Fyrsti fundur samninganefndar Íslands
Samninganefnd Íslands vegna fyrirhugaðra aðildarviðræðna við Evrópusambandið hélt sinn fyrsta fund í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ávarpaði nefndina í upphafi fundar og vísaði til álits meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um verklag, áherslur og hagsmuni Íslands í fyrirhuguðum aðildarviðræðum. Á fundinum, sem Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands stýrði, voru stilltir saman strengir fyrir næstu mánuði. Meðal þeirra verkefna sem bíða samninganefndarinnar er að hefja undirbúning að mótun samningsmarkmiða Íslands í náinni samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.
Í samninganefndinni eiga sæti 18 nefndarmenn. Auk aðalsamningamanns, eru tveir varaformenn; þau Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands og Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri og sérfræðingur hjá Rannís.
Aðrir sem sæti eiga í nefndinni eru: Anna Jóhannsdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Gréta Gunnarsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins, Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Kolbeinn Árnason, lögfræðingur, fyrrverandi skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, Kolfinna Jóhannesdóttir, MA í hagvísindum, María Erla Marelsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í í fjármálaráðuneytinu, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og Þorsteinn Pálsson, lögfræðingur.
Tíu samningahópar munu starfa með samninganefndinni. Í þeim verða fulltrúar ráðuneyta og stofnana, ásamt fulltrúum hagsmunaaðila, félagasamtaka og háskólasamfélagsins. Þá munu innlendir og erlendir sérfræðingar starfa með samningahópunum, sem fjalla munu um lagaleg málefni, sjávarútvegsmál, utanríkis- og öryggismál, fjárhagsmálefni, myntbandalag, byggðamál og sveitastjórnarmál, dóms- og innanríkismál, landbúnaðarmál og EES I; vörur, orku, samkeppnismál ofl. og EES II: félagsmál, þjónustu, fjárfestingar, umhverfismál o.fl.
Gert er ráð fyrir að á næstu vikum eða mánuðum ljúki framkvæmdastjórn ESB gerð álits síns um aðildarumsókn Íslands og að á grundvelli þess taki aðildarríkin ákvörðun um að hefja formlegar aðildarviðræður.