Nr. 587/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 19. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 587/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23040021
Kæra […]
og barns hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 6. apríl 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, um að synja kæranda og barni hennar sem hún kveður heita […], vera fæddan […], ríkisborgara Sómalíu, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og barni hennar verði veitt staða flóttamanna hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og barni hennar verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og barni hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 7. október 2022 fyrir sig og barn sitt. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 15. nóvember 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 27. mars 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda og barni hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var þeim brottvísað og kæranda ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Voru framangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 6. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 25. apríl 2023. Viðbótargögn bárust kærunefnd 8. og 11. september 2023 og 9. október 2023.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kemur fram að hún byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi og ofsókna af hendi almennings vegna stjórnmálaskoðana.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og að henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kæranda, kom fram að það væri ungabarn og því ekki unnt að taka sjálfstætt viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kæranda væri grundvölluð á framburði móður þess og henni hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun í máli móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að barni kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis.
Kæranda var brottvísað frá landinu og henni ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljug innan frests sem henni hefði verið veittur yrði endurkomubann hennar fellt niður. Barni kæranda var brottvísað frá landinu.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda og barni hennar jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala hennar hjá Útlendingastofnun. Þar hafi hún greint frá því að vera sómölsk og að hún væri fædd og uppalin í Mógadisjú. Hún hafi flúið heimaríki sitt ásamt barni sínu 3. október 2022 og komið til Íslands fjórum dögum síðar. Þau mæðgin hafi flúið með aðstoð manns sem hafi átt að koma þeim til Kanada en eftir að hafa flakkað milli ótal flugvalla hafi hann yfirgefið þau á Keflavíkurflugvelli. Kærandi hafi ekki vitað hvar þau væru stödd, þ.e. í hvaða landi þau hafi orðið viðskila við smyglarann. Ein og óstudd með engra annarra kosta völ í stöðunni hafi kærandi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi sé meðlimur í samtökum kvenna í Sómalíu sem berjist m.a. gegn kynfæralimlestingu stúlkubarna í landinu, gegn því að stúlkubörn séu alltof ung gefin mönnum til hjúskapar og gegn misþyrmingu kvenna í Sómalíu almennt. Ástæðu flóttans reki kærandi til þátttöku sinnar í framangreindum samtökum og þeirrar hættu sem hún hafi staðið frammi fyrir vegna hennar. Jafnframt vegna almennra aðstæðna í landinu. Mikið mótlæti mæti þeim sem starfi á vegum hreyfingarinnar að sögn kæranda og sé skilaboðum þeim sem þau dreifi almennt mætt með miklu mótlæti og þ.a.l. þeim réttindum kvenna sem kærandi hafi barist fyrir. Fólk hafi tekið illa í upplýsingar og hvatningar kæranda til foreldra um að leyfa ekki kynfæralimlestingar stúlkubarna og að leyfa ekki börnum og ungmennum að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Al Shabaab. Vegna þessara baráttumála hafi kærandi sætt miklu áreiti af hálfu almennings og hafi skæruliðar Al-Shabaab ráðist á hana, hótað henni og skilið eftir líflátshótanir í símaskjóðu hennar. Al-Shabaab vinni gagngert að því að útrýma samtökunum sem hún hafi unnið fyrir og þannig hafi átt sér stað árás í Xalane þar sem höfuðstöðvar samtakanna séu, en í þeim hluta Sómalíu finnist flest embætti og opinberar stofnanir og því almennt verndað svæði þar sem lítið sé um slíkar uppákomur miðað við landið allt. Sé það til marks um heiftina sem ríki gegn samtökunum og þeim sem gangi undir þeirra flaggi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi ekki verið gerð athugasemd við framlagningu skjala eða frásögn hennar og hafi kærandi því talið að frásögn hennar um starf sitt hjá samtökunum væri óumdeild í málinu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið dregið í efa að hún hafi gegnt svo stóru hlutverki innan samtakanna sem hún hafi sjálf lýst og að störf hennar innan þeirra hafi gert hana að skotmarki Al-Shaabab samtakanna. Segi í ákvörðuninni að starfsmaður Útlendingastofnunar hafi hringt í símanúmerið sem skráð sé á bakhlið starfsmannaskírteinis kæranda 6. mars 2023 og sá sem hafi svarað hafi sagst ekki geta hjálpað. Kærandi telur Útlendingastofnun ekki geta byggt á svörum úr símtali um störf hennar fyrir framangreind samtök kvenna þar sem hún hafi hvorki verið viðstödd né haft nokkra kosti á að kynna sér efni þess símtals. Kærandi hafi sjálf haft samband við samtökin í Sómalíu og fengið afrit af tölvubréfum fyrrum samstarfskonu sinnar sem hún kveði yfirvöldum hér á landi heimilt að hafa samband við til að sannreyna frásögn sína. Þá hafi kærandi fengið fjölskyldu sína til að hafa samband við lögregluyfirvöld í Sómalíu og afla staðfestingar á að hún hafi tilkynnt líflátshótanir til lögregluyfirvalda og aðrar persónulegar hótanir af hálfu skæruliða á vegum Al-Shabaab hryðjuverkasamtakanna.
Í viðtali hafi kærandi lýst því sem svo að hlutverk hennar innan samtakanna hafi verið að dreifa boðskap þeirra, reyna að fræða fólk um líf og heilbrigði stúlkubarna, hvetja fólk og börn til að sniðganga Al-Shabaab og kynfæralimlestingar stúlkubarna o.fl. Þetta hafi kærandi og samstarfsfólk hennar meðal annars gert með því að mæta á staði þar sem þau hafi haft spurnir af að til stæði að gefa stúlkubarn til fullorðins manns eða láta stúlkubarn undirgangast kynfæralimlestingu. Hafi kærandi reynt að biðla til foreldranna og þrýsta á þá að endurhugsa málið og reyna að fá þau til að skipta um skoðun. Fyrir vikið hafi kærandi og samstarfskona hennar oft uppskorið mikla heift og reiði og hafi þær sætt níðyrðum, hótunum og jafnvel ofbeldi, s.s. grjótkasti. Hafi þetta verið verulega erfitt en kærandi hafi brunnið fyrir málstaðnum og mikilvægi boðskaparins. Kornið sem fyllt hafi mælinn hafi hins vegar verið þegar samstarfskona og vinkona kæranda, sem ávallt hafi ferðast með kæranda í störfum á vegum samtakanna, hafi verið myrt af hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab fyrir þær sakir einar að dreifa boðskapnum og fanga athygli hættulegra manna, þ.e. Al-Shabaab liða. Stuttu síðar hafi verið haft samband við kæranda símleiðis og henni hótað að hún yrði næst í röðinni. Kærandi kveði ekkert yfirvald vera til staðar í Sómalíu til að vernda sig og barn hennar gegn hótunum eða ofbeldi og óttist hún verulega um líf sitt og heilsu og þá hvað myndi verða um kornungan son sinn ef hún yrði myrt eða tekin til fanga af hálfu Al-Shabaab. Þá yrði barn kæranda útsett fyrir heilaþvotti og ömurlegri meðferð af hálfu Al-Shabaab. Lögreglan í Sómalíu óttist Al-Shabaab eins og aðrir og hafi takmarkaða getu til að vernda fólkið í landinu gegn þeim.
Kærandi krefst þess aðallega að henni og barni hennar verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til aðildar hennar að tilteknum þjóðfélagshópi og stjórnmálaskoðana hennar, sbr. d- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi aðhyllist grundvallarmannréttindi kvenna og stúlkubarna og berjist fyrir þeim í landi þar sem slík mannréttindi séu fjarri því að vera sjálfsögð. Fyrir starf sitt og aðild sína að kvenréttindastofnun Sómalíu hafi kærandi mátt þola ofbeldi, níðyrði, grjótkast og fleira af hálfu samborgara sinna sem sé háttsemi sem uppfylli alvarleikaskilyrði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé engin virk vernd lögregluyfirvalda eða annarra yfirvalda í landinu og þannig eigi kærandi enga von um virk verndarúrræði í landinu. Aukinheldur hafi kærandi verið skotmark Al-Shabaab. Hryðjuverkasamtökin hafi að sögn kæranda þegar myrt nánustu samstarfskonu hennar og ráðist á höfuðstöðvar samtakanna sem hún tilheyri. Jafnframt hafi samtökin hótað henni með skýrum hætti um yfirvofandi ofbeldi og líflát, en líflátshótanir uppfylli áskilnað a-liðar 2. mgr. 38. gr. laganna. Barn kæranda sé með sama hætti flóttamaður með hliðsjón af meginreglunni um einingu fjölskyldunnar. Þá eigi 4. mgr. 37. gr. ekki við í tilfelli kæranda. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni og barni hennar verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi flúið Sómalíu af ástæðuríkum ótta við vopnaðan ofbeldishóp sem eigi í átökum við aðra vopnaða hópa og skeyti þeir engu um mannslíf. Al-Shabaab hafi lagt heilu svæðin í rúst, myrt, pyndað og frelsissvipt fólk í gríðarlegu magni, hneppt börn í ánauð og herþjónustu og þannig mætti lengi telja. Þá óttist kærandi að verða fyrir handahófskenndu ofbeldi af hálfu átakahópa í landinu. Sú hætta sem bíði kæranda og barns hennar í Sómalíu vegi að rétti þeirra til lífs samkvæmt 2. gr. mannréttindasáttamála Evrópu og brjóti gegn banni gegn pyndingum, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. sáttmálans. Kærandi hafi þannig raunhæfa ástæðu til að óttast um líf sitt, heilsu og frelsi sitt og barns síns í heimaríki.
Til þrautavara krefst kærandi þess að henni og barni hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi búi við erfiðar félagslegar aðstæður í Sómalíu. Hún sé kona, einhleyp með ungt barn og vinni við að berjast fyrir mannréttindum í heimaríki sínu. Sómalía sé næst fátækasta þjóð í heimi og lífskilyrði í landinu slæm. Einstaklingar sem snúi aftur til Sómalíu njóti takmarkaðrar verndar frá stjórnvöldum og þyrfti kærandi að lifa í ótta um líf sitt og heilsu og þ.a.l. um hvað kæmi fyrir barn hennar ef hún hyrfi eða yrði drepin. Jafnframt séu kærandi og barn hennar í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga verandi einstæð móðir og barn langt frá heimahögum, án alls stuðningsnets. Horfa verði til þess að kærandi hafi flúið land ásamt ólögráða barni sínu sem sé rétt rúmlega eins árs gamalt. Af framburði kæranda sé ljóst að hún óski þess að barnið geti lifað í friðsælu landi og verið öruggt, en slíkt sé ómögulegt í heimaríki þeirra. Bersýnilegt sé að það sé barni kæranda ekki fyrir bestu að vísa því aftur til Sómalíu með móður sinni, en mat á því hvað börnunum sé fyrir bestu skuli ávallt vera ráðandi í málefnum barna í samræmi við barnalög nr. 76/2003, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, auk flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og laga um útlendinga, sbr. 5. mgr. 37. gr. laganna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á sér og barni sínu deili og því ekki sannað hver hún og barn hennar séu með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi og barn hennar væru frá Sómalíu þó auðkenni þeirra væri að öðru leyti óupplýst. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi og barn hennar séu sómalskir ríkisborgari.
Réttarstaða barns kæranda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
- 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
- 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
- 2022 UNICEF Somalia Annual Report (UNICEF Somalia, febrúar 2023);
- Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
- BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
- Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
- Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
- Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
- Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
- Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
- Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
- Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
- Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
- Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
- Country Policy and Information Note – Somalia: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, apríl 2018);
- Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
- DFAT Country Information Report Somalia (DFAT, 13. júní 2017);
- EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
- EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
- Freedom in the World 2023 – Somalia (Freedom House, 2023);
- Forms and prevalence of repeated FGM/C (EUAA, 21. apríl 2023);
- Humanitarian Needs Overview 2023 – Somalia (OCHA, 8. febrúar 2023);
- International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
- Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
- ‘On a rampage’: the African women fighting to end FGM
(https://www.theguardian.com/global-development/2021/jun/08/on-a-rampage-the-african-women-fighting-to-end-fgm, 9. júní 2021);
- Overview of Gender-Based Violence in Somalia – Advocacy Brief, 2021 (UNFPA Somalia, 5. mars 2021);
- Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
- Query response on Somalia: Al-Shabaab (2021 - March 2023) (leadership, objectives, structure; recruitment; areas of operation and activities; financing; attacks; targets; capacity to track individuals; state response) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. mars 2023);
- Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
- Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
- Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
- Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 15. júní 2023);
- Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
- Somalia: Al-Shabaab and local employees of AMISOM, the UN and other international organisations (Landinfo, 2. júní 2015);
- Somalia: Al-Shabaab Regains Lost Territories as Tax Dispute Halts Counter-Insurgency Operation (ACLED, 2. júní 2023);
- Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
- Somalia: Counter-Insurgency Operation Gains Regional Support in Phase Two as al-Shabaab Attacks and Political Differences Persist (ACLED, 21. apríl 2023);
- Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
- Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
- Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
- Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
- Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
- Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
- Somalia. Key crises to watch in 2023 (Acaps, 14. apríl 2023);
- Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
- Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
- Somalia – Security situation update (EUAA, 25. apríl 2023):
- Somalia Situation Update: April 2023 (ACLED, 21. apríl 2023);
- Somalia Situation Reports 2023 (UNICEF, september 2023);
- Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
- Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
- South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
- South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
- The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 25. september 2023);
- UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
- UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
- Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
- Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021) og
- World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).
Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Hinn 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.
Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 beri hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hafi hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.
Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna.
Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2022, sem fjallar um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, kemur fram að þeir sem tilheyri áhættuhópi vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab séu m.a. einstaklingar sem tengist eða taldir séu tengjast sómölskum yfirvöldum á einhvern hátt, einstaklingar sem taldir séu brjóta gegn sharía lögum eða tilskipunum sem Al-Shabaab hafi sett fram, þ. á m. þeir sem hafi yfirgefið Al-Shabaab, fjölmiðlamenn, einkum þeir sem gagnrýni Al-Shabaab, baráttufólk fyrir mannréttindum og einstaklingar sem Al-Shabaab hafi kúgað fé út úr. Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna geti einstaklingar sem starfi við þrif og önnur lágt sett störf hjá sómölskum stjórnvöldum eða AMISOM jafnframt verið skotmörk Al-Shabaab. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra samtaka geti einnig verið skotmörk, óháð stöðu þeirra innan stofnananna. Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn frjálsra félagasamtaka séu ekki sjálfkrafa skotmörk Al-Shabaab heldur fari það eftir ýmsu, t.a.m. hve mikil gagnrýni samtakanna sé á Al-Shabaab. Frjáls félagasamtök með tengsl við Bandaríkin séu hins vegar almennt skotmörk Al-Shabaab.
Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að Al-Shabaab hafi borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.
Í skýrslu EUAA frá 2021 kemur fram að konur og stúlkur standi frammi fyrir margs konar áskorunum í Sómalíu, m.a. þvinguðum hjónaböndum á barnsaldri, kynfæralimlestingum, heimilisofbeldi, kynferðis- og kynbundnu ofbeldi, auk takmarkana á skólagöngu. Samkvæmt skýrslunni eru konur sérstaklega berskjaldaðar gagnvart kynbundnu ofbeldi. Sómölsk lög og réttarkerfið veiti takmarkaða vernd gegn mismunun á grundvelli kyns. Konur eigi erfitt uppdráttar á mörgum sviðum, m.a. á sviði húsnæðis, menntunar og atvinnu. Þá njóti þær ekki jafnréttis þegar komi að því að erfa eignir og sé þeim oft neitað um þær eignir sem þær eigi lagalegan rétt á vegna félagslegra viðhorfa sem mismuni konum. Þá séu nauðganir, og annað kynferðisofbeldi, mjög útbreiddar og algengar í Sómalíu, einkum í Suður- og Mið-Sómalíu og á svæðum innan Puntlands. Meirihluti brotanna sé ekki tilkynntur til lögreglu, einkum sökum víðtæks refsileysis innan réttarkerfisins og ótta og skömm þolenda. Heimilisofbeldi í garð kvenna í Sómalíu sé jafnframt lýst sem „hömlulausu“. Konur séu berskjaldaðar fyrir kynferðislegu ofbeldi á vinnumarkaði og sé algengt að karlmenn, sem sjái um ráðningar innan bæði einkageirans og hins opinbera, krefjist einhvers konar kynlífsþjónustu gegn ráðningu. Konur hafi litla möguleika á að kvarta yfir slíku ofbeldi, en nær öruggt sé að konur missi vinnuna geri þær það. Fyrir vikið neyðist margar konur til að þola kynferðislega misnotkun til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Þá sé þátttaka kvenna í stjórnmálastörfum takmörkuð vegna viðhorfa sem einkennist af mismunun og fjandskap í garð þeirra. Einstæðar konur séu almennt í viðkvæmari stöðu en giftar konur, en skortur á vernd í bland við viðhorf feðraveldisins í Sómalíu leiði til mismununar og útilokunar einstæðra kvenna. Einstæðar konur standi t.a.m. frammi fyrir erfiðleikum við að leigja eigið húsnæði þar sem þær þurfi karlmann til að ábyrgjast leigufyrirkomulagið. Þá eigi einstæðar konur sérstaklega á hættu að sæta kynbundnu ofbeldi þar sem þær neyðist til að vera á vinnumarkaði til að geta mætt grunnþörfum fjölskyldu sinnar og vegna staðalímynda í samfélaginu sem álíti konur og stúlkur veikburða. Almennt sé ætlast til þess af samfélaginu að konur gangi í hjúskap ungar, þ.e. á unglingsárunum, eignist mörg börn og sjái um uppeldi þeirra og sinni húsverkum innan heimilisins. Í skýrslu óháðs sérfræðings mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála í Sómalíu frá 14. júlí 2021 kemur m.a. fram að staða kvenna og barna hafi versnað vegna Covid-19 faraldursins og ofbeldi, einkum inni á heimilum, hafi aukist verulega. Einnig hafi orðið aukning í kynfæralimlestingum kvenna og stúlkna. Þá hafi aðgerðir stjórnvalda í málefnum kvenna ekki fengið þá framgöngu sem ætlað hafi verið og lagafrumvarp um glæpi tengda kynmökum boði afturför og fari gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum skuldbindingum Sómalíu í þessum málaflokki.
Samkvæmt skýrslu UNICEF frá 2023 er Sómalía eitt hættulegasta land í heimi fyrir börn. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 öðlast barn sómalskt ríkisfang við fæðingu ef faðir barnsins er sómalskur ríkisborgari. Börn sómalskra mæðra geti öðlast sómalskt ríkisfang eftir tvö ár. Lágt hlutfall fæðinga sé skráð í landinu. Samkvæmt skýrslunni mæla sómölsk lög fyrir um endurgjaldslausa grunnmenntun barna. Þrátt fyrir það sé menntun ekki endurgjaldslaus. Jafnframt séu börn ekki skyldug til að ganga í skóla og á mörgum svæðum innan Sómalíu hafi börn ekki aðgang að skóla. Nærri tveir þriðju hlutar barna á skólaaldri gangi ekki í skóla, m.a. af öryggisástæðum, vegna fátæktar og skorts á skólum. Þá þurfi börn oft að þola barnaþrælkun vegna fátæktar fjölskyldunnar, auk þess sem stúlkubörn séu þvinguð í hjónaband samkvæmt skýrslu UNICEF frá 2023. Barnaníð og kynferðisbrot gegn börnum, þ.m.t. nauðgun, sé alvarlegt vandamál. Engin lög séu í Sómalíu sem leggi bann við eða vinni gegn ofbeldi gagnvart börnum, þ.m.t. barnaníði. Ennfremur hafi sómölsk stjórnvöld ekki tekið nein skref til að berjast gegn misnotkun barna. Börn séu meðal helstu fórnarlamba samfélagslegs ofbeldis (e. societal violence) í Sómalíu. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 eru börn á innri flótta í Sómalíu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Börn og konur sem dvelji í flóttamannabúðum í Sómalíu eigi sérstaklega á hættu nauðganir af hálfu vopnaðra manna, þ. á m. hermanna.
Samkvæmt skýrslu aðalframkvæmdastjóra sem lögð var fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, dags. 15. júní 2023, bitna þurrkar og átök í landinu verst á konum og börnum sem séu rúmlega 80% þeirra sem séu á innri flótta. Þá sé talið að um 1,7 milljón barna á skólaaldri séu á vergangi og að einungis 20% þeirra hafi aðgang að grunnmenntun. Frá 8. febrúar 2023 til 31. maí 2023 hafi 482 brot gegn 376 börnum verið tilkynnt til sérstaks starfshóps um eftirlit með alvarlegum brotum gegn börnum. Tilkynnt hafi verið um tólf árásir á skóla og tíu árásir á sjúkrahús. Þá hafi verið tilkynnt um 139 börn sem hafi verið þvinguð til liðs við ólöglega vopnaða hópa, 145 börn sem hafi verið rænt, 43 börn sem hafi verið myrt, 79 börn sem hafi verið limlest og 50 stúlkur sem beittar hafi verið kynferðisofbeldi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá ágúst 2023 geta börn í Sómalíu sætt athöfnum sem eru svo alvarlegar í eðli sínu að þær jafngilda ofsóknum, t.a.m. kynferðisofbeldi, mansali og barnaþrælkun. Þegar athafnir séu hins vegar eingöngu mismunun í eðli sínu skuli einstaklingsbundið mat á því hvort slíkt geti talist ofsóknir taka mið af alvarleika og/eða endurtekningu athafnanna eða því hvort þær stafi af samsafni athafna. Einstaklingsbundið mat skuli m.a. taka mið af búsetusvæði barnsins innan Sómalíu, fjölskylduhögum þess og þeim stuðningi sem barninu standi til boða frá fjölskyldu og ættbálki. Svipaða umfjöllun er að finna í afstöðu Flóttamannastofnunar til fólks á flótta frá Sómalíu frá september 2022.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt skýrslunni hafi mikilvægi aðildar að tilteknum ættbálki breyst á undanförnum árum í höfuðborginni Mógadisjú. Hlutverk ættbálksins hafi í auknum mæli færst frá því að verja stöðu ættbálksins yfir í hlutverk félagslegrar aðstoðar og stuðnings. Þá sé lítið um ættbálkaerjur í Mógadisjú og afkoma meðlima minnihlutaættbálka ráðist ekki af aðild þeirra að ættbálkinum. Í skýrslunni kemur fram að víðtækur alþjóðlegur styrkur og stuðningur hafi hjálpað ríkisstjórn Sómalíu að bæta líf borgara sinna og almennt hafi lífsskilyrði íbúa í Mógadisjú batnað.
Í framangreindum gögnum kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur sé á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að í Mógadisjú hafi almennir borgarar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Í borginni sé aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og apótekum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab. Kærandi hafi starfað hjá kvenréttindasamtökum í Mógadisjú sem berjist m.a. gegn þvinguðum barnahjónaböndum, kynfæralimlestingum stúlkna og inngöngu ungmenna í Al-Shabaab. Kærandi greindi frá því að hafa borist líflátshótanir frá meðlimum Al-Shabaab og að samstarfskona hennar hafi verið myrt í kjölfar slíkra líflátshótana. Þá hafi kærandi einnig sætt áreiti og ofbeldi af hálfu almennings vegna starfa hennar í þágu mannréttinda kvenna og stúlkna í landinu.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa hafið störf hjá […] í febrúar 2019. Greindi kærandi frá því að starf hennar hafi einkum falist í samskiptum við ungmenni og foreldra þeirra þar sem hún hafi m.a. hvatt ungmenni til að ganga ekki til liðs við hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab og hvatt foreldra þeirra til að stöðva barnahjúskap og kynfæralimlestingar. Kærandi kvað samfélagið ekki hafa tekið vel í skilaboð hennar og hafi hún m.a. orðið fyrir grjótkasti. Þá hafi meðlimir Al-Shabaab hótað kæranda lífláti vegna hvatningu hennar til barna um að ganga ekki til liðs við samtökin. Kærandi hafi verið hrædd og einangruð frá samfélaginu þar sem fólk hafi álitið hana vera með rangar skoðanir, m.a. á kynfæralimlestingum og barnahjúskap. Kvaðst kærandi einkum óttast að verða myrt af Al-Shabaab. Kærandi lagði fram starfsmannaskírteini sitt hjá samtökunum og bréf frá bæjaryfirvöldum þess efnis að hún hafi starfað fyrir samtökin. Þá kvað kærandi samtökin eitt sinn hafa haldið úti Facebook-síðu en að síðan væri nú lokuð fyrir almenningi. Kvað kærandi samtökin ekki nota Facebook-síðuna lengur. Þá kvað hún samtökin ekki halda úti vefsíðu þar sem um væri að ræða lítil og staðbundin samtök.
Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 6. september 2023, var kærandi beðin um að leggja fram frekari gögn í tengslum við starf hennar hjá samtökunum, t.a.m. frumrit bréfsins frá bæjaryfirvöldum. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum um fjölskylduhagi kæranda, n.t.t um hvort kærandi hafi átt í góðu sambandi við eiginmann sinn og fjölskyldu í heimaríki, og um flótta eiginmanns kæranda. Í svari kæranda, sem barst kærunefnd með tölvubréfi 8. september 2023, kom fram að hún hafi átt erfitt með að afla gagna frá samtökunum þar sem ágreiningur hafi verið innan samtakanna um hver formaður þeirra væri. Þar sem starf kæranda hafi verið bundið því umdæmi sem hún hafi búið í, […], hafi verið auðveldara fyrir hana að fá staðfestingu frá bæjaryfirvöldum um störf hennar hjá samtökunum. Kvaðst kærandi hafa fengið bréfið sent frá ættingja sínum í gegnum samskiptamiðilinn WhatsApp og að hún hafi ekki frumrit þess undir höndum. Þá kom fram í svari kæranda að hún viti ekki hvar eiginmaður hennar sé niðurkominn og að hún sé í engu sambandi við hann. Kvað hún hann hafa starfað hjá fjarskiptafyrirtæki í Sómalíu sem hafi þjónustað stjórnvöld. Kærandi kvað eiginmanni sínum hafa borist hótanir frá Al-Shabaab vegna starfa sinna og að hann hafi verið sakaður um njósnir af samtökunum. Kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki haft fjármuni til að flýja land á sama tíma og því hafi þau flúið á sitthvorum tíma og af ólíkum ástæðum. Kærandi kvað samband sitt við eiginmann sinn hafa verið fullkomið. Þau hafi búið saman í heimaríki þar til eiginmaður hennar hafi flúið land í ágúst 2022. Í bréfi til kærunefndar, dags. 9. október 2023, kvaðst kærandi síðast hafa séð eiginmann sinn í ágúst 2022 og að hún sé að reyna að finna hann með aðstoð ættingja hans.
Hinn 6. september 2023 sendi kærunefnd tölvubréf til forsvarskonu samtakanna […], að beiðni kæranda, og óskaði eftir upplýsingum um hvort kærandi hafi starfað fyrir samtökin og hvaða stöðu hún hafi gegnt þar. Tölvubréf kærunefndar, sem stílað var á netfang sem kærandi gaf upp, var endursent þar sem ekki tókst að koma því til skila. Hinn 7. september 2023 sendi kærunefnd aftur tölvubréf á tvö skráð netföng samtakanna en annað þeirra var endursent og engin svör bárust frá hinu netfangi samtakanna. Að framangreindu virtu hefur kærandi því einungis lagt fram starfsmannakort sitt og afrit bréfs sem hún kveður vera frá bæjaryfirvöldum sínum í heimaríki til stuðnings frásögn sinnar um störf hennar í heimaríki. Ljóst er að afrit framangreinds bréfs hefur takmarkað sönnunargildi þar sem ekki er hægt að sannreyna lögmæti þess. Þá hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn, t.a.m. vinnutengd skjöl eða ljósmyndir, sem sýna fram á að hún hafi starfað við að halda einhvers konar námskeið eða málstofur fyrir ungmenni og foreldra í bænum eða að samstarfskona hennar hafi verið myrt af meðlimum Al-Shabaab er hún hafi verið að leysa kæranda af einn dag í ágústmánuði 2022.
Kærunefnd telur ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hún leggi fram einhver gögn sem styðja við frásögn hennar hvað varðar andlát samstarfskonu hennar, t.a.m. fréttagreinar eða lögregluskýrslur, eða gögn sem sýna fram á að kærandi hafi starfað við það sem hún kveðst hafa starfað við innan samtakanna. Skoðast það mat kærunefndar í ljósi þess að ekki er fulls samræmis að gæta milli frásagnar kæranda af starfsemi samtakanna og þeirra gagna sem kærunefnd hefur skoðað um samtökin. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að samtökin væru lítil og starfrækt á litlu svæði, auk þess sem þau væru hvorki með vefsíðu né virka Facebook-síðu. Skoðun kærunefndar leiddi þó í ljós að samtökin eru með virka Facebook-síðu undir heitinu […] og halda einnig úti vefsíðu, […]. Þá greindi kærandi frá því að ágreiningur væri innan samtakanna um hver formaður þeirra væri. Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera ekki með sér að samtökin séu lítil eða að þau séu starfrækt á litlu svæði innan Sómalíu. Heimildir bera ekki heldur með sér að ágreiningur sé uppi um hver forstöðumaður samtakanna sé, en samkvæmt fréttum og færslum á samfélagsmiðlum samtakanna er kona að nafni […] forsvarskona samtakanna og hefur gegnt því hlutverki í a.m.k. áratug. Dregur framangreint misræmi og skortur á þekkingu kæranda á samtökunum úr trúverðugleika frásagnar hennar.
Að framangreindu virtu telur kærunefnd, með vísan til framburðar kæranda og framlagðs starfsmannakorts hennar, ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að hún hafi á einhverjum tímapunkti starfað eða sinnt sjálfboðavinnu fyrir samtökin […]. Þá telur kærunefnd ekki ástæðu til að útiloka að kærandi hafi sætt einhvers konar áreiti af hálfu meðlima Al-Shabaab eða aðila með möguleg tengsl við samtökin vegna starfa hennar fyrir samtökin […]. Kærunefnd telur kæranda þó ekki hafa leitt rökstuddar líkur að því að hún sé það þekkt meðal Al-Shabaab, eða að hún hafi gegnt svo áberandi stöðu innan samtakanna, að hún muni verða sérstakt skotmark Al-Shabaab snúi hún aftur til heimaríkis.
Auk framangreinds bar kærandi fyrir sig að hafa sætt áreiti og ofbeldi af hálfu almennra borgara vegna starfs hennar. Kærunefnd telur ekki útilokað að hún hafi sætt áreiti frá einhverjum borgurum vegna boðskaps hennar. Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera þó ekki með sér að konur sem tali gegn Al-Shabaab, kynfæralimlestingum og barnahjúskap sæti meðferð af hálfu almennra borgara sem talist geta náð því alvarleikastigi að teljast til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Kærandi ber ekki fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki hennar sem hafi eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þótt fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í dómskerfinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Mógadisjú geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur því möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í Mógadisjú telji hún sig þurfa þess vegna áreitis eða ofbeldis annarra aðila en Al-Shabaab.
Kærandi hefur greint frá því að vera einstæð móðir. Þá kom fram í tölvubréfi frá henni til kærunefndar, dags. 11. september 2023, að foreldrar hennar og systkini hafi flúið Sómalíu vegna erfiðleika þar og ótta við Al-Shabaab. Kvaðst kærandi því ekki eiga stuðningsnet í Sómalíu. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022 eru aðstæður í Sómalíu ekki slíkar að allar konur teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli kyns síns. Samkvæmt skýrslunni geta konur og stúlkur í Sómalíu sætt athöfnum sem eru svo alvarlegar í eðli sínu að þær jafngilda ofsóknum. Þegar athafnir séu hins vegar eingöngu mismunun í eðli sínu, t.d. útskúfun, skuli einstaklingsbundið mat á því hvort slíkt geti talist ofsóknir taka mið af alvarleika og/eða endurtekningu athafnanna eða því hvort þær stafi af samsafni athafna. Frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun bar ekki með sér að hún hafi, kyns síns vegna, upplifað meðferð sem talist getur til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða að hún sé útsettari fyrir ofsóknum en aðrar konur í sambærilegri stöðu og hún. Kærandi er fædd og uppalin í Mógadisjú þar sem sómölsk stjórnvöld eru við stjórn. Frásögn kæranda ber með sér að hún hafi átt gott samband við fjölskyldu sína í heimaríki og sé ennþá í sambandi við þau. Þá var kærandi útivinnandi og kvaðst hafa haft það ágætt í heimaríki. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn, þrátt fyrir beiðni kærunefndar, sem sýna fram á að fjölskylda hennar hafi yfirgefið Sómalíu. Þá tilheyrir kærandi meirihlutaættbálkinum […] og verður ráðið af heimildum að hún geti notið stuðnings meðlima ættbálksins í heimríki. Í því ljósi er það mat kærunefndar að það sé ólíklegt að kærandi eigi ekki aðra ættingja í heimaríki en nánustu fjölskyldu sína, m.a. með vísan til þess að kærandi kveðst hafa fengið send gögn til Íslands frá ættingja sínum í heimaríki. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður kvenna er það mat kærunefndar að almennar aðstæður þeirra séu ekki slíkar að þær geti talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá benda gögn málsins ekki til þess að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu slíkar að hún teljist eiga á hættu ofsóknir á grundvelli kyns síns í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum.
Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barns kæranda nægilega komið á framfæri með framburði kæranda og hagsmunagæslu talsmanns.
Eins og áður hefur verið rakið kemur fram í skýrslu EUAA frá ágúst 2023 og í afstöðu Flóttamannastofnunar til fólks á flótta frá Sómalíu frá september 2022 að einstaklingsbundið mat á aðstæðum barna í Sómalíu skuli fara fram. Matið skuli m.a. taka mið af búsetusvæði barnsins innan Sómalíu, fjölskylduhögum þess og þeim stuðningi sem barninu standi til boða frá fjölskyldu og ættbálki. Kærunefnd horfir m.a. til þess að barn það sem um ræðir er í fylgd móður sinnar sem er heilsuhraust og vinnufær og nýtur barnið stuðnings hennar. Kærandi og barn hennar tilheyra meirihlutaættbálkinum […] sem er ráðandi í Mógadisjú og benda heimildir til þess að þau geti notið stuðnings og verndar ættbálksins telji þau þörf á því. Kærandi og barn hennar voru búsett í Mógadisjú í Sómalíu áður en þau yfirgáfu landið en samkvæmt landaupplýsingum eru sómölsk stjórnvöld með yfirráð yfir borginni og hefur öryggis- og mannréttindaástand þar batnað á undanförnum árum. Þá er ljóst að kærandi var félagslega og fjárhagslega vel stödd í heimaríki sínu. Hún hafði aðgang að menntun, kláraði gagnfræðiskóla og var á vinnumarkaði. Hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að barn kæranda geti einnig gengið í skóla. Þá bera gögn með sér að barn kæranda sé heilbrigt og muni jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki. Einstaklingsbundnar aðstæður barns kæranda benda ekki til þess að það sé sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi, mismunun eða barnaþrælkun í Mógadisjú. Kærandi hefur greint frá því að eiga ekki stuðningsnet í heimaríki þar sem fjölskylda hennar hafi flúið frá Sómalíu í febrúar 2023. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir þá frásögn hennar þrátt fyrir beiðni þess efnis af hálfu kærunefndar. Þá kvaðst hún eiga frænda í Sómalíu sem hafi sent henni gögn hingað til lands og verður því ráðið af framburði hennar, sem og landaupplýsingu um Sómalíu, að kærandi eigi ættingja í heimaríki sem geti veitt henni og barni hennar stuðning. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að barn kæranda fylgi móður sinni aftur til heimaríkis. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnsins, að það sé því fyrir bestu að fylgja móður sinni til heimaríkis síns.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún og barn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga.
Er því ljóst að kærandi og barn hennar uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Af landaupplýsingum er ljóst að öryggisástand er ekki gott í Mógadisjú. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í máli K.A.B. gegn Svíþjóð (mál nr. 886/11) frá 17. febrúar 2014 og R.H. gegn Svíþjóð (mál nr. 4601/14) frá 1. febrúar 2016 kemur fram að almennt öryggisástand í Mógadisjú hafi farið batnandi á undanförnum árum eftir að stjórnvöld höfðu náð yfirráðum í borginni. Þá var það afstaða dómsins að aðgengilegar landaupplýsingar bentu ekki til þess að aðstæður í borginni væru slíkar að íbúar ættu almennt á hættu að sæta meðferð sem bryti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því myndi endursending einstaklinga til Mógadisjú ekki brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins benda ekki til þess að aðstæður í Mógadisjú hafi breyst til hins verra frá uppkvaðningu framangreinds dóms eða séu slíkar að kærandi muni eiga á hættu meðferð sem brjóti gegn 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki talið að ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Þá er það mat kærunefndar, að virtum gögnum málsins og upplýsingum um aðstæður í Sómalíu, að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barns hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærandi og barn hennar uppfylla heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og barn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skal taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Kærandi ber því við að hún og barn hennar hafi ríka þörf fyrir vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi sjái fram á að búa við erfiðar félagslegar aðstæður í Sómalíu. Hún sé einhleyp kona með ungt barn og hafi barist fyrir fyrir mannréttindum í heimaríki. Sómalía sé næst fátækasta þjóð í heimi og lífskilyrði í landinu séu slæm. Ómögulegt sé fyrir son kæranda að vera öruggur í Sómalíu.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til niðurstöðu kærunefndar að framan verður ekki talið að almennar aðstæður í Mógadisjú séu slíkar að veita beri kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá horfir kærunefnd til þess að þrátt fyrir að kærandi sé einhleyp móðir tilheyrir hún meirihlutaættbálkinum […] sem er ráðandi í Mógadisjú. Meðlimir […] njóti góðs af því að tilheyra meirihluta í borginni. Kærandi er ung og hraust kona og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hún sé vinnufær og fær um að framfleyta sjálfri sér og barni sínu með aðstoð fjölskyldu og ættbálks síns. Kærandi kvaðst eiga eiginmann, foreldra og systkini auk annarra ættingja. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að þau hafi yfirgefið Sómalíu og verður því ekki lagt til grundvallar að hún og barn hennar geti ekki notið stuðnings þeirra í heimaríki. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og og barns hennar og mats á trúverðugleika hennar er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.
Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands 6. október 2022. Ekki hefur annað komið fram í viðtölum við kæranda en að hún og barn hennar séu við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barns hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og barn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. m útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barns kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barns hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barns hennar. Standa ákvæði 42. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barns hennar þangað.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 7. október 2022 fyrir sig og barn sitt. Eins og að framan greinir hefur umsóknum kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda og barns hennar til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kæranda og barni hennar úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.
Kæranda var sent bréf 1. febrúar 2023 þar sem henni var tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa henni og barni hennar frá Íslandi og ákvarða kæranda endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Í svari kæranda, dags. 2. febrúar 2023, kvaðst hún ekki hafa tengsl við Ísland eða önnur lönd innan Schengen-svæðisins. Kærandi kvaðst telja það ósanngjarna ráðstöfun í garð sinn og barns síns að brottvísa þeim þangað sem líf þeirra væri í hættu. Kærandi hafi sætt líflátshótunum af hálfu Al-Shabaab í Sómalíu og því biðji hún íslensk stjórnvöld um að veita þeim alþjóðlega vernd hér á landi.
Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hennar og barns hennar og endurkomubann hennar verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda eða nánustu aðstandenda hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hún Ísland innan þess frest sem henni er gefinn.
Í ákvörðunarorðum í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar er þeim brottvísað og kæranda ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og yfirgefi hún landið sjálfviljug innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda og barns hennar til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljug innan framangreinds frests.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar staðfestar.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar eru staðfestar. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hún sjálfviljug frá Íslandi innan 15 daga.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her child are affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir