Fundað um framtíðarskipan húsnæðismála Menntaskólans í Reykjavík
Hópinn skipa Björn Jóhannesson formaður, Auður B. Árnadóttir, Rúnar Gunnarsson skipaður af Reykjavíkurborg, Elísabet Siemsen tilnefnd af Menntaskólanum í Reykjavík, Guðrún Ingvarsdóttir og Aðalsteinn Snævar Guðmundsson bæði tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Menntaskólinn í Reykjavík er sú menntastofnun hér á landi sem á hvað lengsta sögu, þó skólinn hafi ekki borið sama heiti alla tíð né verið á sama stað. Sögu skólans má rekja aftur til biskupsstólsins í Skálholti á elleftu öld. Skólinn flutti til Reykjavíkur árið 1786 og frá 1846 hefur hann starfað í húsnæði við Lækjargötu í Reykjavík sem á sínum tíma var stærsta hús landsins. Um þessar mundir stunda um 850 nemendur nám við skólann.
„Það hefur legið fyrir um hríð að huga þarf að framtíðarsýn húsnæðismála Menntaskólans í Reykjavík. Ýmsar hugmyndir hafa verið kynntar þar að lútandi en ekki náðst nægileg sátt um framkvæmd þeirra. Menntaskólinn í Reykjavík skipar ákveðinn sess í sögu okkar og hefur lagt mikið af mörkum til menntunar á Íslandi. Ég bind vonir við að vinna þessa starfshóps muni skila okkur áleiðis að því markmiði að tryggja betri húsnæðiskost skólans til framtíðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.