Staðlar um áhrif þungra ökutækja til umsagnar
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti þann 20. nóvember síðastliðinn áhrifamat á tillögu sinni um staðla um losun koltvíoxíðs frá þungum ökutækjum. Hægt er að koma að athugasemdum og sjónarmiðum til 18. desember 2017.
Þann 31. maí 2017 samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu um hvernig ætti að fylgjast með og gefa skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá þungum ökutækjum (heavy duty vehicles). Tillagan var hluti af átaki Evrópusambandsins Europe on the Move set of initiatives. Gögnin sem verður safnað verða aðgengileg almenningi fyrir milligöngu Umhverfisstofnunar Evrópu, European Environment Agency, fyrir hönd framkvæmdastjórnar ESB. Fyrstu gögn sem aðgengileg verða eru gögn ársins 2019. Þau verða gerð aðgengileg árið 2020.
Í áhrifamatinu er litið til nokkurra valkosta við að ákvarða fyrstu aðferðir ESB til að hamla losun koltvíoxíðs frá þungum ökutækjum. Meðal þeirra aðferða verða staðlar um slíka losun.
Í kjölfarið verður hafið samráð sem fólgið er í eftirfarandi aðgerðum:
- Samráð við hagsmunaaðila bæði í samtölum við einn aðila í einu og marga samtímis.
- Birtar verða niðurstöður kannana og úttekta sem framkvæmdastjórnin og hagsmunaaðilar láta gera.
- Opið samráð sem hefst fyrir árslok 2017.
Fyrsta opna samráðið um hvernig ætti að fylgjast með og gera grein fyrir losun koltvíoxíðs frá þungum ökutækum, m.a. með spurningum um hvernig ætti að setja staðla fyrir slíka losun, fór fram á tímabilinu 20. júlí til 28. október á síðasta ári. Greiningar hagsmunaaðila á þessu samráði frá 2016 munu fylgja niðurstöðum samráðsins sem nú er verið að kynna.
Vinnustofa verður haldin með þeim sem hagsmuna eiga að gæta og til að safna saman sjónarmiðum, upplýsingum og gögnum til að undirbúa samráðið. Skýrsla um niðurstöður samráðsins verður birt á vefsíðu samráðsins eftir að lokað hefur verið fyrir frekari athugasemdir.