Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019

Afhending trúnaðarbréfs í Slóvakíu

Þórir Ibsen afhenti þann 13. febrúar sl. Andrej Kiska forseta Slóvakíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Slóvakíu, með aðsetur í Reykjavík. Við það tilefni ræddu þeir samskipti ríkjanna sem hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Heildarverðmæti viðskipta á milli landanna eru 7,5 milljarðar króna. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa verið með starfsemi eða í samstarfsverkefnum í Slóvakíu og er Marel þeirra stærst, en fyrirtækið starfrækir stóra verksmiðju í Nitra þar sem starfa um 300 manns. Þá hafa íslensk jarðhitafyrirtæki komið að verkefnum í Slóvakíu, en þar er umtalsverður lághiti. Loks eru um 140 Íslendingar við nám í læknaháskólanum í Martin og um tuttugu nemendur við nám í dýralæknaskólanum í Kosicke.

Slóvakía er eitt af samstarfsríkjum Uppbyggingarsjóðs EES og átti Þórir jafnframt fundi með aðilum sem hyggja á samstarfsverkefni með Íslendingum sem styrkt yrðu af sjóðnum. Þessi verkefni eru á sviði jarðhita, jafnréttismála, snjallborga og kennslu í slóvakísku fyrir Íslendinga sem hyggja á nám í læknisfræði og dýralækningum í Slóvakíu.

Loks sótti Þórir heim skrifstofu útflutningsráðs Slóvakíu (SARIO) og átti þar fund um slóvakíska-íslenska viðskiptaráðstefnu sem fyrirhuguð er í samvinnu við sendiráð Slóvakíu gagnvart Íslandi og Íslandsstofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta