Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 437/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 437/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. nóvember 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 23. október 2017 á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. 10. mars 2017, frá kæranda um að hann hefði orðið fyrir slysi við vinnu X 2016. Í tilkynningunni var slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið upp í stiga að gera við innkeyrsluhurð þegar stiginn hafi runnið undan honum og endað í gólfinu. Stofnunin hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 23. október 2017. Í bréfinu segir að almenn viðhaldsvinna á vegum björgunarsveitar í frítíma hins slasaða geti ekki fallið undir lög um slysatryggingar almannatrygginga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 24. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. desember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 8. janúar 2018, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2018. Viðbótargreinargerð barst frá Sjúkratryggingum Íslands með bréfi, dags. 16. janúar 2018, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að viðurkenndur verið réttur hans til greiðslu úr slysatryggingum almannatrygginga.

Í kæru segir að C reki björgunarsveit og séu höfuðstöðvar hennar að D. Ár hvert standi sveitin fyrir flugeldasölu í fjáröflunarskyni fyrir starfsemi sína, meðal annars í húsakynnum sínum að D. Hinn X 2016 hafi stór innkeyrsluhurð í húsnæði sveitarinnar bilað þegar vír hafi farið „af sporinu“ með þeim afleiðingum að hurðin hafi staðið galopin fyrir veðri og vindum. Vegna þessa hafi starfsmaður sveitarinnar brugðið á það ráð að hringja í kæranda í þeim tilgangi að fá aðstoð hans við að laga hurðina, en kærandi sé [...] og félagsmaður C.

Kærandi hafi mætt í félagsheimili sveitarinnar X 2016, [...]. Hann hafi fengið lánaðan stiga í eigu sveitarinnar og klifrað upp í hann áleiðis þar sem bilunina hafi verið að finna. Skömmu síðar hafi stiginn skyndilega runnið undan kæranda sem hafi fallið niður með stiganum og lent ofan á honum. Við þetta hafi kærandi fengið áverka á hægri olnboga sem hafi brotnað. Í kjölfarið hafi hann verið fluttur með sjúkrabíl á E þar sem gert hafi verið að meiðslum hans.

Kærandi hafi X 2017 tilkynnt slys sitt til Sjúkratrygginga Íslands með útfylltu eyðublaði stofnunarinnar. Í tilkynningunni sé hakað í reitinn „við björgunarstörf“ í svari við spurningunni hvernig slysið hafi atvikast. Einnig sé tilgreint að slysið hafi gerst utan eiginlegs vinnutíma hans eins og almennt eigi við um störf sjálfboðaliða í þágu björgunarsveita. Með bréfi, dags. 23. október 2017, hafi stofnunin upplýst um þá afstöðu sína að ekki væri heimilt að verða við umsókninni. Af höfnunarbréfinu megi ráða að stofnunin líti svo á að þar sem kærandi hafi ekki fengið greiðslu eða laun fyrir umrætt verk þá séu ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga til samþykktar umsókninni. Til viðbótar sé því hafnað að slysið falli undir björgunarstörf, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Kærandi geti ekki sætt sig við afstöðu Sjúkratrygginga Íslands, enda telji hann ákvörðun stofnunarinnar ekki vera lagalega rétta. Honum sé því nauðsynlegt að kæra hana til úrskurðarnefndar velferðarmála og geri hann þá kröfu að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu úr slysatryggingum almannatrygginga.

Krafa kæranda byggi á því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 23. október 2017 sé bæði efnislega röng og byggi á röngum forsendum. Að mati hans nái gildissvið laga nr. 45/2015 til slyssins. Til þess sé að líta að slysatryggingar almannatrygginga taki til slysa við vinnu, björgunarstörf o.fl., enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Í 2. mgr. sömu greinar sé „vinna“ skilgreind á þann hátt að viðkomandi sé á vinnustað á þeim tíma þegar honum sé ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2015 séu slysatryggðir samkvæmt lögunum meðal annars eftirtaldir:

„a. Launþegar sem starfa hér á landi að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslensku loftfari, eða skipi eða loftfari sem er gert út eða rekið af íslenskum aðilum, jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið, enda séu laun greidd hér á landi. […]

d. Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.“

Í 3. mgr. 7. gr. sé launþegi skilgreindur sem hver sá sem taki að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um sé að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.

Kærandi byggi á því að hann heyri bæði undir a- og d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2015, enda teljist hann bæði vera launþegi þegar umrætt verk hafi verið unnið ásamt því að það hafi verið unnið til að verja yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.

Að því er varðar a-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þá hafi kærandi unnið umbeðið verk fyrir C án þess að þiggja greiðslu fyrir. Staðreyndin sé aftur á móti sú að starfsemi björgunarsveitarinnar gangi beinlínis út á sjálfboðaliðastarf meðlima sveitarinnar. Án þeirra aðkomu væri sveitin einfaldlega ekki til. Sveitin sé ekki rekin með hagnað að meginmarkmiði heldur sé tilgangur hennar allt annar og meiri.

Við úrlausn málsins beri að líta til þess að verkið sem kærandi hafi leyst af hendi hafi sannanlega verið „vinna“ í skilningi laga nr. 45/2015. Það að eiginlegt endurgjald hafi ekki fengist fyrir geti ekki talist úrslitaatriði í málinu, einkum með hliðsjón af megintilgangi starfsemi C. Jafnvel þótt kærandi hafi ákveðið að gefa verk sitt í umrætt skipti sé kjarninn sá að hann hafi nýtt sérfræðiþekkingu sína til að vinna í þágu annars. Eftirgjöfin sé augljóslega tilkomin vegna tengsla kæranda við björgunarsveitina.

Í sambandi við framangreint sé bent á að í lögum nr. 45/2015 sé björgunarsveitarfólki mörkuð sérstaða í störfum sínum, sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. þar sem þeir, sem vinni að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiriháttar tjóni á verðmætum, séu slysatryggðir jafnvel þótt viðkomandi fái engar launagreiðslur fyrir björgunarstarfið sem slíkt. Ýti það augljóslega undir þá nálgun að sjálfboðaliðar björgunarsveita séu tryggðir slysatryggingu almannatrygginga þegar þeir vinna störf í þágu sveitarinnar. „Eðli“ þeirrar vinnu sem björgunarsveitarfólk vinni fyrir sveit sína skipti ekki máli við ákvörðun þess hvort þeir séu slysatryggðir heldur einvörðungu hvort vinnan sé unnin að beiðni sveitar.

Í annan stað vísi kærandi máli sínu til stuðnings til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 29. september 2004 í máli nr. 187/2004. Málavextir hafi verið þeir að kærandi hafi unnið sem verktaki V ehf. þegar hann hafi fallið úr stiga og slasast. Tryggingastofnun hafi synjað um bótaskyldu þar sem hvorki væri að sjá laun né reiknað endurgjald samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra. Í niðurstöðu nefndarinnar segi meðal annars eftirfarandi:

„Tryggingagjald er ekki iðgjald fyrir slysatryggingar skv. Almannatryggingalögum. Hvergi í almannatryggingalögum er ákvæði sem segir að skil á opinberum gjöldum sé eitt af skilyrðum þess að vera slysatryggður skv. III. kafla laganna. Það að umsækjandi um slysabætur hefur staðið skil á lögboðnum gjöldum er hins vegar þýðingarmikið sönnunaratriði varðandi það atriði að viðkomandi hafi verið í vinnu þá er slys varð. Þar að auki verður að líta til annarra málsgagna. Fyrir liggur bréf C ehf. dags. 13. september 2004 þar sem staðfest er að kærandi hafi verið verktaki hjá C ehf. þegar hann slasaðist. Þá liggja fyrir skýrslur lögreglu og Vinnueftirlitsins sem kölluð voru á slysstað. Það er mat úrskurðarnefndar að líta verði á þær skýrslur sem sönnun þess að kærandi hafi slasast við vinnu.

Grundvallaratriði er að kærandi var við vinnu þegar slysið varð og er bótaskylda samkvæmt 24. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar viðurkennd.“

Samkvæmt úrskurðinum sé algjört grundvallaratriði að tjónþoli hafi verið við vinnu þegar hann hafi slasast. Úrskurðurinn staðreyni að endurgjaldið fyrir vinnuna sé ekki aðalatriðið heldur það að unnið hafi verið verk í þágu annars. Það skilyrði sé uppfyllt í máli kæranda. Aðstæður í úrskurðinum og máli hans séu allar hinar sömu. Hann hafi beinlínis verið kallaður til af fyrirsvarsmanni björgunarsveitar, beðinn um að vinna tiltekið verk og slasast við framkvæmd þess.

Að síðustu sé bent á að verði nálgun Sjúkratrygginga ofan á þá leiði það til þess að kærandi eigi hvorki bótarétt úr slysatryggingu almannatrygginga né frítímaslysatryggingu sinni. Ástæðan sé sú að vátryggingafélag hans hafni greiðsluskyldu úr tryggingunni með þeim rökum að í skilmálum komi fram að vátryggingin taki ekki til slysa sem vátryggður verði fyrir í starfi, hvort sem um sé að ræða launað starf eða arðbært í eigin þágu eða annarra sem atvinnuslysahætta fylgi. Sú niðurstaða geti ekki undir neinum kringumstæðum staðist, enda leiði hún til þess að kærandi þurfi að bera tjón sitt sjálfur að öllu leyti.

Athygli sé vakin á því að staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands leiði sú niðurstaða til þess að björgunarsveitir verði framvegis að kaupa þjónustu vegna allra viðgerða, smárra sem stórra, þar sem félagsmenn muni augljóslega ekki fást til að sinna verkunum í sjálfboðavinnu, enda ótryggðir við framkvæmd verksins. Ítrekað sé að samtök eins og björgunarsveitir reiði sig á vel gerða félagsmenn sem fórni tíma frá störfum og fjölskyldum til að bregðast við hverju einu sem upp kemur, hvort heldur að losa bifreiðar á Hellisheiði eða aðstoð við viðhald fasteigna og véla í eigu sveitanna. Allt þetta sé mikilvægur þáttur í því að tryggja starfsemi þeirra. Ítrekuð sé sú sérstaða sem björgunarsveitarfólki sé tryggð í lögum nr. 45/2015.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þá séu þeir slysatryggðir sem vinni að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum samkvæmt ákvæðinu. Í höfnunarbréfi Sjúkratrygginga Íslands komi fram að í framkvæmd hafi slys á æfingum björgunarsveita almennt verið látin falla undir greinina en eftir standi að lengra verði vart gengið. Að mati stofnunarinnar geti almenn viðhaldsvinna á vegum björgunarsveita í frítíma ekki fallið undir lögin.

Kærandi byggi á því að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna, enda hafi hann á slysdegi unnið að vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum björgunarsveitarinnar. Við úrlausn málsins sé mikilvægt að líta til þess að Sjúkratryggingar Íslands túlki lagaákvæðið mjög rúmt. Því til staðfestingar sé áréttað að í höfnunarbréfi sé beinlínis vísað til þess að slys við æfingar teljist til aðstæðna sem heyri undir lagagreinina, jafnvel þótt lagaákvæðið fjalli alls ekkert um æfingar. Sömu lögskýringarsjónarmið þurfi að hafa að leiðarljósi þegar leyst sé úr máli hans.

Að mati kæranda þurfi ekki að fjölyrða að hann hafi unnið umrætt verk í þeim augljósa tilgangi að varna því að verðmæti C myndu skemmast. Verðmætin felast einkum í skoteldum sem sveitin hafi haft til sölu fyrir áramótin. Um ræðir langstærstu og mikilvægustu fjáröflun sveitarinnar til að tryggja starfsemi á komandi rekstrarári. Fyrst sé til þess að líta að skoteldar séu viðkvæmir fyrir raka. Það að bílskúrshurð af stærstu gerð standi galopin fyrir veðri og vindum sé ekki til þess fallið að verja flugelda gegn raka og bleytu. Hættan af því að skoteldarnir myndu skemmast hafi því verið yfirvofandi.

Meðfylgjandi kæru séu staðfestingar Veðurstofu Íslands um veðurfar á slysdegi. Af þeim megi ráða að hvasst hafi verið, allmikil úrkoma og raki, bæði um kvöldið og nóttina. Ekki þurfi að spyrja að leikslokum ef ekki yrði gripið inn í. Hagsmunir björgunarsveitarinnar af aðgerðum kæranda hafi falist í því að verja söluvarninginn þannig að unnt væri að selja hann til neytenda, heilan og óskemmdan.

Í annan stað verði ekki litið fram hjá því að á framleiðendum skotelda hvíli ríkar skyldur sem tíundaðar séu í reglugerð nr. 414/2017 um skotelda. Meðal skyldna framleiðenda og innflutningsaðila skotelda sé að geyma skoteldana við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra að því er varði öryggi, svo sem gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv., sbr. 3. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 22. gr. Uppfylli leyfishafi ekki þessi skilyrði um varðveislu skotelda kunni það að leiða til þess að leyfisveitandi afturkalli skilyrði fyrir leyfinu, sbr. 1. mgr. 40. gr. reglugerðarinnar, hvort heldur til bráðabirgða eða varanlega. Hagsmunir björgunarsveitarinnar af vinnu kæranda í þágu hennar séu augljóslega miklir með hliðsjón af þessu. Hefði ekkert verið gert með tilliti til hurðarinnar hefði það getað leitt til afturköllunar á leyfinu þar sem geymsla skoteldanna væri þá ekki við fullnægjandi aðstæður að því er varði öryggi, sbr. framangreint orðalag reglugerðar nr. 414/2017. Augljóst sé að í aðgerðum kæranda hafi falist varnir gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum sveitarinnar. Skilyrði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2015 séu uppfyllt.

Með vísan til alls framangreinds sé ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þess sé krafist að nefndin kveði upp úrskurð þess efnis að viðurkenndur verði réttur kæranda til greiðslu úr slysatryggingu almannatrygginga vegna afleiðinga slyssins 29. desember 2016.

Í athugasemdum kæranda eru eftirfarandi ummæli úr greinargerð Sjúkratrygginga Íslands rakin: „Rétt er þó að launagreiðslur hafa ekki verið taldar ófrávíkjanleg forsenda fyrir tryggingu á grundvelli a. liðar 1. mgr. 7. gr. laganna en sönnunargildi þeirra er þrátt fyrir það mikið“. Í þessu felst að mati kæranda staðfesting á málatilbúnaði hans þess efnis að endurgjald fyrir vinnu, sem leyst sé af hendi í þágu annars, sé ekki afdráttarlaus krafa þess að viðkomandi sé tryggður slysatryggingu almannatrygginga. Aðstæður allar bendi í þá einu átt að slysatrygging almannatrygginga taki til kæranda, enda hafi hann unnið í þágu björgunarsveitar sem njóti sérstöðu að því leyti að öll starfsemi hennar byggi á framlagi félagsmanna án þess að fá endurgjald fyrir.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé því mótmælt að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga 29. september 2004 í máli nr. 187/2004 hafi fordæmisgildi. Því sé haldið fram að „gögn málsins báru með sér að hinn slasaði hafi sannarlega verið í vinnu er slysið átti sér stað óháð því að launatengdum gjöldum var ekki skilað inn“. Útgangspunkturinn í máli kæranda sé einmitt sá sami; hann hafi verið við vinnu í skilningu laga í þágu björgunarsveitarinnar þegar stiginn, sem björgunarsveitin hafi útvegað honum, hafi runnið undan með þeim afleiðingum að kærandi hafi slasast. Endurgjaldið sé ekki aðalatriðið heldur verkið sem slíkt, „vinnan“.

