Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 449/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 449/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. nóvember 2017, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. júní 2017 á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi X 2017 þegar hún datt á leiðinni í sturtu á hótelherbergi. Í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, dags. X 2017, kemur fram að slysið hafi átt sér stað í vinnuferð í C á vegum D. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 20. júní 2017, á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er slysið átti sér stað. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. september 2017, var mál kæranda endurupptekið og bótaskyldu synjað á sömu forsendu og í fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. desember 2017. Með bréfi, dags. 6. desember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. desember 2017, barst greinargerð Sjúkratrygginga Íslands og var hún kynnt lögfræðingi kæranda með bréfi, dags. 19. desember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn hennar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

Í kæru segir að samkvæmt gögnum málsins hafi slysið átt sér stað er kærandi var í vinnuferð erlendis X 2017 þar sem hún hafi sótt fund. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið á leiðinni í sturtu á hótelherbergi sínu að morgni fundardags er baðmotta hafi runnið undan henni með þeim afleiðingum að hún hafi skollið niður í baðið og hlotið við það brot á hægri öxl og hægri rist. Kærandi hafi tilkynnt slysið strax í móttöku hótelsins og hafi það verið skráð þar. Jafnframt hafi hún látið fundarmenn vita hvað hefði gerst og hefði flýtt heimför. Þegar heim var komið hafi kærandi farið á bráðamóttöku þar sem hún hafi fengið staðfestingu á að um brot á öxl og rist hafi verið að ræða.

Þegar kærandi hafi lent í umræddu slysi hafi hún verið í vinnuferð í C á vegum vinnuveitanda síns, D. Þegar vinnuveitandi kæranda hafi fengið upplýsingar um slysið hafi verið send inn tilkynning um vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands, dags. X 2017. Þann X 2017 hafi kærandi fengið bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem umsókn hennar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga hafi verið hafnað á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er slysið hafi átt sér stað. Slysið hafi átt sér stað á hótelherbergi, en ekki fundarstað, og áður en skipulögð dagskrá hafi byrjað. Þá hafi það verið í tengslum við daglega athöfn en ekki í tengslum við starfsskyldur kæranda.

Kærandi hafi sent ósk um endurupptöku málsins til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. ágúst 2017, þar sem hún hafi hafnað því algerlega að hún hafi ekki verið við vinnu þegar slysið átti sér stað. Umrædd ferð hafi alfarið verið vinnuferð, þ.e. tveir fundardagar og ferðadagar fyrir og eftir. Meðfylgjandi kæru sé bréf kæranda um þátttöku á fundinum, dagskrá fundardaganna og upplýsingar um fundarstað og gistingu, hvoru tveggja á E. Þá sé einnig meðfylgjandi flugbókun með F, en kærandi hafi flýtt ferð sinni heim um einn dag eftir slysið og hafi því flogið samkvæmt sömu áætlun til Íslands X 2017. Af gögnum málsins megi vera ljóst að ferðin hafi eingöngu verið vinnuferð og kærandi hafi verið á launum umræddan tíma. Kærandi hefði alls ekki verið í C á umræddu hóteli ef hún hefði ekki verið fulltrúi D á fundi G. Í fyrrgreindu bréfi Sjúkratrygginga Íslands til kæranda frá X 2017 hafi verið tiltekið að slysið hefði verið í tengslum við daglega athöfn en ekki í tengslum við starfsskyldur. Því verði ekki mótmælt að persónuleg umhirða sé dagleg athöfn, en af augljósum ástæðum hafi kærandi ekki átt þess kost að fara í sturtu á heimili sínu að morgni umrædds fundardags og hafi því þurft að nýta sér hreinlætisaðstöðuna á hóteli því er fundurinn hafi verið haldinn á og slysið hafi átt sér stað. Kærandi hafi einnig talið það vera hluta af starfsskyldum sínum að vera sómasamlega útlítandi sem fulltrúi íslenskra stjórnvalda á alþjóðlegum fundum.

Þann 5. september 2017 hafi borist bréf frá Sjúkratryggingum Íslands varðandi endurupptöku málsins. Í bréfi stofnunarinnar hafi því verið hafnað að slys kæranda væri bótaskylt á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga er slysið hafi átt sér stað. Slysið hafi átt sér stað á hótelherbergi en ekki fundarstað og áður en skipulögð dagskrá hafi byrjað. Þá hafi slysið verið í tengslum við daglega athöfn en ekki í tengslum við starfsskyldur kæranda.

Í lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga segi í 1. gr. að markmið laganna sé meðal annars að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna vinnuslysa og í b-lið 2. mgr. 5. gr. fyrrnefndra laga segir að maður teljist vera við vinnu þegar hann sé í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem séu farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildi um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður sé á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Líkt og áður hafi komið fram þá höfnuðu Sjúkratryggingar Íslands bótaskyldu á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki verið við vinnu þegar slysið átti sér stað þar sem hún hafi verið stödd á hótelherbergi en ekki fundarstað og áður en skipulögð dagskrá hafi byrjað. Þá hafi slysið verið í tengslum við daglega athöfn en ekki í tengslum við starfsskyldur hennar.

Jafnvel þótt líta megi svo á að persónuleg umhirða sé alla jafna hluti af daglegri athöfn þá horfi málið öðruvísi við í þessu máli. Vinnuveitandi kæranda, D, sendi kæranda sem sinn fulltrúa í umrædda vinnuverð, greiddi henni laun þann tíma sem ferðin stóð yfir og einnig hafi verið gert ráð fyrir því að hún væri til taks allan tímann í C. Kærandi hafði því ekkert val um það að sinna sinni persónulegri umhirðu heima hjá sér þar sem hún hafi verið stödd erlendis. Frá því að kærandi hafi stigið um borð í flugvélina til C og þar til hún hafi komið aftur heim til Íslands hafi hún verið í vinnu á vegum atvinnurekanda síns og því verði að leggja að jöfnu vinnustað hennar og hótelherbergi það er umrætt slys varð, þar sem hún var þá og þegar í vinnu.

Í 3. mgr. 5. gr. laganna sé tilgreint að tryggingin taki til „allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis við friðargæslustörf.“ Slysatrygging almannatrygginga nái því yfir slys á sjómönnum hvort sem þeir séu á vakt eða frívakt, á sjó eða landi svo lengi sem skipið sé ekki í heimahöfn eða á útgerðarstað. Sjómenn séu því tryggðir við daglegar athafnir, svo sem bað eða sturtu, óháð því hvort sú athöfn eigi sér stað á þeim tíma sem þeir eigi að vera á vakt eða séu á frívakt. Friðargæsluliðar íslenska ríkisins séu, samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 5. gr. laganna, því einnig tryggðir við daglegar athafnir óháð því hvort þeir séu við vinnu eða í frítíma.

Í 65. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sé skýrt kveðið á um að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum.“ Markmið reglunnar sé að koma í veg fyrir ómálefnalega mismunun, henni sé ætlað að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega úrlausn.

Ekki verði annað séð, með tilvísun til 3. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, en að um ómálefnalega mismunun sé að ræða í afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda, þar sem sjómenn og friðargæsluliðar, hinir síðartöldu séu sannarlega starfsmenn ríkisins, njóti tryggingaverndar við daglegar athafnir í vinnu og utan hennar, allan þann tíma sem þeir séu utan heimahafnar eða erlendis við störf. Eins og fram komi í áður tilvísaðri tilkynningu velferðarráðuneytisins hafi kærandi verið við störf erlendis þegar slysið átti sér stað.

Af framangreindu megi vera ljóst að kærandi hafi verið í sendiferð á vegum atvinnurekanda síns samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. laganna frá því hún hafi stigið um borð í flugvél F til C og þar til hún hafi komið aftur til Íslands X 2017 og teljist allur sá tími sem ferðin hafi tekið vera vinnutími í skilningi EFTA dómstólsins, sbr. dóm í máli E-19/16 (Torbjørn Selstad Thue gegn Noregi). Jafnframt teljist kærandi hafa verið að störfum á vegum atvinnurekanda síns er hún varð fyrir slysinu, sbr. mál úrskurðarnefndar almannatryggingar í máli nr. 279/2004, en í því máli var fallist á að kærandi hefði verið í ferð á vegum vinnuveitanda síns þar sem ferðin hafi verið samblanda af skemmtiferð og kynningu. Bótaskylda hafi verið viðurkennd þrátt fyrir að ferðin hafi ekki verið farin á hefðbundnum vinnutíma og kærandi hafi ekki fengið greitt fyrir ferðina.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að við úrlausn málsins hafi verið litið til II. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt 5. gr. laganna séu launþegar slysatryggðir við vinnu. Hvenær einstaklingur teljist vera við vinnu sé tilgreint í 2. mgr. 5. gr. en þar komi fram að einstaklingur teljist vera við vinnu þegar hann sé á vinnustað á þeim tíma sem honum sé ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum. Einnig ef hann sé í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar séu samdægurs á milli vinnustaðar eða heimilis eða matstaðar. Í 1. mgr. 5. gr. komi einnig fram að með slysi sé átt við skyndilega utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður sé og gerist án vilja hans. Þá segi í 3. mgr. 5. gr. laganna að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hljótist af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að skilyrði 5. gr. laganna hafi ekki verið talin uppfyllt þar sem kærandi hafi ekki verið talin hafa orðið fyrir slysi við vinnu eða í beinum tengslum við vinnu í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt gögnum málsins hafi slysið orðið er kærandi hafi verið í vinnuferð erlendis þar sem hún hafi sótt fund. Hún hafi verið á leiðinni í sturtu á hótelherbergi sínu að morgni fundardags er baðmotta hafi runnið undan henni með þeim afleiðingum að hún hafi skollið niður í baðið. Kærandi hafi hlotið brot á hægri öxl og hægri rist við fallið. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi verið talið ljóst að kærandi hafi ekki verið við vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna er slysið átti sér stað. Slysið hafi átt sér stað utan skipulagðrar dagskrár fundarins sem kærandi hafi sótt í umræddri vinnuferð. Þá hafi slysið átt sér stað í tengslum við daglega athöfn en ekki í tengslum við starfsskyldur kæranda og skilyrði 3. mgr. 5. gr. því heldur ekki talin uppfyllt. Slys við daglegar athafnir falli ekki undir slysatryggingu almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 45/2015.

Í kæru komi meðal annars fram að jafnvel þótt megi líta svo á að persónuleg umhirða sé alla jafna hluti af daglegri athöfn þá horfi málið öðruvísi við í máli kæranda. Frá því að kærandi hafi stigið um borð í flugvélina til C og þar til hún hafi komið aftur heim til Íslands hafi hún, að hennar mati, verið í vinnu á vegum atvinnurekanda síns og því verði að leggja að jöfnu vinnustað hennar og hótelherbergi þar sem umrætt slys varð, þar sem hún hafi þá þegar verið í vinnu.

Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi verið í ferð í þágu vinnuveitanda í C þegar slysið átti sér stað X 2017. Starfsskyldur kæranda hafi verið að sækja fundi samkvæmt skipulagðri dagskrá. Í ljósi þess að slysið hafi átt sér stað á þeim tíma sem kæranda hafi ekki ætlað að vera að störfum samkvæmt skipulagðri dagskrá ferðarinnar hafi það verið mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki verið vinnu þegar slysið átti sér stað samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Þá hafi athöfnin sem slysið stafaði af, þ.e. að þvo sér í sturtu, ekki verið í neinu sambandi við starf kæranda í skilningi 3. mgr. 5. gr. laganna. Máli sínu til stuðnings vísi stofnunin til niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 245/2011 og nánari rökstuðning í synjun stofnunarinnar um endurupptöku frá 5. nóvember 2017.

Í kæru vísi kærandi til ákvæðis 3. mgr. 5. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu nái slysatrygging almannatrygginga yfir slys á sjómönnum hvort sem þeir séu á vakt eða frívakt, á sjó eða í landi, svo lengi sem skipið sé ekki í heimahöfn eða á útgerðarstað. Það sama gildi um friðargæsluliða samkvæmt umræddu ákvæði. Kærandi telji að hér sé um ómálefnalega mismunun að ræða hjá Sjúkratryggingum Íslands þar sem framangreindir aðilar njóti tryggingarverndar við daglegar athafnir í vinnu eða utan hennar, allan þann tíma sem þeir séu utan heimahafnar eða erlendis við störf.

Kærandi hafi réttilega bent á að sjómenn og friðargæsluliðar njóti ríkari tryggingarverndar en aðrir hópar samkvæmt lögum nr. 45/2015. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglunni að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hljótist af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna. Undantekning gildi um tvo hópa, sjómenn og friðargæsluliða. Að öðru leyti verði meginreglan í raun skilin svo að um leið og einstaklingur aðhafist eitthvað sem ekki tengist beinlínis framkvæmd vinnu falli tryggingaverndin niður. Löggjafinn hafi með þessari undantekningarreglu tryggt framangreindum hópum ríkari tryggingarvernd en öðrum starfshópum og megi ætla að ástæðan fyrir því séu hættueiginleikar starfa þeirra, þótt það sé hvergi með skýrum orðum tekið fram í lögskýringargögnum.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands eigi dómur EFTA dómstólsins í máli E-19/16 (Torbjørn Selstad Thue gegn Noregi) ekki við í málinu, enda hafi þar verið um að ræða ráðgefandi álit um hvort ferð á leið til og frá vinnu utan hinnar hefðbundinnar starfsstöðvar falli undir hugtakið vinnutíma í skilningi 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB. Ef kærandi hefði verið á leið sinni til fundarstaðar eða aðra viðburði skipulagðrar dagskrár þá hefði hún notið tryggingaverndar, en launþegar séu tryggðir samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga á beinni leið til og frá vinnu, sbr. 5. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Þá hljóðar 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr. laganna svo:

„Maður telst vera við vinnu:

a. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma þegar honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem eru farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis við friðargæslustörf.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins sem úrskurðarnefndin telur nægileg. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort slys kæranda X 2017 hafi orðið við vinnu í skilningi 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. X 2017, um slys kæranda. Í tilkynningunni kemur fram að kærandi hafi verið í vinnuferð í C á vegum atvinnurekanda vegna þátttöku á G. Í lýsingu á tildrögum og orsökum slyssins segir að kærandi hafi verið á leiðinni í sturtu í baðkari á hótelherbergi sínu að morgni fyrri fundardags þegar baðmottan hafi runnið undan henni svo hún hafi skollið niður í baðið með þeim afleiðingum að bæði hægri öxl og hægri rist hafi brotnað. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki verið í vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga er slysið átti í sér stað. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að slysið hafi átt sér stað á hótelherbergi en ekki á fundarstað og áður en skipulögð dagskrá hafi byrjað.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var kærandi ekki við vinnu í skilningi a-liðar 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þar sem hún var ekki á vinnustað á þeim tíma þegar henni var ætlað að vera að störfum. Við mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 5. gr. laganna telur úrskurðarnefndin að túlka verði ákvæðið eftir orðanna hljóðan á þá leið að skilyrðið um að vera við vinnu „[í] sendiferð í þágu atvinnurekstrar“ sé uppfyllt frá upphafi sendiferðarinnar þar til henni lýkur. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var í ferð á vegum atvinnurekanda þegar slysið átti sér stað. Úrskurðarnefndin telur því að skilyrði b-liðar 2. mgr. 5. gr. laganna sé uppfyllt.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að þar sem slysið hafi átt sér stað í tengslum við daglega athöfn, en ekki í tengslum við starfsskyldur kæranda, sé skilyrði 3. mgr. 5. gr. laganna ekki talið uppfyllt. Í ákvæðinu segir að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hljótist af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna. Því kemur til skoðunar hvort að 3. mgr. 5. gr. laganna eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að megintilgangur slysatrygginga almannatrygginga sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga verði að áskilja að minnsta kosti nokkur tengsl á milli athafnarinnar sem leiddi til slyssins við vinnu og framkvæmd hennar. Þar af leiðandi ræðst bótaskylda í þessu máli á því hvort sú athöfn kæranda að fara í sturtu á hótelherbergi áður en fundardagskrá hófst hafi nokkur tengsl við vinnu og framkvæmd hennar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður við túlkun á 3. mgr. 5. gr. laganna að líta til þess að samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. eru starfsmenn slysatryggðir í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar. Sem fyrr segir verður að túlka ákvæðið eftir orðanna hljóðan á þá leið að tryggingaverndin gildi frá upphafi sendiferðar þar til henni lýkur. Tryggingavernd starfsmanna í sendiferðum verður því ekki þrengd á þann hátt að einungis athafnir í tengslum við formlega dagskrá sendiferðarinnar falli undir slysatryggingu almannatrygginga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að sú athöfn að fara í sturtu fyrir vinnufund á hóteli, þar sem ráðstefnan var haldin og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sá um að bóka fyrir kæranda, sé ekki svo fjarlægð starfi hennar að athöfnin teljist ekki standa í neinu sambandi við vinnuna í skilningi 3. mgr. 5. gr. laganna.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi verið við vinnu samkvæmt b-lið 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þegar hún varð fyrir slysi 8. júní 2017. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu vegna slyss A, sem hún varð fyrir X 2017, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta