Að óbreyttu verður árið 2018 það mannskæðasta í Sýrlandi
Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í sjö ár og árásir á óbreytta borgara halda áfram að kosta börn lífið eða slasa þau alvarlega. Aldrei hafa fleiri börn látið lífið vegna stríðsins í Sýrlandi en á síðasta ári og á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2018 hafa eitt þúsund börn látið lífið eða særst alvarlega í sprengjuárásum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Að óbreyttu verður árið 2018 það mannskæðasta í sögu stríðsins.
Á vef UNICEF á Íslandi kemur fram að eftir sjö ára stríðsrekstur þurfi 5,3 milljónir barna neyðaraðstoð innan Sýrlands og 2,6 milljónir barna sem eru á flótta í nágrannaríkjunum. UNICEF vekur sérstaka athygli á stöðu barna sem eru fötluð vegna stríðsins. Sprengjum hefur verið varpað á skóla, sjúkrahús og íbúðarhverfi í Sýrlandi. Fjöldi barna hefur týnt lífi og enn fleiri særst og örkumlast. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 360 börn hafi særst alvarlega í sprengjuárásum á síðasta ári, og mörg þeirra misst útlimi. Ætla má að raunveruleg tala sé mun hærri.
“Þegar átök geisa eru fötluð börn þau allra viðkvæmustu,” segir Geert Cappelaere, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður Afríku. “Þau þurfa oft mjög sérhæfða meðferð og þjónustu. Sem börn hafa þau einnig aðrar þarfir en fullorðnir. Án aðgengis að þjónustu, skóla og hjálpartækjum eins og hjólastólum eru mörg fötluð börn í mikilli hættu á að einangrast, vera vanrækt og vera útskúfuð í samfélaginu á meðan átök halda fram að geisa.”
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, bendir á að fötluð börn séu í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi og eiga erfiðara með að fá aðgengi að grunnþjónustu, þar á meðal heilsuvernd og menntun.
“UNICEF einsetur sér að vernda öll börn, og sérstaklega þau allra viðkvæmustu. Börn sem hafa misst útlimi í sprengjuárásum á heimili sín og skóla þurfa aðstoð fagfólks við að vinna úr andlegum og líkamlegum áföllum og byggja upp líf sitt á ný. Endurteknar árásir á heilsugæslustöðvar og skóla hafa hindrað það að þessi börn fái þá aðstoð og þjónustu sem þau þurfa. Binda þarf enda á árásirnar og veita hjálparstofnunum óheft aðgengi að þeim börnum sem þurfa hjálp,” segir Bergsteinn.
UNICEF ákallar alla stríðandi aðila, áhrifavalda þeirra og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi. Enn fremur krefjast samtökin þess að hætt verði að þverþrjóta réttindi barna – „hættið að drepa þau, særa þau, fá þau til liðs við herflokka og hættið árásum á skóla og sjúkrahús. Aflétta verður öllum umsátrum um byggðarlög og veita þarf óheft aðgengi hjálparsamtaka að börnum í neyð, hvar sem þau eru í Sýrlandi,“ eins og segir í yfirlýsingu UNICEF.
Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 krónur) eða með því að styðja hér.
Sjö ár frá upptökum átaka í Sýrlandi/ UNICEF
Fleiri börn létust í Sýrlandi 2017 en nokkru sinni/ UNRIC