Hoppa yfir valmynd
3. september 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Úrskurðir fjármála- og efnahagsráðuneytisinis

Ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna beiðni hans um endurgreiðslu

Málsnr.: FJR20080017

Hinn 31. júlí 2020 kærði Y, f.h. X ehf. ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna beiðni hans um endurgreiðslu frá 13. maí 2020. Málavextir eru þeir að hinn 11. maí 2020 var framkvæmd gírógreiðsla af heimabanka X ehf. vegna skattkröfu annars manns, Z. Greiðslan var að fjárhæð kr. 79.235 og að því er fram kemur frá Skattinum var henni ráðstafað inn á AB 2019 11 og 12.
Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi borgað skuldina fyrir mistök þar sem Z sé fyrrverandi tengdasonur hans og ekki hafi verið búið að taka allt úr greiðsluþjónustu kæranda sem z snerti. Kærandi fer fram á að greiðslan verði endurgreidd þar sem skuldir Z séu félaginu óviðkomandi.
Í svari Skattsins til kæranda, frá 2. júlí 2020, kemur fram að þar sem ríkissjóður sé bundinn af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar hvað varði álagningu og innheimtu skatta þurfi sérstakar heimildir að vera fyrir hendi í lögum til að veita einstaka aðilum ívilnanir á borð við endurgreiðslu greiðslna, sem greiddar hafi verið vegna réttilegra álagðra skatta og mótteknar af embættinu í góðri trú um að þær séu endanlegar og ráðstafaðar með venjubundnum hætti. Erindi kæranda var því hafnað á þeim grunni að engar slíkar lagaheimildir væru fyrir hendi sem við ættu um málið.
Að mati ráðuneytisins var framangreind niðurstaða ríkisskattstjóra byggð á réttum grunni, þ.e. að til þess að til endurgreiðslu geti komið þyrfti lagaheimild að vera fyrir hendi.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, skulu stjórnvöld sem innheimta skatta, gjöld eða sektir endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum. Þar sem í tilfelli þessu er um að ræða greiðslu þriðja aðila fyrir eigin mistök á rétt álögðum sköttum annars manns er ekki unnt að byggja endurgreiðslu á framangreindu lagaákvæði.

Niðurstaða ráðuneytisins:
Ákvörðun ríkisskattstjóra í málinu er staðfest.

Ráðuneytið bendir á að unnt er að leita til umboðsmanns Alþingis vegna úrlausna stjórnvalda, þ.á m. í tengslum við ætlaða meinbugi á lögum. Frestur til að bera mál upp við embættið er eitt ár frá dagsetningu úrskurður ráðuneytisins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta