Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukin framlög í staðla og stöðlunarstarf

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skrifaði í gær undir þjónustusamning við Staðlaráð Íslands um áframhaldandi framlag ráðuneytisins til staðla og stöðlunarstarfs. Hlutverk Staðlaráðs er að vera samstarfsvettvangur þeirra sem áhuga hafa á staðlastarfi og eiga hagsmuna að gæta af gerð og notkun staðla hérlendis. Einnig er Staðlaráð aðili að alþjóðlegum staðlasamtökum.

Þjónustusamningurinn felur í sér að framlag ráðuneytisins til Staðlaráðs á næsta ári er 100 m.kr., sem er 43% hækkun frá 2022. Framlagið gerir Staðlaráði kleift að sinna með fullnægjandi hætti þeim lögbundnu verkefnum sem ráðinu er falið, bæði samkvæmt lögum nr. 36/2003 um staðla og Staðlaráð Íslands, og samkvæmt ýmsum sérlögum. Einnig kemur aukið framlag til móts við vaxandi hlutverk staðla og aukinna alþjóðlegra skuldbindinga á þessu sviði.

„Staðlar eru mikilvægir fyrir íslenskt atvinnulíf og brýnt að staðinn sé vörður um mikilvægi staðlastarfs í landinu og alþjóðlegra skuldbindinga okkar á því sviði. Í því skyni er ánægjulegt að okkur hefur tekist að auka verulega á milli ára framlag ríkisins til Staðlaráðs Íslands, þannig að við getum með myndarlegum hætti uppfyllt lögbundin verkefni og gert Staðlaráði kleift að eflast og takast á við vaxandi fjölbreytt verkefni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Meðal verkefna Staðlaráðs samkvæmt þjónustusamningnum eru að:

  • Vera samstarfsvettvangur fyrir hagsmunaaðila til að semja íslenska staðla.
  • Taka þátt í evrópskri og alþjóðlegri staðlasamvinnu, eins og gert er ráð fyrir í alþjóðasamningum, og fara með atkvæði Íslands á þeim vettvangi.
  • Veita stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi upplýsingar og þjónustu varðandi staðla og stöðlunarstarf.
  • Reka miðstöð stöðlunarstarfs fyrir íslenska hagsmunaaðila sem hafa áhuga á og hagsmuna að gæta af stölum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta