Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2022
Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2022 liggur fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vef Fjársýslu ríkisins.
Helstu niðurstöður uppgjörsins eru:
- Afkoma ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 148,7 ma.kr.
- Afkoma fyrir fjármagnsliði er 61,3 ma.kr. betri en áætlun tímabilsins gerði ráð fyrir og er neikvæð um 59,2 ma.kr. Á sama tímabili í fyrra var afkoman neikvæð um 111,6 ma.kr.
- Tekjur fyrir fjármagnsliði námu 720,2 ma.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir 649,8 ma.kr. Tekjur hækka um 16% frá sama tímabili fyrra árs. Þar af voru tekjur af sköttum og tryggingagjöldum 59,3 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga eða 9,8%.
- Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 779,4 ma.kr. sem er 1,2% umfram áætlun tímabilsins en aukning um 6,4% milli ára.
- Fjármagnsjöfnuður tímabilsins var neikvæður um 85,2 ma.kr.
- Rekstrarafkoma án afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 144,4 ma.kr. en á sama tíma í fyrra var hún neikvæð um 158,7 ma.kr.
- Eignir ríkissjóðs námu í lok september samtals 2.809 ma.kr, skuldir samtals námu 2.785 ma.kr. og eigið fé var jákvætt um 24 ma.kr.
- Handbært fé í lok september var 418,8 ma.kr., sem er hækkun um 41,8 ma.kr. frá ársbyrjun. Rekstrarhreyfingar voru neikvæðar um 50,1 ma.kr., fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 14,4 ma.kr og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 78,3 ma.kr.
- Langtímaskuldir voru samtals 1.543,3 ma.kr. í lok september og jukust um 232,7 ma.kr. frá ársbyrjun.
- Fjárfestingar námu 44,1 ma.kr. en fjárfesting á sama tímabili síðasta árs var 39,8 ma.kr.
Hagstofa Íslands hefur birt bráðabirgðauppgjör um opinber fjármál fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins og er afkoma ríkissjóðs neikvæð um 104 ma.kr sem er 57 ma.kr betri afkoma frá sama tímabili 2021. Uppgjör Hagstofunnar er samkvæmt hagskýrslustaðlinum GFS og er birt fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild, þ.e. að meðtöldum sjóðum og fyrirtækjum sem falla undir A2- og A3-hluta ríkissjóðs.