Mál nr. 49/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 49/2020
Fimmtudaginn 7. maí 2020
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 26. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 18. nóvember 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. desember 2019, var óskað eftir skýringum kæranda vegna ótilkynntrar vinnu á tímabilinu mars til maí 2019 í samræmi við synjun stofnunarinnar frá 16. ágúst 2019. Skýringar kæranda bárust samdægurs í gegnum „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að þau gögn sem hafi verið óskað eftir 30. júní og 9. desember 2019 hefðu ekki enn borist. Umsóknin væri því ófullnægjandi og ekki ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, væri uppfyllt.
Kærandi lagði inn kæru, sem rituð var á ensku, hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. janúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. janúar 2020, var óskað eftir að kærandi legði inn kæru sína á íslensku. Beiðni nefndarinnar var ítrekuð með erindi 18. febrúar 2020. Samdægurs barst kæra á íslensku. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. apríl 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því í kæru að umsókn hans hafi verið synjað þar sem hann hafi ekki sýnt fram á tekjur frá mars til maí 2019. Á tímabilinu febrúar til júní 2019 hafi kærandi verið atvinnulaus og því ekki með neinar tekjur. Hann hafi fengið lánaða peninga til að lifa af, ekki haft neina vinnu og ekki átt rétt á bótum. Kærandi bendir á að hann hafi búið og starfað á Íslandi síðan í september 2015. Hann vinni hörðum höndum, borgi skatta og skilji ekki af hverju hann hafi verið sviptur lífsviðurværi sínu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 11. febrúar 2019. Við úrvinnslu umsóknar hans hafi stofnunin óskað eftir gögnum vegna ótilkynntrar dvalar erlendis í janúar 2017, en stofnunin hafi synjað umsókn hans um atvinnuleysisbætur 27. febrúar 2017 þar sem kærandi hafi ekki skilað nauðsynlegum gögnum vegna umsóknar sinnar. Umbeðin gögn hafi borist í kjölfarið og umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 27. mars 2019 með tveggja mánaða biðtíma, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafi afskráð sig sjálfur þann 31. maí 2019 vegna vinnu frá og með 1. júní 2019. Þann 29. maí 2019 hafi Vinnumálastofnun frestað greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda og óskað eftir skýringum hans vegna ótilkynntrar vinnu samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan hann hafi verið á skrá hjá stofnuninni. Erindi stofnunarinnar hafi verið ítrekað með bréfi 28. júní 201[9]. Þann 30. júní 2019 hafi kærandi skilað skýringum og gögnum vegna vinnu sinnar í júní 2019 eftir að hann hafði verið afskráður sem atvinnuleitandi hjá stofnuninni. Þann 16. ágúst 2019 hafi stofnunin stöðvað greiðslur til kæranda þar sem nauðsynleg gögn höfðu ekki borist vegna máls hans. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 18. nóvember 2019. Þann 9. desember 2019 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir skýringum kæranda vegna ótilkynntrar vinnu á tímabilinu mars til maí 2019 í samræmi við synjun stofnunarinnar 16. ágúst 2019. Skýringar hafi borist samdægurs þar sem hann hafi veitt skýringar á störfum sínum frá júní til desember 2019 og slysabótum sem hann hafi fengið greiddar á árinu. Skýringar eða svör vegna ótilkynntrar vinnu á tímabilinu mars til maí 2019 hafi ekki borist. Umsókn kæranda hafi því verið synjað þann 14. janúar 2020.
Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.
Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um upplýsingaskyldu og fjallað sé um tilkynningar vegna tilfallandi vinnu í 35. gr. a laganna. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“
Umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram koma í umsókn. Þá séu víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Þar komi skýrt fram að atvinnuleitanda beri að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína.
Mál þetta varðar ákvörðun stofnunarinnar frá 14. janúar 2020 um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem ekki sé ljóst hvort skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga séu uppfyllt eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, séu uppfyllt. Rökstuddar ábendingar hafi legið fyrir um að kærandi hefði sinnt störfum samhliða töku atvinnuleysisbóta á tímabilinu mars til maí 2019, án þess að upplýsa stofnunina um störf sín. Stofnuninni hafi ekki enn borist viðbrögð kæranda vegna þessa eða viðhlítandi skýringar.
Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Það hvíli rík skylda á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem sú skylda sé ítrekuð. Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.
Í ljósi alls ofangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli kærandi ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga fyrr en umbeðnar skýringar hafi borist stofnuninni. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að umsóknin væri ófullnægjandi. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að þar sem þau gögn sem óskað hafi verið eftir þann 9. desember og 30. júní 2019 hefðu ekki enn borist væri ekki ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, væri uppfyllt.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 11. febrúar 2019. Umsókn hans var samþykkt með ákvörðun, dags. 28. mars 2019, og var útreiknaður bótaréttur 100%. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. júní 2019, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann væri að vinna samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kærandi var upplýstur um að brot gegn tilkynningarskyldu samkvæmt 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 gæti valdið viðurlögum samkvæmt 59. eða 60. gr. laganna. Þá var kæranda veittur kostur á að skila skýringum og athugasemdum innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Svar barst frá kæranda 30. júní 2019. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. ágúst 2019, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar þar sem umbeðin gögn höfðu ekki enn borist. Í samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar er þann sama dag skráð að stofnuninni hefði borist bréf frá atvinnurekanda sem hafi verið grunnur að frestunarbréfi. Kærandi hafi neitað sök án frekari skýringa. Þá er vísað til þess að uppi sé rökstuddur grunur sem ekki hafi borist haldbærar skýringar á. Því bæri að stöðva greiðslur.
Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 18. nóvember 2019. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum kæranda vegna ótilkynntrar vinnu á tímabilinu mars til maí 2019 í samræmi við ákvörðun stofnunarinnar frá 16. ágúst 2019, sbr. bréf Vinnumálastofnunar, dags. 9. desember 2019. Skýringar kæranda bárust samdægurs þar sem fram kemur að hann hafi verið atvinnulaus á tímabilinu mars til maí 2019 og ekki með neina innkomu. Í kjölfarið var umsókn kæranda synjað með hinni kærðu ákvörðun. Vísað var til þess að umsókninni væri synjað á þeirri forsendu að hún væri ófullnægjandi þar sem tiltekin gögn, sem óskað hafi verið eftir, hefðu ekki enn borist. Úrskurðarnefndin fellst ekki á þá afstöðu Vinnumálastofnunar, enda ljóst samkvæmt yfirferð gagna málsins að kærandi brást við erindum stofnunarinnar og veitti tilteknar skýringar. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að stofnunin hafi rannsakað mál kæranda með viðhlítandi hætti þar sem ekki var kannað nánar hvort athugasemd atvinnurekandans ætti við rök að styðjast. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun beri að leggja mat á umsókn kæranda, dags. 18. nóvember 2019, á grundvelli framkominna skýringa kæranda og fullnægjandi rannsóknar á ábendingum atvinnurekanda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. janúar 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson