Árangursstjórnunarsamningur við Rannsóknamiðstöð Íslands
Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur undirritað árangursstjórnunarsamning menntamálaráðuneytis við Rannsóknamiðstöð Íslands, RANNÍS. Hlutverk RANNÍS er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd stefnu Vísinda- og tækniráðs um vísindi, tækni og nýsköpun. Þannig er stofnunin mikilvægur samvinnuvettvangur allra þeirra aðila sem koma að málaflokknum.
Menntamálaráðuneytið hefur að undanförnu gert árangursstjórnunarsamninga við margar stofnanir sem undir það heyra og hefur þegar góða reynslu af þeim. Þeir auka skilvirkni í starfsemi stofnananna og tryggja að samskipti þeirra við ráðuneytið séu með reglubundnum hætti.
Tilgangur árangursstjórnunarsamninganna er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli ráðuneytis og viðkomandi stofnunar, auk þess að draga fram áherslur í stefnu og áætlunum hennar. Í samningunum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila vegna þeirra verkefna sem stofnuninni hafa verið falin. Þá eru í samningunum ákvæði er lúta að starfsmannastefnu, jafnréttismálum, aðgengi að stofnununum og upplýsingamálum. Samningarnir breyta ekki ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnananna eða þeim stjórnsýsluskyldum sem þeim eru ætlaðar lögum samkvæmt.