Hoppa yfir valmynd
27. desember 2012 Innviðaráðuneytið

Lokið fjárhagslegri endurskipulagningu Sveitarfélagsins Álftaness

Lokið er fjárhagslegri endurskipulagningu Sveitarfélagsins Álftaness og leysti innanríkisráðherra í dag frá störfum fjárhaldsstjórn sem skipuð var til að annast verkefnið í samráði við bæjarstjórnina og innanríkisráðuneytið. Jafnframt var því fagnað að um áramótin sameinast sveitarfélagið og Garðabær undir nafni Garðabæjar en kosið var um sameininguna í haust og var hún liður í hinni fjárhagslegu endurskipulagningu.

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur lokið verkefni sínu og leysti innanríkisráðherra hana frá störfum í dag.
Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur lokið verkefni sínu og leysti innanríkisráðherra hana frá störfum í dag.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra afhenti fjárhaldsstjórninni, þeim Andra Árnasyni, hrl. sem skipaður var formaður, Elínu Guðjónsdóttur viðskiptafræðingi og Haraldi L. Haraldssyni hagfræðing lausnarbréf en viðstaddir voru auk þeirra fulltrúar sveitarfélaganna tveggja sem sameinast um áramótin, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, innanríkisráðuneytisins og eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Í ávarpi sínu við þetta tækifæri þakkaði innanríkisráðherra fjárhaldsstjórninni fyrir það viðamikla og flókna verkefni sem henni var falið og reyndist mjög umfangsmikið. Fjárhaldsstjórnin var í fyrstu skipuð til árs en alls þurfti að framlengja skipan hennar 11 sinnum. Ráðherrann sagði að allir aðilar málsins hefðu lagt mikið á sig, fjárhaldsstjórnin, bæjarstjórnirnar tvær, íbúarnir sem sýnt hefðu af sér mikið æðruleysi og lánardrottnar. Tekist hefði með ýmsum aðgerðum að lækka skuldir sveitarfélagsins úr 7,2 milljörðum króna í 3,2 milljarða og framundan væru nú nýir tímar með sameiningu sveitarfélaganna.

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur lokið verkefni sínu og leysti innanríkisráðherra hana frá störfum í dag.

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness lauk verkefni sínu í dag og var því fagnað við athöfn með fulltrúum sveitarfélagsins og Garðabæjar, ráðuneytisins og fleiri gestum.




Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness lauk verkefni sínu í dag og var því fagnað við athöfn með fulltrúum sveitarfélagsins og Garðabæjar, innanríkisráðuneytisins og fleiri gestum.

Bæjarstjóri Álftaness, Snorri Finnlaugsson, afhenti Gunnari Einarssyni málverk við athöfnina í dag, fjárhaldsstjórnin fylgist með.







Stefán Finnlaugsson, bæjarstjóri Álftaness, afhendir hér Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, mynd frá Álftanesi, fjárhaldsstjórnin fylgist með.

Forsagan

Forsaga málsins er sú að haustið 2009 vann Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) skýrslu um fjárhag sveitarfélagsins samkvæmt samkomulagi við bæjarstjórn í kjölfar þess að bæjarstjórnin tilkynnti EFS að sveitarfélagið væri komið í fjárþröng. Lagði nefndin til við ráðherra að sveitarfélaginu yrði skipuð fjárhaldsstjórn sem hefði forystu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins í samræmi við þágildandi sveitarstjórnarlög. Kristján L. Möller, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði í fjárhaldsstjórn í febrúar 2010 þau Andra Árnason, hrl. sem skipaður var formaður, Elínu Guðjónsdóttur viðskiptafræðing og Harald L. Haraldsson hagfræðing. Fjárhaldsstjórnin tók þá við stjórn fjármála sveitarfélagsins en að öðru leyti fór sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins. Við skipunina lagði ráðherra áherslu á gott og náið samstarf allra sem málið varðar og að við fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins skyldi horft til þess að verja eins og kostur er grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og félagslega velferð þeirra. 

Fjárhaldsstjórnin lagði fram um mitt árið 2010 tillögur um helstu þætti samkomulags við lánardrottna um lækkun skulda og ýmsa hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins. Náið samráð var haft við fulltrúa Sveitarfélagsins Álftaness og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tillögurnar og lýstu þeir ánægju með samstarfið og að fullur trúnaður og traust hefði verið milli manna í þessari vinnu.

Í samningi Sveitarfélagsins Álftaness og EFS undir árslok 2009 var ákvæði um að sveitarfélagið myndi leitast við að sameinast öðru sveitarfélagi. Hóf sveitarstjórn þegar undirbúning meðal annars með  skoðanakönnun, viðræður hófust milli fulltrúa Álftaness og Garðabæjar og ákveðið var að kjósa um sameiningartillögu. Gert var ráð fyrir að fjárhaldsstjórnin starfaði þar til niðurstaða væri fengin um sameiningu sveitarfélaganna.

Kosið var um sameininguna 20. október og var hún samþykkt í báðum sveitarfélögunum. Í Garðabæ voru 53,11% þeirra sem tóku afstöðu samþykk sameiningunni en 46,89% voru henni andvíg. Í Sveitarfélaginu Álftanesi sögðu 87,6% já við sameiningu en 11,5% sögðu nei. Alls verða íbúar hins sameinaða sveitarfélags um 14 þúsund. Bæjarstjórn Garðabæjar tekur um áramótin við stjórn nýja sveitarfélagsins og stýra því fram að sveitarstjórnarkosningum 2014. Bæjarstjórn Álftaness mun á þeim tíma gegna hlutverki ráðgefandi hverfisstjórnar.

Skuldir og skuldbindingar  Sveitarfélagsins Álftaness voru í árslok 2009 7.256 milljónir króna en eru nú áætlaðar í árslok 2012 eftir fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins 3.263 milljónir. Auk þessa hefur neikvæðri rekstrarafkomu sveitarfélagsins verið snúið í jákvæða og fellur sá rekstur vel að rekstri Garðabæjar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta