Matvælaráðherra fundaði með formanni Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, fundaði fyrir hönd Íslands með Hoesung Lee, formanni Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27. Þingið var haldið í Sharm el Sheikh í Egyptalandi og því lauk í gær.
Sérfræðingar nefndarinnar tóku einnig þátt í fundinum, en nefndin tekur saman tiltækar vísinda-, tækni-, félags- og efnahagslegar upplýsingar varðandi þekkingu og rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nefndin vinnur reglulega skýrslur um þá vísindalegu þekkingu sem er til staðar um loftslagsbreytingar í heiminum, þær afleiðingar sem þær hafa í för með sér og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við breytingunum. Markmið nefndarinnar er að þessar skýrslur séu grundvöllur stefnumörkunar og aðgerða á sviði loftslagsmála og nýtist jafnt á Íslandi sem og á alþjóðavettvangi.
Á fundinum var m.a. rætt hvernig Ísland getur best stutt við starf nefndarinnar. Fyrir liggur að rannsóknir íslenskra vísindamanna tengdar loftslagsbreytingum styrkja starf nefndarinnar með aukinni þekkingu og íslenskir vísindamenn hafa einnig tekið beinan þátt í starfi nefndarinnar.
Á fundinum tók Svandís upp umræðu um mögulegar aðgerðir til kolefnisbindingar í hafi, hvernig gera megi grein fyrir slíkum aðgerðum í losunarbókhaldi ríkja og staða þekkingar í málaflokknum.
„Það er ljóst að Íslendingar eiga erindi inn á þennan mikilvæga vettvang sem milliríkjanefndin er,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Fyrir utan að geta styrkt stoðir starfseminnar margvíslega s.s. með þekkingu okkar vísindafólks hefur Ísland beina hagsmuni af því að taka þátt í starfsemi IPCC, vera vel upplýst um það sem þar fer fram og koma okkar sjónarmiðum á framfæri.“