Metaðsókn á XI. Umhverfisþing sem fer fram á morgun
Um 400 manns eru skráðir á Umhverfisþing sem haldið er á morgun á Grand Hóteli og hafa aldrei jafn margir skráð sig á þingið. Þetta er í XI. sinn sem umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til Umhverfisþings. Að þessu sinni fjallar þingið annars vegar um nýja sýn og nýja nálgun í náttúruvernd og hins vegar um þjóðgarð á miðhálendinu og tækifærin fram undan.
Á þinginu verður meðal annars kynnt ný, viðamikil rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á efnahagsáhrifum friðlýstra svæða en rannsóknin er unnin að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir frá áhrifum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á samfélagið á Snæfellsnesi. Bóndi á Vesturlandi segir frá því hvernig landbúnaður og friðlýsingar geta haldist í hendur. Greint verður frá niðurstöðum rannsókna á viðhorfum almennings til þjóðgarðs á miðhálendinu sem og viðhorfum ferðamanna til miðhálendisins. Formaður nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs kynnir starf nefndarinnar og fulltrúar ungu kynslóðarinnar segja frá upplifun sinni af íslenskri náttúru.
Þrír erlendir gestir flytja erindi á þinginu: Nigel Dudley, ráðgjafi hjá International Union for Conservation of Nature mun fjalla um verndarflokka IUCN og mismunandi eðli friðlýsinga; Lizzie Watts, þjóðgarðsvörður hjá USA National Park Service fjallar um samstarf hins opinbera og einkaaðila á vernduðum svæðum og Chris Burkard, útivistarljósmyndari og TED-fyrirlesari með meiru segir frá upplifun sinni af miðhálendi Íslands.
Þinginu verður streymt í beinni útsendingu á vef Stjórnarráðsins.
Ítarlegri upplýsingar er að finna í dagskrá þingsins.