Til viðbótar sé bent á að í tilvísuðum úrskurði segi orðrétt: „Þá liggja fyrir skýrslur lögreglu og Vinnueftirlitsins sem kölluð voru á slysstað. Það er mat úrskurðarnefndar að líta verði á þær skýrslur sem sönnun þess að kærandi hafi slasast við vinnu.“

Nákvæmlega sömu aðstæður séu uppi í máli kæranda. Lögreglan og Vinnueftirlitið hafi verið kölluð til af fyrirsvarsmönnum C. Vinnueftirlitið komi eðlilega einungis að í þeim tilvikum þegar starfsmenn slasist við vinnu, líkt og hér. Þá beri vinnuveitanda að tilkynna án ástæðulausrar tafar öll slys til eftirlitsins þar sem starfsmaður verði óvinnufær í einn eða fleiri daga, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Fyrirsvarsmenn björgunarsveitarinnar hafi fylgt þeirri skyldu til hins ítrasta á slysdegi. Að þessu virtu telji kæranda hreinlega blasa við að slys hans hafi gerst í vinnu fyrir björgunarsveitina og af þeirri ástæðu sé hann tryggður slysatryggingu almannatrygginga.

Í greinargerðinni sé fjallað með heldur léttvægum hætti hvers vegna engin yfirvofandi hætta hafi verið fyrir hendi á slysdegi með vísan til þess að „einfaldlega væri um að ræða bilun á hurð í miðri höfuðborg landsins“. Því hefði „hæglega“ mátt kalla til eitt af þeim fyrirtækjum sem sinna sólarhringsþjónustu og óska eftir viðgerð án tafar.

Að mati kæranda sé umfjöllun Sjúkratrygginga Íslands útúrsnúningur frá kjarna málsins. Hurðin hafi sannanlega verið biluð. Hagsmunir flugbjörgunarsveitarinnar sem í húfi hafi verið vegna biluðu hurðarinnar hafi falist í því að flugeldar innandyra skemmdust ekki. Þess vegna hafi þurft að bregðast snarlega við og fá hurðina lagaða. Söluverðmæti flugeldanna telji í fleiri milljónum króna og eigi sveitirnar tilveru sinni að þakka góðri og áfallalausri sölu flugelda á hverju ári. Hagsmunirnir af verndun skoteldanna hafi því sannanlega verið verulegir. Því sé það röng nálgun hjá Sjúkratryggingum Íslands að hengja hagsmunina af viðgerð hurðarinnar við kostnað sem af henni hlytist.

Það að „hæglega“ hafi mátt kalla til þjónustuaðila og óska eftir viðgerð sé að sama skapi ekki það sem málið snúist um. Hvers vegna að stofna til óþarfa kostnaðar þegar þekkingin og getan hjá eigin félagsmönnum hafi verið til staðar. Ítrekað sé að starfsemi félagssamtaka á borð við björgunarsveitir gangi einmitt út á aðstoð félagsmanna, enda sé rekstur sveitanna umfangsmikill og dýr.

Sjúkratryggingar Íslands haldi því fram að vakta hefði mátt húsnæðið eða plasta fyrir gatið. Málið sé ekki svo auðvelt. Húsnæðið hafi verið fullt af viðkvæmum og beinlínis hættulegum varningi sem mikilvægt hafi verið að vernda fyrir bleytu og raka. Til viðbótar hafi gert vont veður um kvöldið og nóttina. Plast yfir jafnstórt gat hefði einfaldlega fokið burt. Ekki hafi verið hægt að ferja flugeldana annað, enda húsnæðið þegar yfirfullt varningi í upphafi flugeldasölunnar þann X. Eina leiðin hafi verið að koma hurðinni í lag og það sem allra fyrst.

Til undirstrikunar á gildissviði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga sé bent á að ákvæðið taki til þeirra sem vinna að björgun manna úr lífsháska „eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.“ Í skáletraða textanum felist að hver sá einstaklingur, félagsmaður björgunarsveitar eða ekki, sem taki að sér, beðinn eða óbeðinn, að bjarga verðmætum frá yfirvofandi meiri háttar tjóni sé slysatryggður almannatryggingum. Slíkt sé í reynd óhrekjanlegt, enda geti aðstæður verið þannig að einstaklingur eigi ekki á annars kosta völ en að grípa til sinna ráða til að verjast yfirvofandi meiri háttar á tjóni á verðmætum. Orðalag ákvæðisins sé víðtækt og beri að skýra inntak þess rúmt. Sanngirnisrök mæli sömuleiðis með því.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að um slysatryggingar almannatrygginga sé fjallað í II. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og séu launþegar slysatryggðir við vinnu sína að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga taki lögin til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. laganna.

Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði þegið laun eða aðra greiðslu fyrir það verk sem verið var að vinna þegar slysið átti sér stað. Erindi Sjúkratrygginga Íslands hafi verið ítrekað með erindi, dags. 10. maí 2017. Þann 22. september 2017 hafi loks borist tölvupóstur frá lögmanni kæranda. Þar hafi komið fram að kærandi hafi enga greiðslu eða laun þegið fyrir umrætt verk, verkið hafi hann unnið í sjálfboðavinnu líkt og önnur störf sem félagar í björgunarsveitinni inni af hendi í þágu hennar.

Því hafi legið fyrir að aðeins hafi komið til skoðunar hvort að slysið gæti fallið undir björgunarstörf, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Í d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna komi fram að slysatryggðir séu þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum. Í framkvæmd hafi slys á æfingum björgunarsveita almennt verið látin falla undir greinina. Eftir standi að lengra verði vart gengið.

Hafi það verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að almenn viðhaldsvinna á vegum björgunarsveitar í frítíma hins slasaða gæti þannig ekki fallið undir lög um slysatryggingar almannatrygginga.

Í ljósi framangreinds hafi ekki verið talið heimilt að verða við umsókn kæranda um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga.

Kærandi byggi annars vegar á því að hann sé sannarlega launþegi í skilningi a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga og hins vegar að um björgunarverk hafi verið að ræða í skilningi d-liðar sama ákvæðis.

Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands sé slysið tilgreint sem slys utan við vinnutíma/í frítíma. Þá sé einnig tilgreint að um slys við björgunarstörf hafi verið að ræða.

Í 3. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga komi fram að launþegi teljist hver sá sem taki að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um sé að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.

Fyrir liggi að kærandi hafi aldrei þegið endurgjald fyrir vinnu sína hjá umræddri björgunarsveit. Ekki tímakaup, ekki föst laun, ekki aflahlut og ekki greiðslu á grundvelli ákvæðisvinnu. Því hafi raunar heldur ekki verið haldið fram að annað endurgjald hafi komið fyrir vinnu kæranda.

Rétt sé þó að launagreiðslur hafi ekki verið taldar ófrávíkjanleg forsenda fyrir tryggingu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna en sönnunargildi þeirra sé þrátt fyrir það mikið. Þannig hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga litið til allra atvika í heild sinni ef launagreiðslur hafi ekki verið fyrir hendi á slysdegi. Atvik í þeim úrskurði sem lögmaður kæranda vísi til, sem og í málum nr. 350/2004 og 57c/2000, séu þó ekki sambærileg og í því máli sem hér um ræði. Atvik hafi þannig verið með þeim hætti í nefndum málum að ljóst var að hinn slasaði hafi sannarlega verið að vinna verk sem stóð til að greiða ætti endurgjald fyrir. Í framangreindu máli frá 2004 hafi framkvæmdarstjóri félagsins þannig verið í sumarfríi en þurft að mæta til vinnu vegna sérstakra atvika er slysið varð. Í málinu frá 2000 hafi verið um að ræða framkvæmdastjóra félags sem hafi ekki fengið greidd laun fyrir vinnu sína vegna gjaldþrots félagsins. Þá hafi það verið svo í málinu sem lögmaður kæranda vísi til að hinn slasaði hafi verið talinn vera í vinnu er slysið varð, enda hafi gögn málsins borið það með sér óháð því að launatengdum gjöldum hafi ekki verið skilað inn. Því hafi ekki verið haldið fram að hinn slasaði hafi verið í sjálfboðavinnu en aftur á móti hafi legið fyrir gagn í málinu frá félaginu að hinn slasaði hafi sannarlega verið verktaki hjá félaginu.

Í lok umfjöllunar lögmanns kæranda er varði meintan rétt kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna sé vísað til þess að staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þá verði það til þess að björgunarsveitir þurfi framvegis að kaupa þjónustu vegna viðgerða þar sem félagsmenn muni augljóslega ekki fást til þess að framkvæma slík verk ótryggðir.

Hið rétta sé að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. nr. 43/2003 laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn sé björgunarsveitum skylt að tryggja björgunarsveitarmenn vegna slysa er þeir kunni að verða fyrir í störfum sínum á vegum björgunarsveita. Ætti réttur til slysabóta þannig að vera til staðar hjá viðkomandi tryggingafélagi. Þá sé rétt að benda á að augljóst sé að slík niðurstaða, þ.e. aukin útgjöld björgunarsveita vegna aðkeyptrar vinnu, geti ekki lagt þær skyldur á Sjúkratryggingar Íslands að greiða bætur andstætt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og í raun þannig fært eðlilegan rekstrarkostnað frá björgunarsveitum yfir á stofnun ríkisins án lagaheimildar.

Ákvæði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga eigi rætur sínar að rekja til laga nr. 26/1936 um alþýðutryggingar, en þar komi fram að slasist maður eða láti lífið við björgun eða tilraun til björgunar manns í lífsháska skuli hann eða eftirlifandi vandamenn eiga rétt til slysabóta eftir sömu reglum og slysatryggðir menn. Árið 1963 hafi svo verið bætt við ákvæði sem tryggði sama rétt til þeirra sem vörnuðu yfirvofandi meiriháttar tjóni á verðmætum en engar skýringar hafi fylgt þeirri grein.

Megi því vera ljóst að um sé að ræða sanngirnisákvæði í tilgreindum sérstökum aðstæðum til að koma til móts við hinn slasaða þegar um hafi verið að ræða björgun mannslífa eða vörn gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni.

Máli sínu til stuðnings vísi lögmaður kæranda til þess að flugeldar björgunarsveitarinnar lægi undir skemmdum og að leyfi sveitarinnar til sölu á slíkum flugeldum væri í húfi.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi engin yfirvofandi hætta verið á slíkum skemmdum eða leyfissviptingu, heldur hafi einfaldlega verið um að ræða bilun á hurð [...]. Hæglega hefði mátt kalla til eitt af þeim fyrirtækjum sem sinni sólarhringsþjónustu og óska eftir viðgerð án tafar. Af því hefði eðlilega hlotist kostnaður en alvanalegt sé að fyrirtæki gefi björgunarsveitum afslátt af vinnu sinni.

Málið snúist því ekki um að bjarga björgunarsveit frá stórtjóni í formi skemmda á flugeldum og/eða leyfissviptingu heldur að forða björgunarsveitinni frá kostnaði við viðgerð á umræddri hurð. Kostnaður við slíka viðgerð verði seint talin til meiri háttar tjóns fyrir sveitina. Þá verði að ætla að til dæmis hefði mátt loka hurðargatinu með plasti og vakta húsnæðið þar til viðgerð færi fram, þá væntanlega næsta dag.

Hér sé heldur lítið gert úr hinu mikilvæga ákvæði d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Ákvæðið yrði mjög víðtækt ef fella mætti atvik sem þessi undir. Væri þá framkvæmd komin langt út fyrir það afmarkaða hlutverk sem því hafi verið ætlað í upphafi.

Sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að staðfesta beri hina fyrirliggjandi ákvörðun stofnunarinnar frá 23. febrúar 2017.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að verði almenn vinna björgunarsveitamanna felld undir lög um slysatryggingar almannatrygginga yrði eftir atvikum að fella slys sem verði í frítíma einstaklinga undir lögin, enda hafi umrætt verk/vinnan verið unnið í þágu annarra. Ljóst megi vera að 7. gr. slysatrygginga almannatrygginga verði ekki skilin á þann veg.

Þá megi nefna að hugtakið vinna megi heimfæra undir flestar athafnir eða verk einstaklinga en ekki sé þar með sagt að umræddar athafnir eða verk falli undir 7. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Í a-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga er kveðið á um að launþegar sem starfi hér á landi séu slysatryggðir samkvæmt lögunum. Skilgreiningu á launþega er að finna í 3. mgr. 7. gr. laganna þar sem segir að launþegi teljist hver sá sem taki að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um sé að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu. Þá eru þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum slysatryggðir samkvæmt lögunum, sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna.

Sjúkratryggingum Íslands barst 18. mars 2017 tilkynning um slys kæranda. Í tilkynningunni kemur fram að slysið hafi orðið við björgunarstörf fyrir C. Þá var slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið upp í stiga að gera við innkeyrsluhurð þegar stiginn hafi runnið undan og endað í gólfinu. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. október 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að slysið ætti ekki undir lög um slysatryggingar almannatrygginga. Í bréfinu kemur fram að lögmaður kæranda hafi upplýst að kærandi hafi enga greiðslu eða laun þegið fyrir umrætt verk, verkið hafi verið unnið í sjálfboðavinnu líkt og önnur störf sem félagar í björgunarsveitinni inni af hendi í þágu hennar. Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að stofnunin telji að hvorki skilyrði 1. mgr. 5. gr. laganna um slys við vinnu né slys við björgunarstarf séu uppfyllt, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 7. gr.

Kærandi telur að hann hafi heyrt undir a-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þar sem verkið sem hann hafi leyst af hendi hafi sannarlega verið „vinna“ í skilningi laganna. Það að eiginlegt endurgjald hafi ekki fengist fyrir geti ekki talist úrslitaatriði í málinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að horfa beri heildstætt á hvert mál fyrir sig við mat á því hvort viðkomandi hafi verið launþegi í skilningi laga um slysatryggingar almannatrygginga. Þrátt fyrir það er ljóst að það er ófrávíkjanlegt skilyrði þess að teljast launþegi samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatryggingar að viðkomandi fái endurgjald fyrir vinnuna. Ágreiningslaust er að kærandi hlaut ekki endurgjald í neinu formi fyrir vinnu sína og ekki stóð til að hann fengi það síðar. Úrskurðarnefnd telur því að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 5. gr. laganna um slys við vinnu, sbr. a-lið 1. mgr. 7. gr.

Þá telur kærandi að hann hafi heyrt undir d-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatryggingar þar sem hann hafi unnið að vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum björgunarsveitarinnar. Hann hafi unnið verkið í þeim augljósa tilgangi að varna því að verðmæti C skemmdust og koma í veg fyrir afturköllun á leyfi til innflutnings skotelda.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi um miðnætti þann X 2016 að vinna við að laga innkeyrsluhurð í C þegar stiginn, sem hann stóð í, rann undan og kærandi féll í gólfið. Í kæru kemur fram að vír hafi farið „af sporinu“ með þeim afleiðingum að hurðin hafi staðið galopin fyrir veðri og vindum. Kærandi hafi verið að vinna umrætt verk í þeim tilgangi að varna því að verðmæti sveitarinnar, einkum skotelda sem hún hafði til sölu fyrir áramótin, skemmdust.

Sem fyrr segir eru þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum slysatryggðir samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Seinni hluti ákvæðisins var tekinn upp í lög með lögum nr. 40/1963 en í athugasemdum við frumvarp laganna er ekki að finna athugasemdir eða skýringar á reglunni. Við túlkun á reglunni telur úrskurðarnefnd velferðarmála að horfa beri til þess að henni hafi verið skeytt aftan við regluna um að þeir sem vinni að björgun manna úr lífsháska séu slysatryggðir. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur því svo á að tilgangur lagasetningarinnar hafi verið að jafna aðstöðumun þeirra sem vinna björgunarstörf, þannig að þeir sem vinna hættuleg björgunarstörf séu slysatryggðir hvort sem þeir vinna að björgun manna úr lífsháska eða komi að vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var vinna kæranda við að lagfæra innkeyrsluhurðina áríðandi til þess að vernda bæði skotelda og önnur verðmæti C. Þó telur úrskurðarnefnd að líta verði til þess að ekki var um eiginlegt björgunarstarf að ræða. Með hliðsjón af fyrrgreindum tilgangi lagaákvæðisins er það því niðurstaða úrskurðarnefndar að vinna kæranda í máli þessu verði ekki jafnað til vinnu að vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum í skilningi d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2015 slysatryggingar almannatrygginga.

Að framangreindu virtu er synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna slyss A, sem hann varð fyrir X 2016 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta