Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi

Utanríkisráðuneytið undirbýr nú fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaðs Istanbúlsamnings. Stefnt er að því að félags- og jafnréttismálaráðherra afhendi fullgildingarskjal Íslands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins síðar í þessari viku.

Evrópuráðið samþykkti samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi 11. maí 2011 og undirrituðu íslensk stjórnvöld hann sama dag. Samningurinn byggist á þeirri forsendu að ofbeldi gegn konum sé ein alvarlegasta tegund kynbundinna mannréttindabrota í heiminum. Markmið hans er meðal annars að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og fyrirbyggja ofbeldi, sækja til saka gerendur og uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

,,Jafnréttismál hafa lengi verið í forgrunni utanríkisstefnu Íslands. Við nýtum hvert tækifæri til að tala fyrir jafnrétti kynjanna og leggjum mikla áherslu á að kynbundnu ofbeldi, í hverskonar mynd, verði útrýmt bæði heima og heiman. Fullgilding þessa samnings er mikilvægt skref í þeirri baráttu," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Frá því samningurinn var undirritaður hafa íslensk stjórnvöld unnið að nauðsynlegum breytingum á íslenskri refsilöggjöf til að hægt yrði að fullgilda hann, meðal annars með breytingum á lögum um meðferð sakamála sem dómsmálaráðherra lagði fram. Í þau hafa verið sett ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir. Þá hefur verið unnið að því að koma í farveg ýmsum skyldum og aðgerðum sem hvíla á ríkinu samkvæmt samningnum en krefjast ekki lagabreytinga, svo sem varðandi rekstur kvennaathvarfa, aðra þjónustu við þolendur og meðferð fyrir gerendur.

Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi er aðgengilegur á vef stjórnarráðsins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta