Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 25. mars 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 3/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Akureyrarbæjar


og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með kæru, dags. 7. janúar 2015, hefur B, f.h. A Akureyri, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Akureyrarbæjar um synjun á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Akureyrarbæ fyrir september og október 2014 með umsókn, dags. 24. september 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskyldudeildar, dags. 10. október 2014, með þeim rökum að umsóknin félli ekki undir reglur félagsmálaráðs Akureyrar um fjárhagsaðstoð. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til félagsmálaráðs Akureyrar með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, sem staðfesti hina fyrri ákvörðun á fundi sínum 27. nóvember 2014.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 12. janúar 2015. Með bréfi, dags. 13. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Akureyrarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Akureyrarbæjar barst með bréfi, dags. 23. janúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2015, var bréf Akureyrarbæjar sent lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi telur sveitarfélagið skylt að veita sér fjárhagsaðstoð þar sem hann sé með lögheimili í sveitarfélaginu og geti ekki séð fyrir sér sjálfur. Hann uppfylli því þau skilyrði sem sett séu fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar en í lögunum sé ekki að finna neinar undanþágur frá þeirri skyldu sveitarfélagsins. Kærandi geti ekki framfært sig sjálfur enda hafi hann þegið fjárhagsaðstoð um nokkurn tíma af þeim sökum. Það sé því skylda sveitarfélagsins skv. 1. gr. reglna félagsmálaráðs um fjárhagsaðstoð að tryggja að hann geti framfært sig.

Kærandi tekur fram að hann hafi þurft á fjárhagsaðstoð að halda í marga mánuði á árinu 2014 en það að hann hafi farið utan um tíma hafi ekki haft afgerandi áhrif á mögulegt tekjuhæfi hans. Það eitt að hann hafi farið úr landi um tíma geti ekki leitt til þess að hann eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð þegar fyrir liggi að hann hafi ekki getað framfært sig um þó nokkurt skeið. Það hafi heldur engin áhrif á getu hans til að framfæra sig hvort hann sé staddur hérlendis eða erlendis. Skylda sveitarfélagsins sé bundin við lögheimili hans í sveitarfélaginu en ekki staðbundna viðveru hans þar. Þá sé enga undanþágu að finna um að skylda sveitarfélaga til veitingu fjárhagsaðstoðar falli niður ef umsækjandi fari úr landi.

 

III. Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar er greint frá aðstæðum kæranda og að hann hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu í sex mánuði á árinu 2014. Í september 2014 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir september og október 2014 en þá hafi hann verið staddur erlendis frá því í byrjun ágúst 2014. Umsókn kæranda hafi verið synjað vegna langtímadvalar hans erlendis en fjölskyldudeildin hafi talið að dvölin kæmi í veg fyrir mögulega þátttöku í virkni- og/eða atvinnuúrræðum. Þá hafi verið talið ólíklegt að hann gæti sinnt fyrirtækjarekstri sínum hérlendis þannig að tekjur hlytust af. Möguleikar kæranda til að afla tekna hérlendis væru því ekki nýttir til fulls á þessu tímabili og sveitarfélagið væri ekki skylt að sjá honum fyrir framfærslu á meðan dvölinni erlendis stæði.

Akureyrarbær vísar til þess að það sé frumskylda hvers einstaklings að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn, sbr. 19. og 20. gr. laga nr. 40/1991 og 1. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Réttur til fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélagi fylgi lögheimili umsækjanda og komi til ef viðkomandi geti sannanlega ekki séð sér farborða. Samkvæmt reglum sveitarfélagsins verði umsækjandi að vera í virkri atvinnuleit og taka þátt í þeim virkni- og/eða atvinnuúrræðum sem standi til boða. Að mati sveitarfélagsins hafi kærandi ekki getað uppfyllt það skilyrði með dvöl sinni erlendis á sama tíma og hann fari fram á framfærslu. Þá tekur sveitarfélagið fram að kærandi hafi verið boðaður á námskeið hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands sem hann hafi ekki sótt vegna fjarveru frá landinu.  

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur félagsmálaráðs Akureyrarbæjar um fjárhagsaðstoð. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Akureyrarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir september og október 2014 þann 24. september 2014. Umsókn kæranda var synjað þann 9. október 2014 vegna langtímadvalar hans erlendis en þá hafði hann dvalið um tvo mánuði erlendis. Sveitarfélagið taldi að dvölin kæmi í veg fyrir mögulega þátttöku í virkni- og/eða atvinnuúrræðum en skv. 6. gr. reglna sveitarfélagsins er þeim sem sækir um fjárhagsaðstoð skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því. Í 10. gr. reglnanna kemur fram að heimilt sé að lækka fjárhagsaðstoð þann mánuð sem atvinnulaus umsækjandi hafni atvinnu eða þátttöku í atvinnu- eða virkniúrræðum og mánuðinn þar á eftir eða í tvo mánuði. Að öllu jöfnu skuli þá miða við neyðaraðstoð eða sem nemi 1/3 af framfærslugrunni. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi verið boðaður til vinnu eða hafi hafnað þátttöku í atvinnuúrræðum á þeim tíma sem umsókn var synjað. Þá verður ekki séð að kæranda hafi verið gert ljóst hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef hann væri ekki reiðubúinn til starfa á vinnumarkaði. Synjun sveitarfélagsins virðist þannig eingöngu vera byggð á því að kærandi hafi dvalið erlendis. Í 1. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að með íbúa sveitarfélags sé í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi. Það er meginregla samkvæmt lögum um lögheimili, nr. 21/1990, að skráð lögheimili sé sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem koma fram í 1. gr. laganna. Óumdeilt er að kærandi átti lögheimili í sveitarfélaginu þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð og var því ótvírætt íbúi sveitarfélagsins. Sveitarfélaginu var því óheimilt að synja umsókn kæranda á þeim grundvelli að dvalarstaður hans væri ekki hér á landi. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 27. nóvember 2014, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður 

Arnar Kristinsson 

Gunnar Eydal

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta