Afnám stjórnsýsluhindrana til umræðu á sumarfundi samstarfsráðherra Norðurlanda í Malmö
Sumarfundur samstarfsráðherra Norðurlanda fór fram í Malmö í Svíþjóð í dag og í gær undir stjórn Svíþjóðar sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Áhersla fundarins var afnám stjórnsýsluhindrana. Svíþjóð hefur í formennsku sinni lagt áherslu á að stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum verði leystar til að auka hreyfanleika íbúa og fyrirtækja.
Ráðherrarnir ræddu meðal annars nýlega úttekt á stjórnsýsluhindranastarfinu milli landanna og mikilvægi þess að efla það svo ná megi framtíðarmarkmiði norræns samstarfs um að Norðurlöndin verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Þá var rætt um áherslur nýrrar samstarfsáætlunar sem taka mun gildi árið 2025 og hvernig Norðurlönd geta haldið norrænum gildum sem best á lofti á alþjóðavettvangi.
70 ára sameiginlegur norrænn vinnumarkaður
Fyrir fundinn sóttu samstarfsráðherrarnir hátíðarráðstefnu í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því að formlega var stofnað til sameiginlegs norræns vinnumarkaðar. Þar var meðal annars farið yfir það með hvaða hætti samnorrænn vinnumarkaður hefur verið drifkraftur framfara norræns velferðarkerfis og hve mikla þýðingu það hefur haft fyrir hreyfanleika fólks milli landa.
Við tímamótin var sjónum einnig beint að því sem betur mætti fara og þar bar hæst að draga úr þeim hindrunum í stjórnsýslunni sem varða réttindi fólks. Í því samhengi var mikil áhersla lögð á að landamærasvæði á Norðurlöndunum þyrftu að vinna meira saman í upplýsingagjöf auk þess að einbeita sér að niðurfellingu stjórnsýsluhindrana, líkt og nýlega var gert á Eyrarsundssvæðinu milli Svíþjóðar og Danmerkur.
Aukin fjarvinna yfir landamæri
Þá áttu ráðherrarnir fund með Norræna stjórnsýsluhindranaráðinu, sjálfstæðu ráði sem skipað er einum fulltrúa frá hverju Norðurlandanna, fulltrúa Norðurlandaráðs og framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.
Ofarlega á baugi á þeim fundi var nýleg skattaskýrsla sem stjórnsýsluhindranaráðið hafði forgöngu um að gera á síðasta ári, en í henni eru m.a. tillögur um hvernig einfalda megi skattareglur milli landanna meðal annars í ljósi aukinnar fjarvinnu fólks yfir norræn landamæri. Einnig var rætt um ósk ráðsins um að löndin hlutist til um að auka sjálfvirkni í upplýsingaskiptum milli þjóðskráa landanna. Þá fengu ráðherrarnir kynningu á mikilvægi þess að afnema stjórnsýsluhindranir hvað varðar stafræna þjónustu yfir landamæri.
Einnig heimsóttu samstarfsráðherrarnir Eyrarsundsbrúna og kynntu sér tilurð og sögu hennar, en brúin hefur aukið mjög samþættingu á Eyrarsundssvæðinu.
Efri röð frá vinstri: Anne Beathe Tvinnereim, samstarfsráðherra Noregs, Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, deildarstjóri Norðurlandadeildar utanríkisráðuneytis og fulltrúi Íslands á fundinum í forföllum Guðmundar Inga Guðbrandssonar, samstarfsráðherra Íslands, Bjarni Kárason Petersen, samstarfsráðherra Færeyja, og Annika Hambrudd, samstarfsráðherra Álandseyja. Neðri röð frá vinstri: Morten Dahlin, samstarfsráðherra Danmerkur, Anna-Maja Henriksson, samstarfsráðherra Finnlands, Jessika Roswall, samstarfsráðherra Svíþjóðar og gestgjafi fundarins, og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Svíþjóðar
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Svíþjóð fer með formennsku í nefndinni árið 2024 og leiðir samstarfið undir yfirskriftinni „Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd“.Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.