Hoppa yfir valmynd
2. október 2023 Forsætisráðuneytið

1151/2023. Úrskurður frá 31. ágúst 2023

Hinn 31. ágúst 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1151/2023 í máli ÚNU 23050006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. maí 2023, kærði A, fréttamaður Ríkisútvarpsins, synjun Sinfóníuhljómsveitar Íslands á beiðni um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 15. maí 2023, óskaði kærandi eftir að fá afhenta stefnu og greinargerð Sinfóníu­hljómsveitar Íslands í dómsmáli nr. E-5897/2022, með vísan til 3. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en samkvæmt lögum nr. 36/1982 væri Sinfóníuhljómsveitin sjálfstæð stofnun sem heyri undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu Ríkisútvarpsins væri umrætt réttarhald opið. Með svari, dags. 16. maí 2023, var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að um væru að ræða gögn í dómsmáli sem undanþegin væru upplýsingarétti, sbr. m.a. 3. og 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. upplýs­ingalaga, sbr. einnig 7. og 9. gr. laganna.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Sinfóníuhljómsveit Íslands með erindi, dags. 17. maí 2023, og veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, dags. 25. maí 2023, er vísað til þess að um viðkvæm gögn sé að ræða sem varði einstaklinga og séu liður í dómsmáli. Þau falli þannig utan upplýsingaréttar sam­kvæmt upplýsingalögum, nánar tiltekið 3. og 4. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. einnig 7. og 9. gr., svo og 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna enda mæli hagsmunir einstaklinga og Sinfóníuhljómsveitarinnar eindregið gegn afhendingu.

Umsögn Sinfóníuhljómsveitar Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. maí 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að stefnu og greinargerð Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tilteknu dómsmáli. Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. desember 2022. Ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um að synja beiðni kæranda byggir m.a. á því að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga. Í 9. gr. laganna er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einka­hagsmuna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. málslið greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörð­un tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undan­þiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upp­lýs­ing­arnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:

Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grund­vall­ar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undan­þágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis laga­­ákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að við­kvæm­ar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar að­gangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmála­skoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grun­aður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsu­hagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónu­upp­lýs­ing­ar samkvæmt per­sónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.

Í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga segir að ef ákvæði 6.-10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Með vísan til þessa ákvæðis hefur úrskurðarnefnd margsinnis kveðið á um að stjórnvöld skuli afhenda tiltekinn hluta umbeðins gagns eða lagt fyrir stjórnvöld að strika yfir ákveðnar upplýsingar og afhenda gagn þannig.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Úrskurðarnefndin telur engum vafa undirorpið að gögnin lúti að einkamálefnum þeirra einstaklinga sem um ræðir og að um sé að ræða einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Sinfóníuhljómsveit Íslands væri því, án samþykkis þessara sömu einstaklinga, óheimilt að afhenda gögnin um þá án þess að fella úr þeim atriði er varða einkamálefni þau sem lýst er að framan.

Það álitaefni sem liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðar því það hvort Sinfóníu­hljómsveit Íslands sé skylt að afhenda kæranda að hluta þau gögn sem beiðni hans lýtur að á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsinga, með því að fjarlægja áður upplýsingar sem falla undir 6.-10. gr. upplýsingalaga. Þegar litið er til efnis þeirrar stefnu og greinargerðar sem kæra þessa máls beinist að verður ekki um villst að þessi gögn innihalda að meginstefnu upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til þessa efnis gagnanna telur nefndin ljóst að það sé verulegum erfiðleikum bundið að skilja þær upplýsingar sem falla undir undantekningar frá þeim upplýsingum sem veita má aðgang að með tiltölulega einföldum hætti. Þá telur nefndin að ekki séu forsendur til að beita ákvæði 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga á þann veg að persónuauðkenni einstaklinga verði afmáð og gögnin afhent að öðru leyti. Hefur nefndin þá í huga að upplýsingar sem fram koma í gögnunum og eftir atvikum annars staðar geta gert mögulegt að tengja gögnin við tiltekna einstaklinga.

Sökum eðlis þeirra upplýs­inga sem fram koma í gögnunum er því ekki tilefni til að leggja fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands að veita aðgang að hluta þeirra, þ.e. með því að afmá upplýsingar um persónuleg auðkenni úr umræddum gögnum. Með vísan til framangreinds er synjun Sinfóníuhljóm­sveitar Íslands á beiðni kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands, dags. 16. maí 2023, um að synja kæranda um aðgang að stefnu og greinargerð Sinfóníu­hljómsveitar Íslands í dómsmáli nr. E-5897/2022 er staðfest.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, varaformaður
Elín Ósk Helgadóttir
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta