Hoppa yfir valmynd
15. október 2013 Matvælaráðuneytið

Víkur ehf útgerð. kærir ákvörðun Fiskistofu um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012.

Stjórnýslukæra.

Með bréfi, dags. 5. júní 2013 bar KPMG ehf. upp kæru f.h. Víkur ehf útgerð. vegna ákvörðunar Fiskistofu í bréfi dags. 11. apríl 2013 um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012. Þess er krafist að ákvarðað sérstakt veiðigjald verði lækkað um 3.156.180 kr. til viðbótar þeirri lækkun sem fallist var á 23. maí 2013 (og varðaði leiðréttingu á grundvelli nýrra upplýsinga).

Um meðferð kærunnar fer skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik og málsmeðferð.

Með bréfi dags. 11. apríl 2013 ákvað Fiskistofa að lækkun á sérstöku veiðigjaldi, hjá Vík ehf. útgerð, skv. ákvæði II. til bráðabirgða við lög nr. 74/2012 um veiðigjöld, skyldi nema 0.-kr. Í bréfinu eru færð svofelld rök fyrir þeirri ákvörðun:

Ástæða þess að ekki er heimilt að lækka sérstakt veiðigjald sem lagt var á Vík ehf. útgerð á viðkomandi fiskveiðiári er sú að í því framtali fyrir árið 2011 sem fengið hefur afgreiðslu hjá ríkisskattstjóra eru ekki tilgreindar neinar ófyrnanlegar eignir í reit 5010. Samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II við lög um veiðigjöld nr. 74/2012 getur lækkun aldrei verið meiri en sem svara 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali fyrir árið 2011.

Á þessum tíma var erindi Víkur ehf. útgerðar til Ríkisskattstjóra til meðferðar, en vegna mistaka voru upplýsingar um ófyrnanlegar eignir, í skattframtali félagsins, ekki skráðar í reit 5010 í skattframtali heldur reit 5027 „aðrir varanlegir rekstrarfjármunir.“ Í bréfi Fiskistofu dags. 11. apríl sl. er vakin athygli á því að verði það erindi tekið til greina kunni að vera ástæða til endurupptöku málsins.

Í bréfi Fiskistofu til Víkur ehf. útgerðar dags. 23. maí sl. var tilkynnt um endurupptöku málsins og félaginu ákveðinn lækkunarréttur á sérstöku veiðigjaldi fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 að fjárhæð kr. 1.185.029.-. Í bréfinu segir síðan:

Fjárhæð lækkunar er í samræmi við varakröfu í umsókn yðar. Ástæða þess að ekki er hægt að verða við aðalkröfu sem sett var fram í umsókn, um lækkun að fjárhæð kr. 4.341.209, er sú að fjárhæð lækkunar takmarkast við 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna er samkvæmt framtali sem fylgdi umsókn, kr. 29.625.722 og eru 4% af því kr. 1.185.029. Ekki verður fallist á að nota þau viðmið um ófyrnanlegar eignir sem farið er fram á að notuð verði í greinargerð með umsókn. Í því sambandi vísast til 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. við lög um veiðigjöld nr. 74/2012 og 2. tl. 2. gr. relugerðar n.r 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds.

 

Sjónarmið Víkur ehf. útgerðar.

Með umsókn Víkur ehf. útgerðar um lækkun sérstaks veiðigjalds fylgdi greinargerð dags. 23. mars 2013, þar sem færðar eru fram ástæður fyrir beiðni um lækkun sérstaks veiðigjalds. Þau sjónarmið sem þar eru sett fram speglast í stjórnsýslukæru félagsins dags. 5. júní 2013.

Í stjórnsýslukærunni er rakið að ákvörðun Fiskistofu um lækkunarrétt félagsins taki mið af því að hámark lækkunar sé 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali 2012 (tekjuárið 2011), eins og greinir í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða við lög um veiðigjöld nr. 74/2012. Fiskistofa hafi byggt á reit 5010 í skattframtali félagsins (leiðréttum), þar sem óefnislegar eignir séu tilfærðar sem 29.625.722 kr. Við þetta eru gerðar svofelldar athugasemdir.

Í b-lið 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða er tiltekið að miða skuli við ófyrnanlegar eignir samkvæmt skattframtali. Hugtakið ófyrnanleg eign er ekki skilgreind í lögunum, en vart orkar tvímælisað fyrst og fremst er átt við skattalegt verð aflahlutdeilda, sbr. eftirfarandi orð í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis, á þingskjali 1625: „Þau takmörk eru einnig sett að sú fjárhæð sem gengur til lækkunar á veiðigjöldum sé ekki meiri en 4% af ófyrnanlegum eignum, sem að mestu leyti eru keyptar veiðiheimildir og bókfærð viðskiptavild vegna yfirtöku á félögum.“ Orðnotkunin ófyrnanleg eign vísar tvímælalaust til eigna sem ekki er heimilt að fyrna í skattskilum. Reikningsskilareglur geta hins vegar heimilað eða beinlínis mælt fyrir um fyrningu slíkra eigna í reikningsskilum. Skattskil og reikningsskil þurfa því ekki að fara saman að þessu leyti.


Í 2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið ófyrnanlegar eignir skýrt með vísan til reits 5010 í skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04. Líta verður svo á að tilvísun í reit 5010 í skattframtali sé til leiðbeiningar um hvar finna megi upplýsingar um ófyrnanlegar eignir, en að lækkun takmarkist ekki við 4% fjárhæðar tilgreindrar í þeim reit skattframtals. Fjárhæð tilgreind í reit 5010 er breytileg eftir því hvaða reikningsskilaaðferð skattaðili beitir. Afskrifi skattaðili ekki keyptar aflahlutdeildir í reikningsskilum sínum nemur tilgreind fjárhæð stofnverði (kaupverði) aflahlutdeildanna. Ef skattaðili afskrifar aflahlutdeildir í reikningsskilum sínum nemur fjárhæð tilgreind í reit 5010 mismun stofnverðs aflahlutdeilda og uppsafnaðarar niðurfærslu í reikningsskilum. Aðeins er um að ræða afskrift í reikningshaldi en ekki í skattskilum, enda er afskrift aflahlutdeilda óheimil í skattskilum skv. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá afskrift sem árlega er færð í reikningsskilum, en ekki er heimilt að færa í skattskilum, ber að bakfæra í skattskilum með færslu í reit 4060 á skattframtali, en ekki með því að hækka fjárhæð í reit 5010. Vart þarf að orðlengja það að mismunandi reikningsskilaaðferðir í þessu sambandi geta ekki með réttu leitt til mismikillar lækkunar sérstaks veiðigjalds, enda hafa hinar mismunandi reikningsskilaaðferðir engin áhrif á myndun skattstofna. Því síður þarf að orðlengja það að framsetning ríkisskattstjóra á framtalseyðublaði getur ekki ráðið lækkun sérstaks veiðigjalds Í umræddu bráðabirgðaákvæði er beinlínis kveðið á um að miða skuli við ófyrnanlegar eignir samkvæmt skattframtali og því augljóslega átt við eignir sem ekki er heimilt að fyrna í skattskilum. Fyrning slíkra „ófyrnanlegra eigna“ í reikningsskilum getur því ekki haft áhrif á rétt til lækkunar sérstaks veiðigjalds.


Í kærunni er þessu næst rakið að kaupverð aflaheimilda Víkur ehf. útgerðar nemi 108.530.216 kr. Félagið reisi kröfu sína á að hámarks lækkun sérstaks veiðigjalds takmarkist við 4% þeirrar fjárhæðar, sem er 4.341.209 kr. Þá kemur fram að fyrning aflaheimilda félagsins í reikningsskilum, í lok árs 2011, nemi alls 78.904.494 kr. og nemi bókfært verð þeirra því 29.625.722 kr. Sú fjárhæð hafi verið færð í reit 5010 í leiðréttu skattframtali félagsins (eins og að framan er rakið).

Forsendur og niðurstaða.

Í b. lið 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög um veiðigjöld segir beinum orðum að lækkun sérstaks veiðigjalds, samkvæmt ákvæðinu, skuli „aldrei vera meiri en sem svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali fyrir sama ár.“ Er hér vísað til hinnar bókfærðu stærðar, þ.e. verðmætisins eins og það er tilgreint í ársreikningi félagsins og er flutt þaðan í reit 5010 í skattframtali, þar sem óefnislegar eignir koma fyrir, sbr. 2. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds. Tekur þetta af öll tvímæli um að miða skuli við þá fjárhæð sem er að finna í reit 5010 í skattframtali en ekki upphaflegt stofnverð keyptra aflaheimilda.

Að auki má benda á 1. mgr. 5. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, en þar segir að ársreikningur skuli „gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé.“ Hafi útgerðarfélag afskrifað í bókum sínum hluta kaupverðs aflaheimilda hefur það að sjálfsögðu verið gert í samræmi við reikningsskilareglur í því skyni að gefa gleggri mynd af efnahag félagsins. Það væri andstætt markmiði ákvæðis II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld að leiðrétta slíkar afskriftir við útleiðslu ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali, enda er markmiðið það að leiða fram efnahag hlutaðeigandi aðila eins og hann var við setningu laga um veiðigjöld.

Af þessum ástæðum er hin kærða ákvörðun staðfest með vísan til forsendna.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta