Mál nr. 5/2017
Mál nr. 5/2017
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Hrím hönnunarhúsi
Launakjör.
Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að laun kæranda voru ákvörðuð lægri en laun karls sem gegndi jafnverðmætu starfi. Kærunefnd taldi að kærði hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeim mun sem var á launum kæranda og þess starfsmanns sem hún bar sig saman við. Því hefði kærði brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laganna.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 6. júlí 2017 er tekið fyrir mál nr. 5/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Með kæru, móttekinni 18. apríl 2017, kærði A ætlaðan kynbundinn mismun á launum milli hennar og annars starfsmanns hjá kærða sem er karlmaður. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 18. apríl 2017, og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri. Kærunefndin ítrekaði beiðni um að kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með bréfi, dagsettu 12. maí 2017. Kærða var síðan veittur viðbótarfrestur til að skila greinargerð til 31. maí 2017.
Greinargerð kærða barst með tölvupósti 26. maí 2017 og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. maí 2017.
Kærunefndinni barst bréf kæranda 13. júní 2017 með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag.
Athugasemdir kærða bárust nefndinni með tölvupósti 27. júní 2017 og voru sendar kæranda til kynningar með tölvupósti kærunefndar 28. júní 2017.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
Við meðferð málsins voru lögð fyrir kærunefnd jafnréttismála gögn sem varða laun tiltekinna starfsmanna kærða. Í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, tilkynnti kærunefndin umræddum einstaklingum bréflega að upplýsingar sem þá varða hefðu verið veittar nefndinni og að fyllsta trúnaðar yrði gætt við meðferð upplýsinganna.
MÁLAVEXTIR
Kærandi hóf störf hjá kærða í september 2016 og vann hlutastarf í verslunum hans. Í janúar 2017 taldi kærandi að komið hefði í ljós að hún hefði sætt beinni mismunun af hálfu kærða en hún hafi þá komist að því að karlmaður í sama starfi og kærandi fengi greidd hærri laun. Kærandi taldi ljóst að hún hefði ekki notið sömu launakjara fyrir sama starf og að kærði hefði brotið gegn 25. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einnig 24. gr. sömu laga.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
Í kæru kemur fram að í ráðningarviðtali með öðrum eiganda kærða og verslunarstjóra hafi kæranda verið greint frá því að laun væru greidd eftir taxta en forsvarsmenn kærða hefðu ekki á takteinum nákvæmar fjárhæðir í þeim efnum.
Á fyrstu vöktum kæranda í september hafi hún fengið greiddar 1.650 krónur fyrir dagvinnu og 2.350 krónur fyrir yfirvinnu. Eftir að kærandi hafi fengið fastar vaktir í október hafi dagvinnutaxtinn hækkað í 1.700 krónur og yfirvinnutaxtinn lækkað í 2.300 krónur. Fastar vaktir kæranda hafi verið um helgar og á þriðjudögum klukkan 16–19. Í byrjun nóvember 2016 hóf karlmaður störf í versluninni, sá sem kærandi ber sig saman við. Í desember hafi kærandi tekið að sér meiri vinnu vegna jólahátíðarinnar og unnið nánast daglega og þá ásamt þeim sem hún ber sig saman við. Að miklu leyti hafi þau verið á sömu vöktum.
Eftir mikla og erfiða vaktatörn í desember 2016 hafi kærandi fengið lága fjárhæð útborgaða að hennar mati. Í kjölfarið hafi kærandi farið að skoða betur launin. Kærandi og sá sem hún ber sig saman við hafi rætt um laun sín og í ljós komið að tímakaup þeirra hafi verið ólíkt. Sá sem kærandi ber sig saman við hafi fengið greiddar 2.000 krónur í dagvinnutaxta og 2.500 krónur í yfirvinnutaxta, þ.e. 300 krónum hærri dagvinnutaxta og 200 krónum hærri yfirvinnutaxta en kærandi.
Kærandi hafi unnið lengur hjá kærða en sá sem hún ber sig saman við, þau séu á sama aldri og hafi lokið sambærilegri menntun, þ.e. stúdentsprófi. Kærandi hafi einnig haft umtalsvert meiri reynslu af sölustörfum frá fyrri vinnustöðum, bæði hjá X og Y, en þessa reynslu hafi kærandi tekið fram í ráðningarviðtalinu. Á starfstíma sínum hafi kærandi aldrei skrifað undir ráðningarsamning.
Kærandi hafi í kjölfar þessa spurt verslunarstjórann hvort þau væru ekki í sama starfi og fengið þau svör að eini munurinn á störfum þeirra væri starfshlutfallið, en að öðru leyti hafi þau verið í sama starfi.
Í janúar hafi kærandi óskað eftir fundi með kærða til að ræða launamálin. Skömmu fyrir fundinn hafi kæranda verið boðin launahækkun sem þó hafi ekki numið þeim launum sem sá sem kærandi ber sig saman við hafi haft. Kæranda hafi ekki fundist þetta boð fullnægjandi og á fundinum hafi kærandi óskað eftir launahækkun til jafns við laun þess sem hún ber sig saman við. Þá hafi kærandi ekki fengið haldbærar skýringar á því hvers vegna sá sem hún ber sig saman við hafi verið með hærri laun en kærandi fyrir sama starf.
Kærði hafi greint kæranda frá því að engin lög væru til um laun í landinu og því ráði hann hvað hann greiði starfsmönnum í laun. Kærði hafi verið harður á því að hann myndi ekki bjóða kæranda hærri taxta en 1.850/2.500 krónur og jafnframt að hann myndi ekki greiða kæranda mismuninn á launum þeirra frá því að sá sem hún ber sig saman við byrjaði. Hins vegar hafi kærði viðurkennt mistökin sem hafi átt sér stað í annarri útborgun hjá kæranda þar sem dagvinnutaxtinn hafi hækkað um 50 krónur meðan helgartaxtinn hafi lækkað um 50 krónur. Kærði hafi sagst ætla að athuga þau mistök nánar.
Á fundinum hafi kærandi sagt starfi sínu lausu og spurt hvort hún fengi ekki að minnsta kosti síðustu útborgunina greidda á þeim hækkaða taxta sem henni hafi verið boðinn, þ.e. 1.850/2.500 krónur en hafi verið neitað um það. Eftir fundinn hafi sá sem kærandi ber sig saman við greint henni frá því að kærði hefði boðið honum launahækkun daginn fyrir fundinn, þar sem kærði hefði falið honum að sjá um að panta vörur fyrir verslunina.
Í ljósi framangreinds telur kærandi að kærði hafi brotið á rétti sínum til að njóta jafnra kjara á við þann sem hún ber sig saman við þegar þau hafi unnið hjá kærða í sama starfi, þ.e. frá september 2016 til janúar 2017. Slík mismunum sé óheimil samkvæmt 25. gr. laga nr. 10/2008, sbr. einnig 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Kærandi hafi sagt starfi sínu lausu þar sem hún láti ekki koma svona fram við sig. Engu að síður hafi kærandi heyrt frá öðrum starfsmönnum að launamisrétti hafi viðgengist hjá kærða um langa hríð. Þannig hafi fleiri starfsmenn sagt starfi sínu lausu vegan óréttlátra launakjara og mismununar.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
Kærði greinir frá því að Hrím hönnunarhús hafi verið stofnað árið 2010 í miðri kreppu af tveimur vinkonum. Síðan þá hafi önnur þeirra gegnt framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins og verið eini eigandi þess frá því um mitt ár 2012. Því miður hafi kynjahlutfallið ekki verið betra en svo að hjá kærða hafi nær einungis starfað konur frá því að það var stofnað. Undantekningin frá þessu sé ráðning bróður framkvæmdastjórans í starf verslunarstjóra árið 2014, en hann hafi haldið til náms og lokið meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum.
Seint á árinu 2016 hafi kærði fengið til liðs við sig þann sem kærandi ber sig saman við. Hann hafi verið ráðinn í fullt starf og staðið sig virkilega vel. Kynjahlutfallið hafi lagast þegar kærði hafi fengið bróður framkvæmdastjóra aftur til starfa sem rekstrarstjóra að námi loknu í febrúar og maki framkvæmdastjóra hafi látið af störfum sem verðbréfamiðlari nú um áramótin til að sinna betur fyrirtækinu. Það séu því þrír karlmenn að vinna hjá kærða og 16 konur.
Kærði kveðst aldrei hafa og myndi aldrei greiða starfsfólki sínu mishá laun eftir kyni. Kærði greiði hins vegar fólki mishá laun eftir því hvaða stöðu það gegnir og hversu mikil ábyrgð fylgi starfinu. Starfsmaður í hlutastarfi mæti á vaktir af og til, yfirleitt um helgar, komi í búðina og byrji að vinna. Starfsmaður í fullu starfi mæti á hverjum degi, sjái til þess að búðin sé hrein, telji vörur, athugi hvað vantar og pantar vörur í búðina. Starfsmaður í fullu starfi beri því ábyrgð á að búðin líti vel út, að engar vörur vanti í búðina og svo framvegis. Starfsmenn í fullu starfi svari fyrirspurnum frá viðskiptavinum á netinu, sjá um samskiptamiðlana Facebook, Snapchat og Instagram. Starfsmenn í fullu starfi sinni fyrirmælum frá yfirmönnum varðandi þessa hluti og ótal fleira ásamt því að skrifa niður verkefni fyrir helgarstarfsfólkið, þ.e. fólk í hlutastarfi.
Það sé því augljóst að þrátt fyrir að kærði eða einhver starfsmaður hjá kærða hafi nefnt það í óformlegu spjalli að starf kæranda og þess sem hún beri sig saman við sé hið sama sé það einfaldlega ekki þannig. Starf þeirra sé gjörólíkt og fasta starfinu fylgi miklu meiri ábyrgð. Allir fastir starfsmenn kærða hafi ákveðin verkefni sem þeir sinni samhliða öðrum störfum, þrátt fyrir að sá sem kærandi beri sig saman við hafi ekki verið byrjaður að sinna öllum þeim verkefnum strax í nóvember/desember, en hann hafi strax í janúar verið farinn að panta inn allar vörur frá innlendum birgjum fyrir allar búðirnar þrjár. Að sama skapi sjái kona sem hafi verið ráðin í janúar um netpantanir og beri ábyrgð á þeim.
Að lokum getur kærði þess að það sé erfitt að ráða gott fólk til starfa. Sérstaklega fólk í fast starf þar sem viðkomandi þurfi að hafa mikinn áhuga á hönnun og vera framúrskarandi í mannlegum samskiptum. Það sé annað mál að ráða inn helgarstarfsfólk, kærði hafi varla undan að svara umsóknum frá fólki sem vilji sinna vinnu samhliða námi.
Að mati kærða sé grundvallaratriðið engu að síður að starfsmaður í hlutastarfi sinni ekki sambærilegu starfi með viðlíka ábyrgð og starfsmaður í fullu starfi. Auk þess hafi kærði aldrei og muni aldrei greiða karlmanni hærri laun eingöngu af því að hann sé karlmaður, það sé andstætt öllu sem kærði trúi á.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
Í athugasemdum kæranda kveðst hún sammála því að aukinni ábyrgð fylgi hærri laun en hins vegar sé ekki samasemmerki milli starfshlutfalls og ábyrgðar hjá kærða.
Kærandi og sá sem hún ber sig saman við hafi verið ráðin í sama starfið og hafi fyrst um sinn verið að sinna nákvæmlega sama starfi þótt starfshlutfall hans hafi verið hærra. Kærði hafi sagt að starfsmenn í föstu starfi þurfi til dæmis að sinna samfélagsmiðlum en raunin sé sú að kærandi hafi einnig gert það, þ.e. auglýst vörur á Snapchat. Þannig hafi starf kæranda ekki verið frábrugðið starfi þess sem vann í hærra starfshlutfalli. Þrátt fyrir að þau hafi verið ráðin í sama starfið hafi byrjunarlaun kæranda verið mun lægri en byrjunarlaun þess sem hún ber sig saman við. Þau hafi unnið mikið saman og til dæmis unnið saman öll jólin 2016 og sinnt á þeim tíma nákvæmlega sama starfi.
Kærði hafi einnig talað um aukna ábyrgð þess sem kærandi ber sig saman við þar sem hann hafi séð um að panta vörur hjá innlendum birgjum en um leið og kærði hafi beðið hann um að sinna þessari auknu ábyrgð hafi honum verið boðin launahækkun. Kærandi sé augljóslega hlynnt þeirri ákvörðun, enda hafi hann fengið aukna ábyrgð og eigi þar af leiðandi skilið hærri laun.
Launaseðlarnir sem kærði hafi lagt fram hafi ekkert gildi í þessu máli þar sem þeir sýni ekki fram á að kærandi og aðrir starfsmenn hafi verið með sömu laun. Um sé að ræða launaseðla fólks sem hafi verið falin meiri ábyrgð í vinnu sinni og þar af leiðandi unnið sér inn launahækkun. Kærði hafi til dæmis nefnt konu sem sé með hærri laun en sá sem kærandi beri sig saman við en raunin sé sú að hún hafi unnið hjá kærða í langan tíma sem verslunarstjóri og kærandi kveðst vita að hún hafi mjög reglulega beðið um launahækkun. Áhugavert væri að vita til dæmis hver laun hennar hafi verið þegar hún hafi byrjað hjá kærða.
Hjá kærða vinni fleiri konur sem kærandi hafi talað við og séu óánægðar með launin. Þær hafi unnið í nokkur ár hjá kærða, oft fullt starf um sumar og með skóla og hafi því mikla reynslu. Þær séu samt með lægri laun en aðrir innan fyrirtækisins sem séu með sömu, ef ekki minni, reynslu og starf. Það hefði varpað betra ljósi á stöðu mála ef kærði hefði sent launaseðla þessara kvenna sem séu allar frábærir starfsmenn.
Að lokum tekur kærandi fram að hún viti til þess að sá sem hún beri sig saman við hafi tvisvar fengið launahækkun hjá kærða og ávallt í kjölfar þess að honum hafi verið falin aukin ábyrgð eða verkefni. Hann eigi það skilið en það breyti því ekki að þau tvö hafi átt skilið sömu byrjunarlaun þegar þau hafi hafið starf hjá sama fyrirtæki í sama starfi.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA
Kærði gerði athugsemdir við að margar staðreyndavillur hafi verið í athugasemdum kæranda sem auðvelt sé að hrekja. Sú fyrsta sé augljós, en ekkert samasemmerki sé milli starfshlutfalls og ábyrgðar.
Kærði bendir á að kærandi hafi verið ráðin sem helgarstarfsmaður í september 2016. Helgarstarfsmenn séu eðlilega með færri verkefni og minni ábyrgð á sínum herðum en fastir starfsmenn sem séu daglega í verslununum. Sá sem kærandi ber sig saman við hafi verið ráðinn inn sem fastur starfsmaður með fleiri verkefni og ábyrgð á sínum herðum í nóvember 2016. Það að setja inn nokkrar Snapchat færslur um helgar sé ekki sambærilegt við þá ábyrgð að halda versluninni hreinni, skipulagðri, panta inn vörur, taka á móti netpöntunum, sjá um sendingar til útlanda og svo mætti lengi telja. Þetta séu allt verkefni sem helgarstarfsfólk sinni ekki en allir starfsmenn í fullu starfi sinna.
Að lokum getur kærði þess að sú starfskona sem kærandi vísaði til hafi aldrei verið verslunarstjóri hjá kærða þrátt fyrir að það kæmi til greina síðar.
NIÐURSTAÐA
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
Kærandi og karlmaðurinn er hún ber sig saman við í launakjörum hófu bæði störf hjá kærða á árinu 2016, kærandi í septembermánuði og karlmaðurinn í nóvembermánuði. Ekki voru gerðir skriflegir ráðningarsamningar milli kærða og starfsmannanna. Þau störfuðu bæði í verslunum kærða en starfslýsingar liggja ekki fyrir. Ekki er annað komið fram um ráðningarskilmála en að í báðum tilfellum hafi verið um ótímabundna ráðningu að ræða. Þannig voru ráðningarsamningarnir ekki tímabundnir ráðningarsamningar í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Kærandi sagði starfi sínu lausu á fundi með fyrirsvarsmanni kærða þann 19. janúar 2017.
Kærandi og sá sem hún ber sig saman við í kjörum fengu bæði greitt tímakaup á því tímabili sem um ræðir sem er nóvember 2016 til starfsloka kæranda þann 19. janúar 2017. Óumdeilt er að kærandi og karlinn unnu bæði afgreiðslustörf í verslunum kærða og höfðu bæði í einhverjum mæli með höndum verkefni við auglýsingar á samfélagsmiðlum. Upplýsingar frá kærða eru ekki að öllu leyti samhljóða um það hvenær karlmanninum voru falin önnur störf en afgreiðsla, svo sem vörupantanir, en miða verður við að breyting hafi orðið á starfsskyldum hans um það leyti er fundur kæranda með fyrirsvarsmanni kærða var haldinn þann 19. janúar 2017 og að frá þeim tíma hafi hann séð um að panta inn vörur frá innlendum birgjum fyrir verslanir kærða svo sem fram kemur í greinargerð kærða frá 26. maí 2017. Þar sem engin gögn eru fyrirliggjandi sem benda til hins gagnstæða, svo sem starfslýsingar eða vinnuskýrslur, verður að leggja til grundvallar að fram til þessa tíma hafi starf það er kærandi gegndi verið jafnverðmætt starfi karlmannsins.
Í málinu liggja fyrir launaseðlar beggja starfsmannanna. Af þeim verður ráðið að tímakaup kæranda í september 2016 var 1.650 krónur í dagvinnu og 2.350 krónur í eftirvinnu og að dagvinnukaupið hækkaði í nóvember 2016 í 1.700 krónur en eftirvinnukaupið lækkaði í 2.300 krónur. Tímakaup karlsins á tímabilinu nóvember 2016 til janúar 2017 var 2.000 krónur fyrir dagvinnu og 2.500 krónur fyrir eftirvinnu.
Kærði hefur skýrt launamuninn með því að kærandi hafi gegnt hlutastarfi hjá kærða en karlinn hafi gegnt fullu starfi. Eins og fyrr segir fengu kærandi og karlinn bæði greitt tímakaup á tímabilinu frá nóvember 2016 og fram til 19. janúar 2017. Þau unnu hvorugt fullt starf í upphafi en engu hefði breytt þó karlmaðurinn hefði gegnt fullu starfi þar sem óheimilt er að mismuna aðilum í kjörum á grundvelli starfshlutfalls, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2004, um starfmenn í hlutastörfum.
Með vísan til þess er að framan greinir hafa verið leiddar líkur að því að kærandi og karlinn hafi ekki fengið greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf og hefur kærði ekki sýnt fram á að launamunurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008. Kærði hefur þannig brotið gegn banni 1. mgr. 25. gr. sömu laga, sem kveður á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði braut gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, á tímabilinu nóvember 2016 til 19. janúar 2017.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir