Þúsundir barna fögnuðu komu íslenska utanríkisráðherrans
Um tíu þúsund manns fögnuðu með söng og dansi komu utanríkisráðherra í fjölmennasta grunnskóla Mangochi héraðs í Malaví, um sjö þúsund nemendur ásamt kennurum, skólastjórnendum, foreldrum og öðrum gestum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti skólann á lokadegi vinnuheimsóknar sinnar til Malaví fyrir réttri viku.
Nemendur röðuðu sér meðfram veginum að skólanum á löngum kafla og höfðu útbúið skilti með ýmiss konar áletrunum eins og „Iceland a wonderful partner“ (Ísland er dásamlegur samstarfsaðili) og „Takupokelereani balendo bithu pano pa koche Model school“ (Hjartanlega velkomnir, gestir okkar, til fyrirmyndarskólans Koche).
Koche grunnskólinn er einn þeirra tólf skóla í Mangochi héraði sem nýtur góðs af stuðningi Íslands í menntamálum þar sem áhersla er lögð á að bæta gæði menntunar og aðbúnað skólanna með því að byggja nýjar skólastofur, bæta bókakost, koma upp salernisaðstöðu fyrir stúlkur og drengi, skiptistaðstöðu fyrir stúlkur á blæðingum, ásamt aðgengi að hreinu vatni og skólamáltíðum á hverjum morgni.
Við Koche skólann hafa auk þess verið byggð fjögur kennarahús, skólaþróunarmiðstöð og sérstök kennslustofa fyrir börn með sérþarfir. Aðgengi að vatni hefur einnig verið tryggt með fjórum vatnskrönum við skólann og kennarahúsin hafa verið tengd vatnsveitu héraðsins.
Meðal atriða á skemmtidagskrá á lóð skólans voru tónlistaratriði, tíu ára stúlka sagði frá stuðningi Íslands við skólann og tveir ungir strákar ræddu sín á milli um skólann og tíunduðu breytingarnar á skólanum eftir aðkomu Íslendinga.
Alls njóta rúmlega þrjátíu þúsund börn og unglingar góðs af stuðningi Íslands við uppbyggingu á tólf grunnskólum í Mangochi héraði. Auk endurbóta í skólunum sjálfum er lögð á hersla á samstarf við nærsamfélagið og foreldra með hvatningu um að börn sæki skóla og eins til þess að draga úr brottfalli. Stutt er við þjálfun og endurmenntun kennara og einnig er sérstakur stuðningur veittur yngsta aldursstiginu með byggingu tveggja leikskóla.