Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 9. apríl 2015 var tekið fyrir mál nr. 1/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Tryggingastofnunar ríkisins

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 14. janúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna (foreldragreiðslur), dags. 28. október 2014.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Kærandi eignaðist dóttur Y 2012. Hún var í fæðingarorlofi fram í ágústmánuð 2012. Að því loknu tók kærandi sér viðbótarorlof án launa fram í desembermánuð 2012, en fékk þá greitt út orlof og desemberuppbót. Hún hóf svo störf hjá atvinnurekanda sínum að nýju í janúar 2013.

 

Dóttir kæranda greindist með krabbamein 24. september 2013. Með umsókn, dags. 28. október 2014, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna veikindanna. Samþykkt var að greiða kæranda foreldragreiðslur fyrir tímabilið 1. nóvember 2014 til 31. desember 2014 og var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2014. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um útreikning greiðslnanna og voru þær veittar með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. desember 2014. Þar kemur fram að greiðslurnar séu miðaðar við tekjur kæranda á tólf mánaða tímabili sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greindist veikt. Þá kemur fram að á þeim hluta tímabilsins sem kærandi var í fæðingarorlofi sé tekið mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur Fæðingarorlofssjóðs miðuðu við.

 

Með bréfi, dags. 20. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að dóttir hennar hafi greinst með krabbamein 19 mánaða gömul og hún hafi því fengið samþykktar foreldragreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi er ósátt við tekjutímabilið sem notað sé við útreikning á greiðslunum þar sem hún hafi verið í fæðingarorlofi á skertum launum. Eftir fæðingarorlofið hafi hún tekið launalaust leyfi í rúmlega þrjá mánuði og svo orlof í einn mánuð. Kærandi hafi byrjað að vinna aftur í janúar 2013 og unnið fram í september 2013 en þá hafi hún farið í veikindaleyfi frá vinnu til 10. janúar 2014 og loks fengið greiðslur úr sjúkrasjóði VR eftir að hún hafi klárað veikindaréttinn. Greiðslurnar frá VR hafi verið reiknaðar út frá launum hennar í nóvember og desember 2013 en fæðingarorlofsgreiðslurnar hafi verið reiknaðar út frá fæðingarorlofi sem hún hafi verið í árið 2011 þar sem hún hafi átt börn með stuttu millibili.

 

Kærandi tekur fram að tekjur hennar frá júlí 2012 til júní 2013 endurspegli ekki raunverulegar tekjur og því óski hún eftir að tímabilið frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2013 verði lagt til grundvallar eða að þeir mánuðir sem hún hafi verið nánast launalaus verði ekki teknir með í útreikninginn.

 

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að samþykkt hafi verið að greiða kæranda foreldragreiðslur samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, vegna dóttur hennar. Í 1. mgr. 8. gr. laganna komi fram að foreldri geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. 11. gr. laganna í allt að þrjá mánuði að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 22/2006 segi að tekjutengdar greiðslur til foreldris skv. 1. og 3. mgr. 8. gr. sem sé launamaður skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en barnið hafi greinst með alvarlegan eða langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.

 

Barn kæranda hafi greinst með krabbamein þann 24. september 2013 og því beri Tryggingastofnun að miða við tekjutímabilið frá 1. júlí 2012 til 1. júlí 2013 við útreikning á greiðslum til kæranda. Samkvæmt staðgreiðsluskrá á þessu tímabili hafi tekjur kæranda verið 3.758.777 krónur en í júlí og ágúst 2012 hafi verið miðað við þær tekjur sem Fæðingarorlofssjóður hafi miðað við. Meðaltal þessara launa sé 313.231 króna á mánuði og 80% af því sé 250.585 krónur sem kærandi fái greitt á mánuði frá Tryggingastofnun.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, en kærandi er ósátt við tekjutímabilið sem foreldragreiðslurnar eru reiknaðar út frá.

 

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006 segir að foreldri sem leggi niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun geti átt sameiginlegan rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 11. gr. laga nr. 22/2006 er mælt fyrir um tilhögun greiðslna til foreldra á vinnumarkaði en þar segir í 1. mgr. að tekjutengdar greiðslur til foreldris skv. 1. og 3. mgr. 8. gr. sem er launamaður skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en barnið hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysis-tryggingasjóði, sjúkra- eða slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. a–d-lið 2. mgr. 9. gr. Þegar um sé að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns skuli þó taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi verið miðaðar við. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 9. gr. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

 

Með lögum nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, var gerð breyting á greiðslukerfi laganna. Í athugasemdum við ákvæði 8. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 158/2007 segir meðal annars um tilhögun greiðslna til foreldra á vinnumarkaði:

 

Lagðar eru til breytingar á 9. gr. laganna, sem verður 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir að mánaðarlegar greiðslur til foreldra sem þurfa að leggja niður störf til að annast börn sín að uppfylltum skilyrðum 8. gr. laganna miðist við ákveðið hlutfall fyrri tekna foreldra fyrir störf þeirra á innlendum vinnumarkaði. Þannig er miðað við að foreldri sem er launamaður eigi rétt á greiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna yfir viðmiðunartímabil sem tekur til tólf mánaða samfellds tímabils og lýkur tveimur mánuðum áður en barn greinist langveikt eða alvarlega fatlað. Hér er átt við almanaksmánuði. Skal ekki draga frá þann tíma sem foreldri hefur verið í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunaður sé að hluta eða öllu leyti eða önnur þau tilvik sem talin eru í a–d-liðum 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

 

Miðað við ofangreint er augljóst misræmi á milli textans í lagaákvæðinu, sem kveður á um „tólf mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en barnið greinist“ og texta greinargerðarinnar sem ræðir um að viðmiðunartímabilinu ljúki tveimur mánuðum áður en barn greinist. Nefndin telur hafið yfir vafa að um sé að ræða mistök við lagasetninguna og að ætlan löggjafans hafi verið að marka viðmiðunartímabilið þannig að því lyki tveimur mánuðum áður en barn greinist. Af sjálfu leiðir að viðmiðunartímabilið myndi ella falla að einhverju leyti saman við tímabil þegar foreldrið hefur engar tekjur og væri það jafnan mjög óhagstætt fyrir foreldri. Þá er augljóst að með því móti yrði ekki unnt að reikna út greiðslurnar fyrr en a.m.k. tíu mánuðum eftir að barn greinist, en það færi gegn tilgangi greiðslnanna sem er að gera foreldri kleift að taka sér leyfi frá launuðu starfi og nýta þær til framfærslu.

 

Málatilbúnaður kæranda fyrir Tryggingastofnun og kærunefndinni ber ekki með sér að þess sé krafist að miðað verði við tólf mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en barn greinist. Upplýsingar um tekjur hennar á því tímabili hafa heldur ekki verið lagðar fram. Allt að einu telur nefndin útilokað að staðfesta hina kærðu ákvörðun í því ljósi að kærandi telur viðmiðunartímabil tekna sinna í hinni kærðu ákvörðun rangt og umrætt tímabil er í ósamræmi við lagatextann. Verður ekki leyst réttilega úr málinu öðruvísi en þannig að Tryggingastofnun fái fram skýra afstöðu kæranda til þess hvort hún vilji reisa rétt sinn á texta lagaákvæðisins og afla þá upplýsinga um hvernig greiðslur hennar reiknast samkvæmt því.

Kærunefndin telur rétt að árétta að engin heimild er í lögum til þess að víkja frá því að miða greiðslur við tólf mánaða samfellt viðmiðunartímabil, til dæmis með því að undanskilja einstaka mánuði þar sem tekjur viðkomandi eru ekki taldar endurspegla tekjur almennt. Þá fær nefndin ekki séð að neitt í útreikningum Tryggingastofnunar sé rangt og virðist stofnunin hafa lagt viðmiðunarlaun í fæðingarorlofi réttilega til grundvallar útreikningum sínum. Niðurstaða máls þessa ræðst því eingöngu af þeim mistökum sem virðast hafa verið gerð við lagasetningu, en styðst ekki við þær málsástæður kæranda að beita megi matskenndum sjónarmiðum við að ákvarða viðmiðunartekjur.

 

Með vísan til alls ofangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. desember 2014, um mánaðarlegar foreldragreiðslur til A er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að fá fram afstöðu kæranda til þess að viðmiðunartímabil tekna verði ákvarðað sem tólf mánaða tímabil sem hefjist í júlí 2013 og að taka nýja ákvörðun að fenginni afstöðu kæranda til þess.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta