Allt í hers höndum í Súdan og hjálparstarf liggur niðri
Allt starf alþjóðlegra mannúðarsamtaka liggur meira og minna niðri í Súdan meðan blóðugir bardagar geisa í höfuðborginni Kartúm og víðar milli stjórnarhersins og RSF sveita uppreisnarmanna. Erfitt reynist að finna leiðir til þess að halda áfram mannúðarstarfi og tryggja á sama tíma öryggi starfsfólks. Á upphafsdegi átakanna, laugardaginn 15. apríl, voru þrír starfsmenn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, myrtir og aðrir tveir starfsmenn særðir. Tilraunir til að koma á vopnahléi hafa ítrekað fari út um þúfur.
Áður en til átakanna kom voru um það bili sextán milljónir íbúa Súdan háðir matvæla- og mannúðaraðstoð, eða þriðjungur þjóðarinnar, sem telur um 46 milljónir. Innan landsins voru að minnsta kosti fjórar milljónir flóttamanna eða fólks á vergangi. Þessum fjölmenna og viðkvæma hópi sinntu um eitt hundrað alþjóðleg og innlend samtökum af mismunandi stærðum og gerðum, í landi þar sem innviðir eru óburðugir og aðstæður víða erfiðar. Allt starf liggur nú tímabundið niðri meðan byssukjaftarnir hafa orðið.
Í höfuðborginni Kartúm er þegar farið að gæta vöruskorts á eldsneyti, mat, lyfjum og ýmsu öðru. Stöðugar truflanir eru á rafmagns- og netsambandi með tilheyrandi erfiðleikum í samskiptum. Margar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús hafa orðið fyrir sprengjuárásum og starfsemi því sjálfhætt. Aðrar heilbrigðisstofnanir hafa fyllst af særðu fólki og takmarkað hvað hjúkrunarfólk getur gert í þessum aðstæðum.
Tölur um fallna hækka dag frá degi, á fimmta hundrað hið minnsta hafa týnt lífi, og mörg þúsund særst. Nýjustu tölur segja að 459 fallna og rúmlega fjögur þúsund sára. Tugþúsundir hafa flúið til grannríkja, Egyptalands, Tjad og Suður-Súdan, og erlendum ríkisborgurum og sendiráðsstarfsfólki er flogið með herflugvélum frá landinu eftir því sem unnt er. Í dag freista til dæmis bresk stjórnvöld þess að koma breskum ríkisborgurum brott frá Súdan með herþyrlum.
Leiðtogar hersveitanna tveggja sem berjast í Súdan eru Abdel Fattah Burhan hershöfðingi og yfirmaður hersins, og Mohammed Hamdan Dagalo, hershöfðingi vopnaðrar uppreisnarsveitar sem kallast Rapid Support Forces (RSF). Hershöfðingjarnir tveir komust til valda eftir að mótmæli lýðræðissinna leiddu til þess að Omar al-Bashir, sem lengi hélt um stjórnartauma, var vikið frá völdum árið 2019. Árið 2021 sameinuðust herforingjarnir tveir um völdin en ágreiningur um aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum leiddi til þess að upp úr sauð milli fyrrverandi samherja – með afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á.