Hoppa yfir valmynd
21. september 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Bakvarðasveitin: Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á útkallslista

Bakvarðasveitin: Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á útkallslista - myndMynd: Landspítali / Þorkell

Heilbrigðisyfirvöld óska eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins í vor þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar. Þetta fyrirkomulag gaf góða raun og gerði heilbrigðisstofnunum kleift að manna í stöður með hraði þegar á þurfti að halda. Í ljósi þess hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu daga er bakvarðasveitin nú endurvakin og er hér með óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir.

Þann 10. mars sl. undirrituðu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, heilbrigðisráðherra, landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri yfirlýsingu um bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Fljótlega bættust fleiri félög heilbrigðisstétta í hópinn. Þær heilbrigðisstéttir sem eiga aðkomu að bakvarðasveitinni má sjá í skráningarformi hér að neðan.

ATH: Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar nær einungis til starfa hjá opinberum heilbrigðisstofnunum. Heilbrigðisstarfsfólki sem er einnig reiðubúið að starfa á hjúkrunarheimilum, við sérhæfðar dagdvalir eða við umönnunarstörf á sviði félagsþjónustu er bent á bakvarðasveit velferðarþjónustunnar hjá félagsmálaráðuneytinu.

Um skráningu í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu og jafnvel í fullt starf eða hlutastarf í allt að tvo mánuði ef hentar. Laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun. Skráningarformið er aðgengilegt á vef heilbrigðisráðuneytisins, www.hrn.is og einnig hér fyrir neðan ,,spurt og svarað um bakvarðasveitina".

Opinberar stofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu

Opinberar heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða sér liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar geta nálgast lista með upplýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátttöku hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stofnanirnar munu sjálfar hafa  beint samband við bakverði og verður ráðningarsambandið á milli viðkomandi stofnunar og þess/þeirra bakvarða sem ráða sig til starfa. Til að hægt sé að bæta stofnunum upp kostnaðinn sem hlýst af ráðningu bakvarða, skulu þær halda sérstaklega utan um þann kostnað sem hver ráðning hefur í för með sér. Stofnanir sem um ræðir eru eftirfarandi: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri.

Spurt og svarað um bakvarðasveitina

Eftir hverjum er óskað í bakvarðasveitina?

Heilbrigðisstarfsfólki úr hópi þeirra löggiltu heilbrigðisstétta sem taldar eru undir lið 6 í skráningarforminu hér að neðan.

Til hve langs tíma?

Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig tímabundið í allt að tvo mánuði, hvort sem um er að ræða fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu.

Hver eru launin?

Laun taka mið af kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun.

Hver eru réttindi þeirra sem ráða sig til starfa?

Orlofsréttindi verða greidd jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði kjarasamninga við ríkið.  

Hvar skráir fólk sig í  bakvarðasveitina?

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform í þessu skyni, vinsamlegast smellið á tengilinn.

Hvernig verður staðið að ráðningunni?

Þær heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða sér liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar geta nálgast lista með upplýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátttöku hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stofnanirnar munu sjálfar hafa beint samband við bakverði og verður ráðningarsambandið á milli viðkomandi stofnunar og þess/þeirra bakvarða sem ráða sig til starfa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta