Hoppa yfir valmynd
7. september 2007 Dómsmálaráðuneytið

832 lögreglumenn starfandi í landinu - hefur fjölgað um 29 síðustu fimm ár

Starfandi lögreglumenn á Íslandi eru nú 832 talsins og hefur þeim fjölgað um 29 á síðustu fimm árum, samkvæmt upplýsingum sem embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið saman að ósk Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra.

Starfandi lögreglumenn á Íslandi eru nú 832 talsins og hefur þeim fjölgað um 29 á síðustu fimm árum, samkvæmt upplýsingum sem embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið saman að ósk Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra. Í samantektinni kemur einnig fram að af 39 lögreglumönnum sem látið hafa af störfum á árinu eru nítján sem hafa horfið til annarra starfa eða gefa ekki upp ástæður uppsagna, hinir hafa hætt sökum aldurs, náms eða veikinda. Hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að gera ítarlega athugun á ástæðum uppsagna í lögreglu undanfarin fimm ár.




Samantekt embættis ríkislögreglustjóra

Að ósk dóms- og kirkjumálaráðherra hefur embætti ríkislögreglustjóra tekið saman upplýsingar um fjölda starfandi lögreglumanna og lögreglumenn er hafa látið af störfum árið 2007. Samantekt þessi miðast við 1. september sl. og birtist hún hér fyrir neðan:

Fjöldi lögreglumanna
Alls eru starfandi 832 lögreglumenn, þar af eru 45 nemar, 38 afleysingamenn, 77 héraðslögreglumenn.
Árið 2006 var alls starfandi 821 lögreglumaður, þar af 36 nemar, 22 afleysingamenn, 75 héraðslögreglumenn. Árið 2005 voru alls starfandi 799 lögreglumenn, þar af 31 nemi, 14 afleysingamenn, 75 héraðslögreglumenn. Árið 2004 voru alls starfandi 790 lögreglumenn, þar af 39 nemar, 2 afleysingamenn, 80 héraðslögreglumenn. Árið 2003 voru alls starfandi 803 lögreglumenn, þar af 40 nemar, 19 afleysingamenn, 85 héraðslögreglumenn.

Fjöldi starfandi lögreglumanna (að frádregnum héraðslögreglumönnum og nemum)
Árið 2007 alls 710
Árið 2006 alls 710
Árið 2005 alls   693
Árið 2004 alls   671
Árið 2003 alls   678

Starfandi lögreglumönnum hefur því fjölgað á síðustu 5 árum.

Fjöldi lögreglumanna er látið hafa af störfum
Alls hafa 39 lögreglumenn látið af störfum það sem af er árinu. Þar af eru 24 lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, 4 frá lögreglunni á Suðurnesjum, 3 frá lögreglustjóranum á Vestfjörðum, 2 frá lögreglustjóranum á Akranesi, 1 frá embætti ríkislögreglustjóra, 1 frá lögreglustjóranumn á Blönduósi, 1 frá lögreglustjóranum á Hvolsvelli, 1 frá lögreglustjóranum á Selfossi, 1 frá lögreglustjóranum á Seyðisfirði og 1 frá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum.

Fjöldi þeirra er fengið hafa launalaus leyfi á árinu
Alls hafa 13 lögreglumenn fengið launalaus leyfi á árinu.  Þar af eru 11 frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, 1 frá ríkislögreglustjóra og 1 frá lögreglustjóranum á Sauðárkróki.

Starfsaldur þeirra er látið hafa af störfum
Af samtals 39 lögreglumönnum er látið hafa af störfum eru 9 með starfsaldur á bilinu 1-5 ár, 10 með starfsaldur á bilinu 6-10 ár, 3 með starfsaldur á bilinu 11-15 ár, 1 með starfsaldur 16-20 ár, 3 með starfsaldur á bilinu 21-25 ár og 13 með starfsaldur umfram 31 ár.

Ástæður þess að lögreglumenn láta af störfum
Af samtals 39 lögreglumönnum er látið hafa af störfum eru 11 sem hætt hafa þar sem þeir hafa náð lífeyrisaldri.  3 lögreglumenn hafa hætt vegna náms, 4 hafa aftur hafið störf í lögreglu, 2 hafa hætt vegna veikinda en 19 hafa horfið til annarra starfa eða ekki gefið upp ástæður uppsagna.

Ástæður uppsagna
Eins og fram hefur komið hafa lögreglumenn gefið upp betri launakjör á öðrum vettvangi sem meginástæðu uppsagna.  Þá skal tekið fram að í vissum tilvikum var lögreglumönnum sem áttu eftir skamman tíma í að ná lífeyrisaldri gefinn kostur á að láta af störfum um liðin áramót í ljósi þeirra breytinga er þá urðu á lögregluumdæmum.  Jafnframt hefur verið tekið fram í vissum tilvikum að breytingar á starfsvettvangi og skipulagi lögreglu hafi  reynst lögreglumönnum erfiðar. Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að gera ítarlega athugun á ástæðum uppsagna í lögreglu undanfarin 5 ár.

Fjölgun nema í Lögregluskóla ríkisins
Vegna aðgerða dóms- og kirkjumálaráðherra hefur nemendum við Lögregluskóla ríkisins verið fjölgað og eru þeir nú 82 talsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta