós að rangar eða villandi upplýsingar væri að finna í kerfi kærða. Því hafi markaðsstjóri kærða lagt það til að hún færi yfir allar pantanir sem kærandi sendi frá sér í nánustu framtíð, þar sem alls ekki mætti panta það sem kerfið legði til.
  10. Kærandi tekur fram að einu mistökin sem hafi átt sér stað varði sein skil á virðisaukaskatti. Bendir hún á að hún hafi ekki verið búin að vinna lengi fyrir kærða þegar þau mistök áttu sér stað og ekki fengið vitneskju um að skila bæri skýrslunni fyrir kl. 16:00. Hafnar kærandi því alfarið að hafa valdið kærða tjóni og telur mistökin allt eins á ábyrgð yfirmanna kæranda, enda beri þeir fulla ábyrgð á rekstri kærða og skilum á vörslusköttum. Mistökin hafi aldrei verið gerð aftur og kærandi aldrei fengið tiltal vegna þeirra eða vöruð við að þau gætu kostað hana starfið.
  11. Kærandi bendir á að vinnuveitandi beri sönnunarbyrði fyrir því að gildar ástæður hafi í raun ráðið gerðum hans og vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 318/2008 því til stuðnings. Hún telur augljóst að slík sönnunarfærsla hafi ekki tekist.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  12. Kærði bendir á að kærunefnd jafnréttismála taki ekki til meðferðar mál sem varða ákvæði laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Hann tekur þó fram að hann telji gildar ástæður hafa verið fyrir uppsögninni í skilningi 50. gr. laga nr. 144/2020 og að aðrar ástæður en fæðingar- og foreldraorlof kæranda hafi legið henni til grundvallar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  13. Kærði bendir á að kærandi hafi verið ráðin fjármálastjóri kærða en í ráðningarsamningi hafi starfssvið hennar verið skilgreint með svofelldum hætti: „Starfsmaður hefur yfir­umsjón með fjármálastjórn fyrirtækisins, fjárstýringu, greiðsluflæði og innheimtu. Starfsmaður ber ábyrgð á færslu alls bókhalds, uppgjöri og afstemmingu og færir auk þess lánardrottnabókhald. Jafnframt sér starfsmaður um innkaup á söluvörum fyrir­tækisins í samvinnu með sölufulltrúum og/eða framkvæmdastjóra. Starfsmaður skal leita hagstæðustu kjara við innkaup á vörum og flutningi. Starfsmaður er yfirmaður skrifstofu og ber því ábyrgð á starfsemi hennar. Meðal ábyrgðar er umsjón með starfs­mönnum í deildinni, samskipti við birgja og viðskiptavini. Yfirmaður starfsmanns er framkvæmdastjóri. Nánari lýsing á starfi er skv. starfslýsingu í hvert sinn.“ Hafi kærandi borið höfuðábyrgð á fjármálastjórn kærða og því mikil ábyrgð fólgin í starfinu.
  14. Kærði tekur fram að kærandi hafi starfað hjá kærða í níu mánuði áður en hún tók fyrri hluta fæðingarorlofs síns. Á því tímabili hafi því miður komið í ljós að hún hefði ekki næga reynslu til að sinna starfsskyldum sínum eins og til var ætlast og hafi aðrir starfsmenn kærða ítrekað þurft að leiðrétta hana, m.a. innheimtustjórinn sem var undirmaður hennar. Þannig hafi bókanir margsinnis verið gerðar eftir eindaga á reikningum, margsinnis hafi verið vitlaust bókað, virðisaukaskatt hafi margsinnis vantað á bókanir, töluvert hafi verið um tvíbókanir, bókanir á röngum degi og mikið hafi vantað af bókunum.
  15. Kærði tekur fram að kærandi hafi ekki klárað uppgjör félagsins fyrir fæðingarorlof eins og hún taldi sig hafa gert og því hafi annar aðili verið fenginn til þess að leiðrétta bókhaldið og klára uppgjörið. Hafi þá komið í ljós að margar færslur hafi verið ókláraðar og bókaðar á röngum degi en mikill tími hafi farið í afstemmingu. Hafi kostnaður vegna þessa verið kr. 238.400.
  16. Kærði tekur fram að honum hafi verið nauðugur sá eini kostur að segja kæranda upp störfum. Hafi ástæður uppsagnarinnar verið síendurtekin mistök í starfi og hafi hún á engan hátt tengst fæðingarorlofstöku kæranda. Þannig hafi hann orðið fyrir tjóni þegar kærandi greiddi virðisaukaskatt eftir að frestur til skila rann út í ágúst 2022. Hafi kostnaður fallið á kærða að fjárhæð kr. 452.425. Þá hafi hún skilað inn vitlausu virðisaukaskattsuppgjöri vegna maí til júní 2022 en hafi sent inn leiðréttingarskýrslu eftir ábendingu annars aðila um mismun á uppgjörslyklinum. Hafi virðisaukaskattur verið ofgreiddur um ca. kr. 2.000.000 vegna þessa en hann hafi fengist endurgreiddur. Þá hafi kærandi reiknað virðisaukaskattsuppgjör vegna janúar til febrúar 2023 vitlaust en það hafi verið leiðrétt af öðrum starfsmanni. Þá hafi hún pantað vörur sem kærði hafði engin not fyrir og gat ekki skilað. Hafi tjón kærða vegna þessarar pöntunar numið kr. 300.000. Tekur kærði fram að þrátt fyrir að kærandi hafi marga góða kosti hafi hann ekki getað látið hana bera áfram ábyrgð á fjármálastjórn félagsins.
  17. Kærði tekur fram að kæranda hafi ekki verið sagt upp vegna einstakra mistaka enda allvanalegt að mistök geti átt sér stað í starfi. Við heildarmat á fyrirliggjandi gögnum, sem lágu fyrir við uppsögnina, hafi kærði talið ljóst að kærandi gæti ekki borið áfram ábyrgð á fjármálastjórn félagsins. Ástæður uppsagnarinnar hafi legið fyrir þegar hún átti sér stað þó að þær hafi ekki verið tíndar til í uppsagnarbréfi með ítarlegri hætti en raun ber vitni. Bendir kærði á að þær rúmist innan orðalags bréfsins en ekki sé lögbundin krafa að öll tilvik sem hafi áhrif á ákvörðun um uppsögn séu talin upp í uppsagnarbréfi.
  18. Kærði telur að hann hafi sýnt fram á að aðrar ástæður en fæðingar- og foreldraorlof kæranda hafi legið til grundvallar uppsögn kæranda, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Telur kærði að þau gögn sem hann hefur lagt fyrir nefndina sýni að gildar ástæður hafi verið fyrir uppsögninni og hafi tilkynning kæranda um töku þriggja mánaða fæðingarorlofs, sem koma átti til framkvæmda á árinu 2024, því ekki haft áhrif á uppsögnina.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  19. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með því að hafa látið fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa áhrif á uppsögn kæranda, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna. Af orðalagi 19. gr. er ljóst að gildissvið hennar takmarkast ekki við það foreldri sem gengur með og fæðir barn heldur nær það jafnt til beggja foreldra. Samkvæmt því eiga fyrrnefnd ákvæði við í máli kæranda en fyrir liggur að hún gekk ekki með og fæddi barn sitt.
  20. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, og fjölþætt mismunun óheimil. Þá teljast fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns einnig mismunun samkvæmt lögunum.
  21. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  22. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildi um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Þá er óheimilt að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., ákvæðisins. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar aðstæður en fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn hennar hjá kærða.
  23. Fyrir liggur að kæranda var sagt upp störfum 28. apríl 2023, rúmum mánuði eftir að hún hafði tekið hluta fæðingarorlofs síns, en síðari hluti fæðingarorlofsins var fyrirhugaður um átta mánuðum eftir uppsögnina. Við úrlausn þess hvort uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020 verður að hafa í huga að ekki er ólögmætt að segja starfsmanni upp störfum í fæðingarorlofi eða á milli þess sem hann er í fæðingarorlofi sé uppsögnin byggð á öðrum ástæðum en fæðingarorlofi eða aðstæðum tengdum meðgöngu og barnsburði, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Verða því aðrar ástæður en fæðingarorlof og aðstæður sem tengjast meðgöngu og barnsburði að liggja til grundvallar uppsögn starfsmanns. Hér vísast einnig til 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, um sambærileg sjónarmið.
  24. Kærandi starfaði sem fjármálastjóri hjá kærða en í starfinu fólst m.a. yfirumsjón með fjármálastjórn, fjárstýringu, greiðsluflæði og innheimtu, auk þess sem kærandi bar ábyrgð á færslu bókhalds, uppgjörum og afstemmingu. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi einkum verið talin hafa gert mistök varðandi innheimtu, færslu bókhalds, uppgjör og afstemmingu auk mistaka í tengslum við skil á virðisaukaskatti. Í uppsagnarbréfinu voru ástæður uppsagnarinnar sagðar að kæranda hefði ekki gengið eins vel að komast inn í starfið og vonir hefðu staðið til og teldi kærði því sig þurfa reyndari starfskraft í starfið. Hefur kærði gert nánar grein fyrir því að árangur kæranda í starfi hafi að mati kærða ekki verið viðunandi en endurtekin mistök kæranda hafi valdið honum tilgreindu tjóni. Hafi því einstök mistök ekki valdið uppsögninni heldur hafi heildarmat á þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir við uppsögnina leitt til þeirrar niðurstöðu að kærandi gæti ekki lengur borið ábyrgð á fjármálastjórn kærða.
  25. Fyrir liggja tölvupóstar frá ágúst 2022 til apríl 2023 þar sem kæranda er m.a. bent á mistök við færslu bókhalds, innheimtu virðisaukaskatts á reikninga, við innkaup og uppgjör virðisaukaskatts. Verður ekki betur séð en að þessir tölvupóstar staðfesti að kæranda hafi orðið á ítrekuð mistök í starfi. Jafnvel þótt kærði hafi ekki formlega gert athugasemdir við störf kæranda og gefið henni tækifæri til að bæta sig í starfi verður af framangreindu ekki annað ráðið en að kæranda hafi verið kunnugt um umrædd mistök. Þannig var henni bent á mistökin með fyrrnefndum tölvupóstum og hún virðist hafa áttað sig á þeim eins og svör hennar bera með sér. Samkvæmt því verður eins og mál þetta liggur fyrir að telja að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið uppsögn kæranda til grundvallar. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við uppsögn kæranda hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020.
  26. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að ákvörðun um uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að ekki hafi verið leiddar líkur að því að við uppsögnina hafi kæranda verið mismunað á grundvelli ástæðna sem tengjast töku fæðingarorlofs eða annarra aðstæðna í tengslum við meðgöngu og barnsburð, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B ehf., braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta