Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 27. ágúst 2015 var tekið fyrir mál nr. 7/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

B hdl. hefur f.h. A, með kæru, dags. 12. maí 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 12. febrúar 2015, um að undanskilja ekki þrjá mánuði á viðmiðunartímabili við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi hans.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur undanfarin ár starfað hjá X ehf. Ágreiningslaust er að á tímabilinu apríl til júní 2013 og svo aftur í janúar 2014 fór hann til C lands lands til að ljúka iðnnámi sem hann hafði stundað þar og starfaði hann því ekki í fyrirtækinu eða annars staðar á þeim tíma. Þá virðist ágreiningslaust að við ráðningu kæranda til X ehf. hafi legið fyrir að hann kæmi til með að fara erlendis til að stunda námið og gæti því ekki unnið fyrir fyrirtækið á þessum tímabilum. Ekki var gengið frá skriflegum ráðningarsamningi við kæranda en námið tengdist ekki störfum hans hjá fyrirtækinu.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 183 daga vegna barna hans sem fæddust þann Y. júlí 2014. Tilkynning barst frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs ásamt frekari gögnum, þar á meðal yfirlýsing X ehf. um að kærandi hafi verið í launalausu leyfi á tímabilinu 13. maí 2013 til 28. júní 2013 og 3. janúar 2014 til 7. febrúar 2014. Í framhaldinu óskaði Fæðingarorlofssjóður eftir frekari gögnum frá kæranda, meðal annars ráðningarsamningi vegna staðfestingar á launalausu leyfi. Kærandi sendi Fæðingarorlofssjóði frekari gögn og var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þau, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 22. ágúst 2014. Með tölvupósti 27. janúar 2015 óskaði kærandi eftir að Fæðingarorlofssjóður myndi undanskilja tímabilið apríl til júní 2013 við útreikning á meðaltali heildarlauna hans og lagði fram staðfestingu á námi í C landi á þeim tíma. Beiðni kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. febrúar 2015, með vísan til 8. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.).     

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 15. maí 2015. Með bréfi, dags. 19. maí 2015, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 12. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. júní 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar og bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi, dags. 29. júní 2015.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á þeim skilningi að í janúar 2014 hafi hann verið í launalausu leyfi frá störfum hjá X ehf. en ekkert liggi fyrir um slíkt leyfi í apríl, maí og júní 2013. Kærandi hafi verið tekjulaus á því tímabili þar sem hann hafi lagt stund á námið erlendis. Kærandi óskar eftir að tekið verði tillit til þessa við mat á því hvort heimilt sé að undanskilja mánuðina þrjá frá útreikningi á meðaltali heildartekna á tólf mánaða viðmiðunartímabilinu þar sem hann hafi í raun ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a ffl. Þá verði að hafa í huga að markmið ffl. sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra og lögunum sé ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Því markmiði verði ekki náð með skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum sem leiði til erfiðleika fyrir foreldra að ná endum saman meðan á orlofi standi. Það leiði hugsanlega til þess að foreldrar neyðist til að vinna aukalega að loknu orlofi til þess að vinna upp tekjuskerðinguna.

Kærandi bendir á að hafa verði í huga að hann hafi eignast tvíbura þann Y. júlí 2014 en í ffl. séu sérstök ákvæði um aukinn rétt foreldra vegna fjölburafæðinga. Sá réttur felist aðallega í þriggja mánaða rétti til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks til viðbótar við þann rétt sem foreldrar einbura njóti. Til þess að markmiði laganna verði náð þyrfti að taka tillit til aukins kostnaðar hjá fjölburafjölskyldu. Það sé fyrirséð að foreldrar neyðist til að vinna meira til þess að sjá fyrir tvíburum og njóti því um leið minni tíma með börnum sínum. Þannig verði það í það minnsta talið samræmast grunnmarkmiðum laganna að endurskoða hina kærðu ákvörðun.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Að mati Fæðingarorlofssjóðs hafi kærandi lagt fram nægileg gögn sem staðfestu að hann uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. og að hann hafi unnið hjá X ehf. sem starfsmaður skv. 2. mgr. 7. gr. laganna allt ávinnslutímabilið, þ.e. frá Y. janúar til Y. júlí 2014, þar af í ólaunuðu leyfi, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. tímabilið Y. janúar til 7. febrúar 2014, og af þeirri ástæðu ætti hann tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. sé fjallað um það viðmiðunartímabil sem líta skuli til þegar mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna skv. 2. mgr. 7. gr. laganna sé ákveðin. Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald o.s.frv.

Í 8. og 9. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 136/2011 komi fram að lagt sé til að í lögunum verði kveðið skýrar á um að allir þeir mánuðir sem foreldri teljist vera á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a laganna, verði taldir með við útreikninginn enda þótt foreldri hafi hvorki haft laun né staðið skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir alla þá mánuði. Er þá miðað við að hluteigandi foreldri hafi ekki haft tekjur þá mánuði en engu að síður skuli telja mánuðina með við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barna kæranda hafi verið þann Y. júlí 2014 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið janúar til desember 2013, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ársins 2013 hafi kærandi verið með laun hjá X ehf. í janúar til mars og júlí til desember auk þess að vera með lág laun í maí.

Samkvæmt staðfestingu framkvæmdastjóra X ehf., dags. 16. júní 2014, komi fram að kærandi hafi verið í ólaunuðu námsleyfi tímabilið 13. maí til 28. júní 2013, sem sé á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., og tímabilið 3. janúar til 7. febrúar 2014, sem sé að mestu á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. Ekki hafi verið annað ráðið en að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði bæði á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. og á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. en í launalausu leyfi ávinnslutímabilið Y. janúar til 7. febrúar 2014 og viðmiðunartímabilið apríl til júní 2013. Kærandi hafi því verið afgreiddur með 262.513 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 22. ágúst 2014.

Í kæru kæranda sé það áréttað að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli hans og X ehf. og því lýst yfir að þegar kærandi hafi verið ráðinn til fyrirtækisins hafi legið fyrir að hann myndi koma til með að fara til C lands til að leggja stund á nám sitt og gæti eðli málsins samkvæmt því ekki unnið fyrir X ehf. þegar hann væri úti. Að mati Fæðingarorlofssjóðs geri framangreind yfirlýsing ekkert annað en staðfesta að samkomulag hafi verið milli kæranda og X ehf. um að kærandi fengi leyfi til að stunda nám sitt. Það samræmist jafnframt öðrum gögnum málsins og staðfesti launalaust leyfi kæranda bæði á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. og viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að þrátt fyrir framangreint hafi verið ákveðið á kærustigi að gefa vinnuveitanda kæranda færi á að leggja fram gögn eða skýringar til stuðnings kæru kæranda. Í tölvupósti kæranda, dags. 4. júní 2015, komi meðal annars fram að ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur milli hans og X ehf. Kærandi hafi ekki verið skuldbundinn til að koma til X ehf. eftir námstímabil en dyrnar hafi staðið honum ávallt opnar og hann hafi verið velkominn til starfa ef hann óskaði þess. Honum hafi ekki verið sagt upp þegar hann hafi farið erlendis og ekki hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur við hann þegar hann hafi snúið til baka heldur hafi hann getað snúið aftur til fyrirtækisins og unnið á grundvelli sams konar munnlegs samnings og verið hafði á milli hans og X ehf. áður en hann hafi farið erlendis. Í tölvupóstsamskiptum við vinnuveitanda kæranda komi meðal annars fram að ekki hafi verið gengið frá formlegu uppsagnarbréfi og launauppgjöri þegar kærandi hafi hætt að vinna og farið til náms til C lands. Hann hafi fengið greidd laun þangað til hann hafi farið en svo fengið að koma aftur til starfa hjá X ehf. þegar ljóst væri að hann fengi ekki vinnu í C landi. Loks sé það áréttað að ekki liggi fyrir skriflegur ráðningarsamningur við kæranda.

Samkvæmt öllu framangreindu verði að telja að aldrei hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli kæranda og X ehf., hvorki fyrir né eftir námstímabilin. Kærandi hafi hins vegar starfað hjá X ehf. í 100% starfshlutfalli frá júní 2011 til dagsins í dag en þó með stuttum hléum vegna náms í C landi. Fyrir liggi að kærandi hafi ráðið sig til starfa hjá X ehf. með þeim skilyrðum að hann kæmist í launalaust leyfi til að ljúka námi. Ekki hafi orðið aðsetursbreytingar hjá kæranda samkvæmt Þjóðskrá Íslands á þeim námstímabilum sem um ræðir í apríl til júní 2013 eða janúar til febrúar 2014. Ekki hafi verið gengið frá formlegu uppsagnarbréfi eða launauppgjöri þegar kærandi hafi farið utan til náms í apríl 2013 sem hefði mögulega stutt það að kærandi hefði hætt störfum. Launaseðlar ársins 2013 styðji það ekki að kærandi hafi látið af störfum og launauppgjör hafi farið fram vegna tímabilanna apríl til júní 2013 og janúar til febrúar 2014. Hins vegar kemur fram á launaseðli fyrir september 2013 að meðal annars sé verið að greiða kæranda laun vegna aprílmánaðar og komi þau laun með til útreiknings skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. Fyrir liggi skrifleg staðfesting vinnuveitanda á launalausu leyfi tímabilin 13. maí til 28. júní 2013 og 3. janúar til 7. febrúar 2014. Það séu sömu gögn sem staðfesti launalaust leyfi kæranda á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. ffl., og veiti þar með kæranda rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, og staðfesti launalaust leyfi kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi því bæði verið í launalausu leyfi á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 13. gr. ffl., þ.e. tímabilið Y. janúar til 7. febrúar 2014, og á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., þ.e. tímabilið apríl til júní 2013, og að engin haldbær gögn styðji annað. Í samræmi við það sé enga heimild að finna til að undanskilja mánuðina apríl til júní 2013 við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda, sbr. 8. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 22. ágúst 2014, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda, sbr. einnig bréf til hans, dags. Y. febrúar 2015.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. Y. febrúar 2015, um að undanskilja ekki þrjá mánuði á viðmiðunartímabili við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi hans.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 2. mgr. 7. gr., felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði meðal annars í sér að starfa sem starfsmaður, þ.e. að vinna launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Börn kæranda fæddust þann Y. júlí 2014.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Mál þetta hverfist um eitt álitamál, þ.e. hvort líta beri eða megi á þann tíma sem kærandi var við nám í C landi vorið 2013 sem tíma sem hann var utan innlends vinnumarkaðar. Um þetta álitamál nýtur annars vegar við allítarlegra lagaákvæða og lögskýringargagna svo sem áður er rakið. Er skýrt í lögum að orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. Í samræmi við þetta er í lögunum sérstaklega áréttað í 2. mgr. 13. gr. að telja skal með þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, án tillits til þess hvort laun eða reiknað endurgjald hafi komið til á þeim mánuðum.

Hins vegar nýtur við gagna í málinu, sem kærandi hefur sjálfur lagt fram, og staðfesta að mati nefndarinnar að kærandi var í launalausu námsleyfi á tímabilinu 13. maí til 28. júní 2013. Vísast sérstaklega til yfirlýsingar X ehf. frá 16. júní 2014 og tölvupósts kæranda til Fæðingarorlofssjóðs frá 21. júlí 2014.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. maí 2015, um að undanskilja ekki þrjá mánuði á viðmiðunartímabili við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta