Kynning vindorkuskýrslu – á að stuðla að samtali þjóðarinnar
Taka þarf afstöðu til þess hvort vindorka eigi áfram að heyra undir lög um rammaáætlun, hvernig gjaldtöku af vindorkuverum verður háttað og hvort forgangsraða þurfi orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða og -skuldbindinga. Því er einnig velt upp hvort ástæða sé til að setja sérstök viðmið um staðsetningu vindorkuvera, fjölda þeirra og stærð. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni Vindorka – Valkostir og greining sem kynnt var á Hótel Nordica í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði síðastliðið sumar þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ. á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum. Fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að sérlög verði sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera.
Í framhaldi af bréfi starfshópsins til ráðherra, dags. 23. janúar 2023, var fallist á tillögu hans að fá rýmri tíma til að skila endanlegum tillögum sínum. Hins vegar lagði starfshópurinn til að greining starfshópsins yrði kynnt sérstaklega með opinberri umræðu og er það sú greining sem kynnt var í dag. Slíkri umræðu yrði gefið svigrúm til að þroskast og því yrði tillögum, t.d. í formi lagafrumvarps, skilað nokkru síðar.
Starfshópurinn var skipaður þeim Hilmari Gunnlaugssyni, sem var formaður hópsins, hópsins, Björtu Ólafsdóttur, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála og Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrrv. alþingismanni.
Víðtækt samráð við hagaðila
Víðtækt samráð var haft við hagaðila við gerð skýrslunnar og ákvað starfshópurinn í upphafi að opna sem mest fyrir umsagnir, enda ljóst að viðfangsefnið væri umdeilt, og bárust um 70 umsagnir. Þá hélt hópurinn um 50 fundi, auk þess sem yfir 100 gestakomur hafa verið hjá starfshópnum og reglulegt samráð viðhaft við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Í skýrslunni Vindorka – valkostir og greining er farið yfir núverandi umhverfi vindorku hérlendis og dregin saman ýmis álitaefni og settir fram valkostir um hvaða leiðir séu færar. Í skýrslunni er því m.a. velt upp hvort ekki sé þörf á heildarstefnumörkun stjórnvalda um virkjun vindorku. Taka þurfi ákvörðun um hvort vindorka heyri áfram undir lög um vernd og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) eða hvort hún eigi að standa utan þeirra. Segir starfshópurinn að taka þurfi afstöðu til fjölmargra álitaefna sem rakin eru í skýrslunni hvor leiðin sem verði fyrir valinu að þessu leyti.
Jafnframt er í skýrslunni greint hvaða leiðir eru í stöðunni varðandi gjaldtöku af vindorkuverum og fjallað er það hvernig tekjum er skipt á milli ríkis og sveitarfélaga.
Fram kemur að huga þurfi að skýrari reglum og viðmiðum varðandi áhrif á umhverfi og náttúru og hvort forgangsraða þurfi orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða og -skuldbindinga.
Verði unnið í sem breiðastri sátt
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Mikil áhersla er lögð á að horft sé til þess að ná sem breiðastri sátt um hagnýtingu vindorku meðal landsmanna, en ljóst er af opinberri umræðu að mikill áhugi er um þessi mál í samfélaginu og skoðanir skiptar. Skýrslunni, sem nú hefur litið dagsins ljós, er ætlað að stuðla að samtali á meðal þjóðarinnar um vindorku og til að sátt geti náðst er mikilvægt er að sem flestir taki þátt í samtalinu.“
Í kjölfar kynningarinnar 19. apríl mun ráðherra, ásamt starfshópnum, halda opna fundi víða um land þar sem fjallað verður um stöðuskýrsluna, sem og orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku.
Vindorka - Valkostir og greining
Samantekt á meginefni skýrslunnar