Aukið fjármagn vegna uppbyggingar hagkvæms leiguhúsnæðis
Ríkisstjórnin samþykkti fyrir skömmu tillögu félags- og húsnæðismálaráðherra um að tryggja aukið fjármagn í fjáraukalögum þessa árs ef þörf krefur til að mæta mikilli eftirspurn eftir stofnframlögum vegna uppbyggingar eða kaupa á hagkvæmu leiguhúsnæði. Umsóknir liggja fyrir um stofnframlög til að koma á fót um 570 hagkvæmum leiguíbúðum víða um land.
Frestur til að sækja um stofnframlög til Íbúðalánasjóðs vegna uppbyggingar á hagkvæmu leiguhúsnæði rann út 15. október síðastliðinn. Umsækjendur voru fjórtán og sóttu þeir um tæplega 3,8 milljarða króna í stofnframlög til að byggja eða kaupa 571 hagkvæma íbúð, svonefnd leiguheimili. Íbúðalánasjóður mun að þessu sinni úthluta allt að 1,5 milljörðum króna í stofnframlög en jafnframt er gert ráð fyrir viðbótarúthlutun til þess að ná markmiðum stjórnvalda um fjármögnun leiguíbúða á þessu ári.
Stefnt er að uppbyggingu 2.300 hagkvæmra leiguíbúða á árunum 2016–2019, þar af um 5-600 íbúðir á þessu ári. Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir um 1.500 m.kr. til uppbyggingar leiguíbúða með stofnframlagi frá Íbúðalánasjóði. Í ljósi mikillar eftirspurnar eftir stofnframlögum og þar sem íbúðaverð hefur hækkað nokkuð frá því sem gengið var út frá við afgreiðslu fjárlaga lagði félags- og húsnæðismálaráðherra til við ríkisstjórnina að tryggja aukin framlög á fjáraukalögum þessa árs ef þess gerist þörf til að ná settum markmiðum og var það samþykkt.
Stofnframlög eru veitt á grundvelli nýrra laga um almennar íbúðir sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum. Markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þess þurfa með, svo sem fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði vegna félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.
Stofnframlög eru aðeins veitt aðilum sem uppfylla tiltekin skilyrði, svo sem húsnæðissjálfseignarstofnunum, sveitarfélögum eða lögaðilum í eigu sveitarfélaga sem reka eða hyggjast reka leiguhúsnæði án hagnaðarsjónarmiða.
Íbúðalánasjóður mun annast úthlutun stofnframlaga til þeirra aðila sem um þau hafa sótt. Leggja þarf mat á hvort umsækjendur uppfylla skilyrði laga en einnig er það ein meginforsenda úthlutunar að stuðningurinn leysi úr brýnni þörf fyrir hagkvæmu leighúsnæði á því svæði sem uppbygging er áformuð samkvæmt mati Íbúðalánasjóðs.