Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2018 Forsætisráðuneytið

743/2018. Úrskurður frá 27. júní 2018

Úrskurður


Hinn 27. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 743/2018 í máli ÚNU 16110004.

Kæra og málsatvik


Með erindi til Landsnets hf., dags. 18. desember 2012, óskaði Orkuveita Reykjavíkur, móðurfélag Orku náttúrunnar ohf., eftir upplýsingum um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Í beiðninni segir að óskað sé eftir „öllum upplýsingum og forsendum (réttarheimildum, tilmælum, reglum, verklagsreglum, fyrirmælum, leiðbeiningum) um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Einnig var óskað eftir „upplýsingum um hvort kerfisframlags hafi verið krafist eða óskað vegna tenginga við flutningskerfið, hver staða þeirra mála er og loks samninga um kerfisframlag ef einhverjir eru“.

Með erindi, dags. 11. nóvember 2016, kærði Orka náttúrunnar töf á afgreiðslu Landsnets á beiðninni. Í kæru kemur m.a. fram að í upphafi árs 2014 hafi kærandi tekið við starfsemi virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og verkefnum sem þeim tengjast, m.a. sem lúta að tengingum virkjana fyrirtækisins við flutningskerfið í landinu og þar af leiðandi afgreiðslu mála er tengjast kerfisframlagi.

Með erindi, dags. 14. nóvember 2016, var kæran kynnt Landsneti og veittur frestur til afgreiðslu erindisins. Í svari Landsnets, dags 28. nóvember 2016, kemur m.a. fram að Landsnet telji rétt kæranda til aðgangs að upplýsingunum hvorki reistan á upplýsingalögum né lögum nr. 23/3006. Vísað er til þess að samkvæmt 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sé Landsneti skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar séu við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Þá sé í 8. mgr. sömu greinar kveðið á um að Landsnet skuli gæta jafnræðis við starfrækslu sína og trúnaðar um upplýsingar er varði viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Í 5. mgr. 9. gr. sé jafnframt kveðið á um að rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita upplýsingar skeri Orkustofnun úr og úrskurður Orkustofnunar sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála. Með erindum, dags. 4. janúar 2017 og 9. nóvember 2017, ítrekaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál beiðni um afhendingu afrita af gögnum sem kæran laut að. Þau bárust þann 16. nóvember 2017.

Kærandi kærði ákvörðun Landsnets með erindi, dags. 19. febrúar 2018. Þar kemur fram að kærandi reisi rétt sinn til aðgangs að upplýsingum um kerfisframlag Landsnets á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006, upplýsingalögum og raforkulögum nr. 65/2003. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að Landsneti sé skylt á grundvelli laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og upplýsingalaga að afhenda upplýsingar um kerfisframlag með vísan til 5. gr. laganna. Landsnet sé hlutafélag sem starfi á grundvelli laga nr. 75/2004, en hlutverk þess sé einkum að annast flutning raforku og kerfisstjórnum skv. ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 2. gr. laganna, auk þess sem félaginu sé heimilt að reka raforkumarkað. Þá sé félagið í eigu opinberra aðila. Landsnet falli því undir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2006. Þessu til stuðnings er vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-486/2013 og nr. 638/2016. Auk þess taki upplýsingalög til Landsnets samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna.

Kærandi telur upplýsingar um kerfisframlag, þ.e. hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutnings- eða dreifikerfi, vera upplýsingar um umhverfismál í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga 23/2006. Bent er á að kveðið sé á um kerfisframlag í samningum um tengingar aðila við flutningskerfi, t.d. í samningi Landsvirkjunar og Landsnets um tengingu Fljótsdalslínu 3 og 4 og samningi Landsnets við PCC Bakka Silicon hf. Þá feli ákvarðanataka um kerfisframlag í sér ráðstöfun í tengslum við löggjöf og/eða samning, nánar tiltekið að tekin sé afstaða til ráðstöfunar fjármuna á grundvelli ákvæða raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. mgr. 12. gr. a. laganna. Kærandi kveðst því óska eftir upplýsingum um ráðstöfun fjármuna í tengslum við löggjöf eða samning sem hafi eða sé líkleg til að hafa áhrif á umhverfið, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 23/2006. Engu máli skipti hvenær upplýsingarnar hafi orðið til eða hvenær þær hafi borist Landsneti, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 23/2006.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við að Landsnet beri fyrir sig trúnaðarskyldur. Réttur almennings til upplýsinga á grundvelli laga nr. 23/2006 takmarkist af 6. gr. laganna, en þar undir falli t.d. upplýsingar fjárhagslegs eðlis og sem varði viðskiptahagsmuni fyrirtækja, sbr. einnig 8. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 og 9. gr. upplýsingalaga. Til þess að þessar takmarkanir geti átt við verði að liggja fyrir að upplýsingarnar varði veigamikla framleiðslu- eða viðskiptahagsmuni og að birting þeirra geti valdið aðila óréttmætu tjóni. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vísað til þess hvers kyns hagsmunir muni skerðast ef upplýsingarnar verði gerðar aðgengilegar. Kærandi telur hagsmuni af því að aðgangur verði veittur vega þyngra en hagsmunir Landsnets og viðsemjenda af því að upplýsingarnar lúti trúnaði. Þær varði lögbundið hlutverk Landsnets sem beri að lögum að gæta jafnræðis við rækslu þess hlutverks, þ.m.t. við mat á kerfisframlagi. Fallist nefndin á það með Landsneti að trúnaðarupplýsingar sé að finna í umbeðnum gögnum beri að veita aðgang að hluta þeirra, sbr. 9. gr. laga nr. 23/2006 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 140/2012.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir skyldu skv. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga til að afla afstöðu eiganda einkahagsmuna beri Landsneti að leggja sjálfstætt mat þar á. Þá skipti ákvæði samnings sem kveði á um trúnaðarskyldu engu máli enda geti samningur ekki vikið skýrum ákvæðum laga um rétt til aðgangs að upplýsingum. Það eigi ekki að vera trúnaðarmál Landsnets og eins viðskiptavinar fyrirtækisins hvort og þá hvernig Landsnet uppfylli lögboðnar skyldur sínar.

Kærandi telur Landsneti einnig vera skylt að veita aðgang að upplýsingunum á grundvelli upplýsingalaga. Landsnet hafi borið fyrir sig 3. mgr. 35. gr. laganna en af greininni leiði að upplýsingalög taki aðeins til gagna og upplýsinga í vörslu lögaðila sem orðið hafi til eftir gildistöku laganna. Það tímamark eigi hins vegar ekki við þegar viðkomandi aðila hafi verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun en þá sé rétturinn til aðgangs að gögnum ekki tengdur gildistöku laganna. Kærandi segir ákvörðunartöku um kerfisframlag vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi bendir einnig á að upplýsingar um kerfisframlag hafi áður verið gerðar aðgengilegar almenningi, sbr. upplýsingar um kerfisframlag í tengslum við samkomulag Landsnets og PCC Bakka Silicon hf. í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 638/2016. Sömu upplýsingar hafi einnig veittar Eftirlitsstofnun EFTA, sbr. ákvörðun stofnunarinnar nr. 206/15/COL í máli nr. 77190. Kærandi telur það ótæka niðurstöðu að í sumum tilvikum verði talið heimilt að afhenda upplýsingar um kerfisframlag en ekki í öðrum.

Málsmeðferð


Með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, var kæran kynnt Landsneti og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn Landsnets, dags. 9. mars 2018, segir m.a. að greiðsla kerfisframlags vegna Kárahnjúkavirkjunar sé byggð á samningi Landsnets og Landsvirkjunar um flutning rafmagns til álvers Alcoa-Fjarðaáls sf. frá 14. desember 2007. Í 33. gr. samningsins sé kveðið á um að efni hans, hvort sem er í heild eða að hluta, eða viðskiptalegar upplýsingar sem lagðar hafi verið fram í samræmi við ákvæði hans, skuli vera trúnaðarmál og að aðilum hans sé óheimilt að upplýsa um þær án þess að fá skriflegt samþykki gagnaðila. Landsnet hafi leitað afstöðu Landsvirkjunar til beiðni kæranda og hafi Landsvirkjun alfarið lagst gegn aðgangi þar sem kærandi væri samkeppnisaðili félagsins. Vegna þessarar afstöðu Landsvirkjunar og 8. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 hafi Landsnet talið sér óheimilt að veita kæranda aðgang að upplýsingunum.

Landsnet hafnar því að upplýsingalög gildi um þær upplýsingar og gögn sem byggja á samningi félagsins og Landsvirkjunar frá 14. desember 2007. Af 3. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 14/2012 leiði að lögin gildi aðeins um gögn og upplýsingar í vörslum lögaðila sem urðu til eftir gildistöku laganna þann 1. janúar 2013. Landsnet hafnar því að samningur félagsins og Landsvirkjunar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun, heldur sé um að ræða samning milli tveggja aðila um ákveðin einkaréttarleg viðskipti þeirra á milli.

Í umsögninni kemur einnig fram að telji úrskurðarnefndin kæranda eiga rétt til gagnanna á grundvelli upplýsingalaga sé Landsneti óheimilt að greina frá þeim upplýsingum sem byggja á samningi Landsnets og Landsvirkjunar á grundvelli 9. gr. laganna. Ekki sé hægt að jafna aðstæðum í máli úrskurðanefndarinnar nr. 638/2016 við aðstæður í þessu máli. Þar hafi Landvernd óskað aðgangs að upplýsingum vegna áhrifa jarðstrengs á umhverfið og annarra tæknilegra upplýsinga tengda mannvirkjum vegna flutnings raforku frá Kröflu að Bakka. Í málinu sem hér sé til umfjöllunar sé óskað eftir aðgangi að upplýsingum um fjárhæðir sem tengist samningi Landsnets og Landsvirkjunar og lúti að mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum Landsvirkjunar.

Landsnet telur kæranda ekki eiga rétt til upplýsinganna á grundvelli 3. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Þá sé jafnframt til þess að líta að um kerfisframlag gildi raforkulög nr. 65/2003 þar sem sérstaklega sé fjallað um rétt til upplýsinga. Kærandi verði að að styðjast við þá heimild. Ef upplýsingarnar verði taldar falla undir lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál sé engu að síður óheimilt að veita upplýsingarnar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Umsögn Landsnets var kynnt kæranda með bréfi, dags. 12. mars 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags 27. mars 2018, segir m.a. að með beiðninni hafi kærandi viljað staðreyna að lögbundið jafnræði gildi milli aðila við meðferð mála þegar tekin sé ákvörðun um kerfisframlag. Landsnet hafi ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda heildstætt heldur látið duga að taka eingöngu afstöðu til beiðninnar hvað Landsvirkjun varði. Þetta hafi Landsnet gert þrátt fyrir að upplýsingabeiðni kæranda hafi verið víðtækari. Að auki hafi Landsnet ekki veitt kæranda aðgang að upplýsingum um kerfisframlag sem fjallað hafi verið um í samkomulagi Landsnets og PCC Bakka Silicon hf., þrátt fyrir að Landvernd og ESA hafi fengið aðgang að þeim samningi. Auk þess er tekið fram að samningsbundinn trúnaður gangi ekki framar lögbundnum rétti til upplýsinga.

Í athugasemdunum kemur einnig fram að með kerfisframlagi sé tekin ákvörðun sem hafi áhrif á fjárhagslega hagsmuni þess sem ákvörðunin beinist að og einnig annarra sem tengdir eru flutningskerfinu og beri hugsanlega kostnað af þeirri tengingu. Tenging nýrra aðila við kerfið geti því haft veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra sem fyrir eru. Því sé eðlilegt að þeir geti með góðu móti glöggvað sig á forsendum sem Landsnet byggi á.

Þá segir í athugasemdum kæranda að þagnarskylduákvæði 8. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2006 sé almenns eðlis og takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Ákvæðið geti því ekki veitt Landsneti ríkari rétt til að takmarka aðgang að upplýsingum en leiði af 9. gr. upplýsingalaga. Landsnet hafi ekki tilgreint að hvaða leyti Landsvirkjun verði fyrir tjóni ef aðgangur verði veittur að upplýsingunum. Landsnet hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir viðsemjenda sinna eigi að vega þyngra við takmörkun á afhendingu upplýsinga en annarra aðila sem aðild eigi að þeim hagsmunum sem ráðstafað sé með kerfisframlaginu. Óumdeilt sé að ákvörðun Landsnets um kerfisframlag sé tekin í skjóli einkaréttar fyrirtækisins á rekstri flutningskerfisins. Þá beri að hafa í huga að samningur Landsnets og Landsvirkjunar sé frá árinu 2007 og því séu yfirgnæfandi líkur á að hagsmunirnir sem Landsnet vísi til séu ekki virkir lengur.

Kærandi segir að orðalag 12. gr. a raforkulaga gefi ekki til kynna að samið sé um kerfisframlag á einkaréttarlegum grundvelli. Landsneti beri að tryggja gagnsæi, enda skuli fyrirtækið setja sérstakan netmála um kerfisframlag. Það leiði af orðalagi 12. gr. a að Landsneti beri að taka einhliða ákvörðun um kerfisframlag og að hún beinist að nýrri virkjun eða stórnotanda. Í þessu tilliti teljist Landsnet vera stjórnvald.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Þá hefur meðferð málsins dregist óhæfilega af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna mistaka við málsmeðferð og anna í störfum nefndarinnar. Beðist er velvirðingar á þessum drætti.

 

Niðurstaða

1.


Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem lúta að greiðslu kerfisframlags. Landsnet heldur því m.a. fram að málið heyri ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem kveðið sé á um sérstaka kæruheimild til Orkustofnunar og úrskurðarnefndar raforkumála í 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu flutningsfyrirtækisins til upplýsingagjafar og segir þar orðrétt:

„Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Rísi ágreiningur um hvort fyrirtækinu sé skylt að veita umbeðnar upplýsingar sker Orkustofnun úr. Úrskurður Orkustofnunar í þessu efni sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.“

Við gildistöku raforkulaga var ákvæði um upplýsingaskyldu flutningsfyrirtækisins í 5. tölul. 4. mgr. 9. gr. sem kvað á um skyldur flutningsfyrirtækisins við kerfisstjórnun. Í ákvæðinu sagði að í slíkri kerfisstjórn fælist m.a. að: „Veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum og til að tryggja jafnræði í viðskiptum með raforku.“ Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til raforkulaga nr. 65/2003 segir eftirfarandi:

„Mikilvægt er að veittar verði góðar og ítarlegar upplýsingar um viðskipti með raforku. Almennar opinberar upplýsingar um raforkumarkaðinn stuðla að jafnræði í viðskiptum og virkni raforkumarkaðarins. Kaupendur og seljendur raforku geta þá tekið upplýstar ákvarðanir og óskað skýringa á mismunandi verði raforku milli tengipunkta, þ.e. afhendingarstaða. Eftirlitsaðilar þurfa einnig greinargóðar upplýsingar um raforkuviðskipti. Slík upplýsingaskylda veitir aðhald og dregur úr þörf á beinu eftirliti.“

Með 5. gr. laga nr. 89/2004 var 9. gr. raforkulaga breytt og ákvæðið um upplýsingaskyldu fært í nýja málsgrein sem varð að 5. mgr. 9. gr. laganna. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir m.a. eftirfarandi:

„Þá er lagt til að upplýsingaskylda flutningsfyrirtækisins sé skýrð. Kveðið verði á um að flutningsfyrirtækinu sé skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku. Ákvæðinu er ætlað að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang að flutningskerfinu, sem er forsenda þess að eðlileg samkeppni á raforkumarkaði komist á. Við skýringu þessa ákvæðis er rétt að hafa í huga að flutningsfyrirtækinu ber að gæta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum sínum. Í því felst að gætt sé trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og annað sem eðlilegt er að leynt fari. Þær upplýsingar sem hægt er að krefja flutningsfyrirtækið um eru upplýsingar er varða fyrirtækið sjálft og starfrækslu þess.“

Ákvæði um úrskurðarnefnd raforkumála er að finna í 30. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í 1. mgr. segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af Orkustofnun á grundvelli laganna og varða gjaldskrá eða starfsemi flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitna sæti kæru til úrskurðarnefndar raforkumála.

Í 9. gr. raforkulaga er kveðið á um helstu skyldur flutningsfyrirtækis. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skal flutningsfyrirtækið byggja flutningskerfið upp og hefur eitt heimild til að reisa ný flutningsvirki. Í 1.-6. tölul. 2. mgr. 9. gr. er nánar kveðið á um hvað felist í rekstri flutningskerfisins en samkvæmt 1. tölul. felst í því m.a. að tengja alla þá sem eftir því sækjast við flutningskerfið, enda uppfylli þeir tæknileg skilyrði fyrir því og greiði tengigjald samkvæmt ákvæðum gjaldskrár, sbr. ákvæði 12. gr. a. Í 4. mgr. 9. gr. eru tekin dæmi í 5. töluliðum um hvað felist í kerfisstjórnun flutningsfyrirtækisins. Í 6. mgr. 9. gr. segir að flutningsfyrirtækið skuli í samráði við raforkufyrirtæki setja reglur um kerfisstjórnunina sem ráðherra staðfestir. Í reglunum skuli m.a. kveðið nánar á um þau atriði sem tilgreind séu í 1.-4. tölul. 4. mgr.

Í 12. gr. a er kveðið á um heimildir Landsnets til gjaldtöku. Segir þar í 1. mgr. að flutningsfyrirtækið skuli setja gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við tekjumörk skv. 12. gr, og skuli hún gilda annars vegar fyrir úttekt dreifiveitna frá flutningskerfi og hins vegar fyrir úttekt stórnotenda. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skulu virkjanir sem tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins samkvæmt því sem nánar greinir í ákvæðinu. Samkvæmt 8. mgr. 12. gr. a, skal flutningsfyrirtækið einnig setja gjaldskrá fyrir kerfisþjónustu og töp í flutningskerfinu sem tekur mið af kostnaði ásamt hæfilegri þóknun. Samkvæmt 10. mgr. 12. gr. a. skal krefjast greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum kostnaði annarra notenda kerfisins. Með sama hætti skal taka tillit til þess ef tenging leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Samkvæmt 11. mgr. skal setja nánari ákvæði um gjaldskrá í reglugerð auk þeirra atriða sem ákvæðið kveður á um. Á grundvelli reglugerðarheimildarinnar setti ráðherra reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005.

Í ákvæðum 16. gr. a.-c. reglugerðar nr. 1040/2005, sbr. reglugerð nr. 841/2016, er kveðið nánar á um kerfisframlag, aðferðafræði, forsendur og viðmið við útreikning þess. Segir þar í 3. mgr. 3. gr. að nánar skuli kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags, samanber 16. gr. a, 16. gr. b og 16 gr. c, í reglum (netmála) sem flutningsfyrirtækið setji og ráðherra staðfesti, sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

2.


Í gagnabeiðni kæranda, dags. 18. desember 2012, var óskað eftir „öllum upplýsingum og forsendum (réttarheimildum, tilmælum, reglum, verklagsreglum, fyrirmælum, leiðbeiningum) um útreikning og greiðslur á kerfisframlagi nýrra viðskiptavina flutningskerfisins. Einnig var óskað eftir „upplýsingum um hvort kerfisframlags hafi verið krafist eða óskað vegna tenginga við flutningskerfið, hver staða þeirra mála er og loks samninga um kerfisframlag ef einhverjir eru“. Landsnet afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af samningi Landsnets og Landsvirkjunar, dags. 14. desember 2007, um flutning rafmagns til álvers Alcoa-Fjarðaráls, bréf Landsnets, dags. 7. febrúar 2014, um uppgjör vegna kerfisframlags og svarbréf Landsvirkjunar, dags. 10 febrúar 2014. Landsnet virðist ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á öðrum gögnum er falla undir gagnabeiðnina.

Landsnet var stofnað á grundvelli laga nr. 75/2004 til að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að ganga út frá því að með lögunum séu Landsneti falin stjórnsýsluverkefni sem snúa að flutningskerfi raforku og sé félagið því stjórnvald í lagalegum skilningi hvað þessi verkefni áhrærir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 854/2014.

Af ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerðar nr. 1040/2005, með síðari breytingum, leiðir að það er lögbundin skylda flutningsfyrirtækis að tengja nýjar virkjanir og stórnotendur við flutningskerfið og innheimta fyrir það kerfisframlag ef tengingin veldur auknum kostnaði annarra notenda kerfisins eða greiða notandanum kerfisframlag ef tengingin leiðir til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar flutningskerfisins. Ákvörðun um kerfisframlag lýtur því með beinum hætti að rekstri flutningskerfisins. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að upplýsingar um greiðslu kerfisframlags séu upplýsingar sem lúta að lögboðnum skyldum flutningsfyrirtækis við rekstur flutningskerfisins. Þá sé jafnframt um að ræða upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort Landsnet sinni þeirri skyldu að tryggja jafnræði við flutning raforku. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að líta svo á þær upplýsingar sem afhentar voru nefndinni og sem lúta að kerfisframlagi, séu upplýsingar af þeim toga sem falli undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þá telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að eins og upplýsingabeiðni kæranda er orðuð verði að telja að önnur gögn sem fallið geti undir beiðnina séu einnig þess eðlis að ákvæði 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 taki til þeirra.

Það er enn fremur mat úrskurðarnefndarinnar að raforkulög beri að skoða í þessu samhengi sem sérlög gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga og laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt almennings. Af því leiðir að ákvörðun flutningsfyrirtækis um að synja um aðgang að upplýsingum sem felldar verða undir 5. mgr. 9. gr. raforkulaga er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem lögin mæla fyrir um sérstaka kæruleið í þessum tilvikum, sbr. einnig 1. mgr. 30. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Úrskurðarorð:


Kæru Orku náttúrunnar, dags. 19. febrúar 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta