Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mikilvægt að slípa demantinn

Frá pallborðinu á ráðstefnunni í Hörpu. - myndSigurjón Ragnar

Áhugaverðar umræður sköpuðust um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar á samnefndri ráðstefnu sem haldin var af menningar- og viðskiptaráðuneytinu í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu.

Á ráðstefnunni sem fram fór í Hörpu á dögunum tóku til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Jane Stacey yfirmaður ferðamála hjá OECD, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF. Fundarstjóri var Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og þjónustusviðs Play.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá ráðstefnudeginum í Hörpu.

Hönnum okkar framtíð

„Það eru áskoranir sem bíða okkar atvinnugreinar en um leið mikil tækifæri,“ sagði Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins í erindi sínu þegar hann fór yfir ævintýrið í kringum Bláa lónið fram til þessa.

„Það sem við gerðum var að við breyttum affallsvatni frá orkuveri í slípaðan demant,“ sagði Grímur meðal annars.

Það sé dæmi um það hvernig megi þróa þá innviði í ferðaþjónustu með það fyrir augum að skapa verðmæti, án þess að ganga um of á náttúruna.“ Mikilvægt sé að slípa demantana í íslenskri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi.

Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins

Ferðaþjónustan nær vopnum á ný

„Það er mjög jákvætt að ferðaþjónustan skuli vera að ná vopnum sínum aftur,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í erindi sínu „ Gullnáma eða fátækragildra.“ Hann talaði meðal annars um snarpan viðsnúning í ferðaþjónustunni eftir heimsfaraldurinn.

„Það er mjög mikilvægt að hafa í huga hvernig Ísland var áður en ferðaþjónustan kom,“ sagði Ásgeir og nefndi nokkur dæmi um neikvæð áhrif ferðamennsku ef vöxturinn er of hraður eins og ruðningsáhrif fyrir aðrar atvinnugreinar, álag á innlenda innviði, ágangur á náttúru og einhæfni atvinnulífs.

Seðlabankastjóri endaði ávarp sitt á að tala um að vöxtur ferðaþjónustu megi ekki verða hraðari en innviðir landsins þola, því það geti leitt til bakslags eins og árið 2018.

„Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar verða að viðurkenna að það eru takmörk fyrir vexti hennar – ef greinin ætlar sér að starfa í sátt við bæði land og þjóð. Áherslan þarf að vera á gæði fremur en magn.“

Ferðaþjónustan geti skilað þjóðinni góðum ábata ef rétt er á haldið, enda sé hún mikilvæg stoð fyrir efnahagslífið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Seigla og sveigjanleiki

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hrósaði ferðaþjónustunni fyrir seiglu og sveigjanleika. Hún áréttaði mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt hagkerfi og fór í ávarpi sínu yfir hagtölur því til stuðnings. Sagðist hún stolt af fyrirtækjum í ferðaþjónustu fyrir það hvernig þau gátu komist í gegnum heimsfaraldurinn með stuðningi mótvægisaðgerða stjórnvalda.

Nýtt mælaborð um ferðaþjónustu

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF kynnti nýtt mælaborð, Ferðagögn sem unnið hefur verið að í átján mánuði. Í mælaborðinu er hægt að finna ýmis gögn um umsvif ferðaþjónustu í nærsamfélaginu. Þar á meðal eru gögn um atvinnutekjur, skatttekjur sveitafélaga, framboð og nýtingu gistirýmis og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja eftir landshlutum.

„Ef við horfum á hlutfall ferðaþjónustu af launþegum um land allt þá er það 14,3%,“ sagði Jóhannes meðal annars í erindi sínu um gögnin.

Jóhannes talaði um áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög um land allt.

„Ferðaþjónustan er orðin traust undirstaða og stoð um land allt í atvinnulífinu og í lífi almennt.“

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans stýrði pallborðsumræðum í lok ráðstefnunnar. Þar ræddi hún við Benedikt Gíslason bankastjóra Arion banka, Bjarnheiði Hallsdóttur formann SAF, Arnar Má Ólafsson ferðamálastjóra, Svanbjörn Thoroddsen sviðsstjóra ráðgjafarsviðs KPMG og Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta